Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 09:04:15 (7696)

2000-05-13 09:04:15# 125. lþ. 118.1 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[09:04]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og starfsemi þar er gullgerðarvél sem gefur um 1.000 millj. kr. tekjur á ári og eiga þær eftir að fara ört vaxandi. Þegar til lengri tíma er litið eru skuldir flugstöðvarinnar smáaurar einir.

Ekki er að undra að fjármálaöflin hafi hvatt sína menn til að hefja einkavæðingu þessa mesta samgöngumannvirkis þjóðarinnar með því að gera það að hlutafélagi. Auðvitað er ömurlegt til þess að hugsa að við stjórnvölinn skuli sitja ríkisstjórn sem þjónar þessum öflum en gætir ekki almannahags, í því efni bæði viljalaus og máttlaus. Þetta er bæði ömurlegt og þetta er líka dapurlegt.

Hitt vita svo flestir, að fyrir hæstv. utanrrh. vakir ekki síður að komast í skjól hlutafélagalaga til að véla um mannahald og annað á Keflavíkurflugvelli án óþægilegra afskipta Alþingis. Nú reynir á hvort meiri hluti Alþingis lætur hann hafa sig til þessara verka.