Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 09:41:54 (7703)

2000-05-13 09:41:54# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[09:41]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að mér finnast vinnubrögðin að því er þetta mál varðar og málsmeðferð fyrir neðan virðingu Alþingis og fyrir neðan virðingu þess embættis sem þetta mál varðar og með öllu óþolandi að þetta mál sé tekið á dagskrá eins og hér hefur verið gert. Málið er tekið til 1. umr. og ætlunin er greinilega að gera það að lögum núna á nokkrum klukkutímum. Þessum vinnubrögðum mótmæli ég.

Auðvitað er sjálfsagt að skoða það að afnema skattfrelsi forseta Íslands og maka hans og vissulega er hægt að taka undir að það er á skjön við jafnræðisreglu að forsetinn og maki hans séu undanþegin öllum opinberum gjöldum og sköttum eins og tekjuskatti, eignarskatti, virðisaukaskatti og fjármagnstekjuskatti. En okkur bera skylda til að skoða hver áhrifin af afnámi skattfrelsis forseta Íslands verða og hvaða áhrif það geti haft á launakjör annarra embættismanna. Ég mun óska eftir að það mál verði sérstaklega skoðað í efh.- og viðskn. sem fær málið til meðferðar. Ég vænti þess, herra forseti, að nefndin fái eðlilegan tíma til að fjalla um þetta mál.

Það er rétt að þetta mál er ekki að koma fyrir þingið í fyrsta skipti. Það kom bæði fyrir 115. löggjafarþing 1991--1992 og síðan fyrir 120. löggjafarþing 1995. Þá hafði þetta mál miklu eðlilegri aðdraganda en nú er og vinnubrögðin í kringum það voru eðlilegri. Á 120. löggjafarþingi kom málið inn fyrir jólin. Það var sex mánuði til meðferðar í þinginu áður en það var afgreitt úr nefnd með tveimur nál. en að vísu kom það ekki til atkvæðagreiðslu við 2. umr.

Athyglisvert er að þegar málið kemur úr nefnd eftir að hafa verið þar í sex mánuði þá vekur meiri hluti allshn. --- þá fór þetta mál til allshn. --- athygli á því að, með leyfi forseta:

,,Kjaradómur ákveður laun forseta Íslands og margra æðstu ráðamanna þjóðarinnar. Hefur dómurinn jafnan reynt að gæta samræmis í ákvörðunum sínum og er því ekki útilokað að hækkun launa forsetans leiddi jafnframt til hækkunar launa annarra embættismanna. Ef svo færi gæti slík breyting ein og sér sett af stað ákveðna keðjuverkun í kjaramálum opinberra starfsmanna.``

Undir þetta rita hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, Jón Kristjánsson, Hjálmar Jónsson, Árni R. Árnason, Ísólfur Gylfi Pálmason og Kristján Pálsson.

[09:45]

Það er því ljóst að á þessum tíma höfðu þingmenn áhyggjur af þeirri keðjuverkun sem gæti fylgt því að afnema skattfrelsi forseta Íslands. Ég held að full ástæða sé til þess að hafa þær áhyggjur. Það er alveg ljóst að Kjaradómur tekur í ákvörðunum sínum tillit til þess að laun forsetans og önnur kjör eru undanþegin skatti, en í síðasta úrskurði Kjaradóms segir, með leyfi forseta:

,,Forseti Íslands hefur ætíð verið með hæst laun þeirra sem Kjaradómur ákvarðar laun. Eðlilegt þykir að halda þeirri venju. Sé tekið tillit til skattleysis forsetans eru laun hans þó í raun mun hærri en fram kemur í ákvörðun Kjaradóms.``

Ég held að þetta ætti að vera nægileg vísbending til þess að það er nokkuð öruggt, a.m.k. má segja mjög miklar líkur á því, að Kjaradómur muni ákvarða forsetanum miklu hærri laun ef þetta frv. verður samþykkt.

Því hefur verið haldið fram, og mér er sagt að þeir útreikningar komi frá fjmrn., að ígildi skattfríðinda forsetans nemi sem samsvarar milli 700 og 800 þús. kr., þ.e. ef forsetinn nýtir sér að fullu þau skattfríðindi sem hann getur. Nú er ég ekki að segja að núverandi forseti eða aðrir hafi nýtt sér þessi skattfríðindi að fullu vegna þess að þau taka til virðisaukaskatts, tollalaga, fjármagnstekjuskatts og fleiri skattalaga. En hafi það verið nýtt að fullu hefur fjmrn. reiknað þetta út þannig að gera má ráð fyrir að laun hans hækki verulega.

Við þekkjum það að samkvæmt úrskurði Kjaradóms hafa laun forsrh. verið ívið lægri en laun forseta Íslands vegna þess að, eins og hér segir í úrskurði Kjaradóms, forseti hefur ætíð verið með hæstu launin sem Kjaradómur ákvarðar, og síðan segir Kjaradómur: ,,Eðlilegt þykir að halda þeirri venju.`` Því má ætla að við þá ákvörðun að breyta nú launum forseta muni fylgja launahækkun til forsrh. og greinilega einnig til handhafa forsetavalds sem hafa haft skattfríðindi þegar þeir eru handhafar forsetavalds og þeir hafa hluta af launum forseta þannig að örugglega mun fylgja þessu launahækkun til hæstv. forseta og annarra handhafa forsetavalds.

Ef þetta hjól fer að snúast og þessi spá gengur eftir, sem ég held að sé nokkuð mikið til í, þá koma auðvitað aðrir ráðherrar á eftir þegar forsrh. hefur hækkað vegna þess að mönnum mun örugglega þykja að það sé nokkuð mikill launamunur á kjörum forsrh. og forseta ef laun forseta hækka upp í 1--1,3 millj. en forsrh. situr með 600 þús. kr. laun. Hjólið mun því fara að snúast og sennilega mun þetta leiða til hækkunar hjá öllum sem taka laun samkvæmt ákvörðun Kjaradóms. Þá kemur kjaranefnd á eftir sem ákveður laun fyrir fjölda aðila og þá getum við spurt í lokin: Hvaða áhrif getur það haft ef þessu hjóli er hleypt af stað og æðstu embættismenn ríkisins hækka í kjölfar þess að Kjaradómur úrskurðar nú hækkun á launum forseta? Þetta ber okkur að skoða vandlega og meta vegna þess að það er ekki hægt að segja bara að hér sé ekki verið að ákvarða neina hækkun á launum forseta með því að afnema skattlagninguna, það sé í höndum Kjaradóms. Við getum þá dregið okkar ályktanir af því. Það er ekki vafi í mínum huga, þar sem ljóst er að Kjaradómur hefur í ákvörðun sinni haft hliðsjón af því að forsetinn er ekki skattlagður, að þá hefur það komið þannig fram að laun hans eru lægri og þar með væntanlega líka laun hæstv. forsrh. sem ávallt hefur haft lítillega lægri laun en forseti.

Síðan má spyrja hvaða afleiðingar þetta hefur á lífeyrisréttindi vegna þess að þetta hefur ekki bara þau áhrif að við afnemum nú skattfríðindi forseta og síðan gerist ekkert á eftir vegna þess að ef launin hækka, hækka líka lífeyrisréttindi forsetans og væntanlega líka annarra ráðamanna ef laun þeirra hækka líka og þá þarf að meta áhrifin af þessu fyrir ríkissjóð. Maður spyr um tilganginn. Flutningsmenn halda því fram að hér muni raunverulega ekkert gerast nema að skattlagningu á kjörum forsetans verði breytt vegna þess að ríkissjóður yrði jafnsettur á eftir. En ég hygg að þetta gæti haft víðtækari áhrif en menn vilja vera láta.

Það má spyrja um önnur lönd. Hvernig er skattfríðindum háttað í þeim löndum sem við berum okkur saman við, þar sem t.d. er forseti eins og hér? Þá mætti kannski líta til Finnlands. Í gögnum sem ég hef undir höndum frá 3. mars 1999 segir að í Finnlandi sé forsetinn undanþeginn skattskyldu hvað varðar laun, eftirlaun maka, barnalífeyri og kostnað við rekstur húsnæðis og annan kostnað greiddan af ríkinu. Kóngafjölskyldurnar í Noregi, Svíþjóð og Danmörku eru undanþegnar álagningu skatta þannig að svoleiðis virðist það vera þar og þekki ég ekki til víðar og mun það vafalaust verða upplýst í efh.- og viðskn. fái hún málið til meðferðar.

Herra forseti. Ég held því að við verðum að fara mjög varlega í þessu efni. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. sem er viðstaddur þessa umræðu hvort hann óttist ekki að þetta geti haft þessi keðjuverkandi áhrif sem ég hef nefnt, að ef úrskurður Kjaradóms hækkar laun forsetans, sem ég tel allar líkur á verði þetta frv. að lögum, muni laun annarra embættismanna hækka og þetta gæti haft mjög óæskileg áhrif inn á almenna launamarkaðinn núna eftir að þorri fólks á launamarkaðnum, eða almenni markaðurinn, hefur gert sína kjarasamninga til nokkurra ára.

Herra forseti. Ég vil líka vísa til þess þegar ég beini spurningum mínum til hæstv. forseta að dómurinn hefur það hlutverk að gæta samræmis samkvæmt lögum í ákvörðunum sínum og úrskurðum og það er nefnt í nefndaráliti meiri hlutans sem hafði áhyggjur af því fyrir fjórum árum síðan að þessi breyting gæti sett af stað ákveðna keðjuverkun í kjaramálum opinberra starfsmanna. Meiri hluti nefndarinnar taldi í því ljósi að málið þyrfti nánari skoðunar við og fól ríkisstjórninni að kanna áhrif slíkra lagabreytinga og undirbúa frv. um málið ef raunhæft þykir. Þannig var ríkisstjórninni fyrir fjórum árum síðan falið að kanna áhrif slíkrar lagabreytingar og undirbúa frv. um málið ef raunhæft þætti. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort það verk hafi verið unnið, þ.e. að könnuð hafi verið áhrif þessara lagabreytinga, hver hafi verið niðurstaðan þeirrar könnunar. Varð niðurstaðan sú, fyrst ekki hefur komið fram frv. frá hæstv. ríkisstjórn eða forsrh., að ekki væri raunhæft að flytja þetta mál inn í þingið? Mér hefði fundist eðlilegt, líka í ljósi fyrri umfjöllunar Alþingis um málið, að hæstv. forsrh. eða ríkisstjórnin hefði flutt slíkt mál ef ástæða þætti til í ljósi þeirrar athugunar sem henni var falið að gera á sínum tíma. Það hefði verið eðlilegra en að rjúka upp einum eða tveimur sólarhringum áður en þingi lýkur og að nokkrir þingmenn fari þá að flytja þetta frv. gefandi sér að Alþingi hafi lítinn tíma til þess að fjalla um málið og efh.- og viðskn. er sett í þá stöðu að hafa nánast engan tíma til þess að fjalla um það eða áhrifin af því. Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, við 1. umr. um málið.

Það er líka fróðlegt að vitna í þingmann sem nú er ráðherra og fjallaði um þetta mál á sínum tíma, fyrir átta árum síðan, hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason. Um það að menn greinir nokkuð á um áhrifin af þessu, þ.e. hvort þetta leiðir til þess að laun forsetans hækki, sagði hæstv. ráðherra og þáv. þm. Björn Bjarnason:

,,Ég lít ekki þannig á að verði skattfrelsi forseta afnumið og réttur hans til þess að greiða ekki tolla eigi það að leiða til þess að kjör hans rýrni heldur sé með því verið að stuðla að því að allir borgarar landsins búi við sömu kjör gagnvart skattalögunum.``

Ég hygg því að flestir sem hafi tjáð sig í þessu máli geri ráð fyrir því og gangi út frá því að laun forsetans hækki gangi þessi breyting eftir.

(Forseti (HBl): Ég vil minna hv. þm. á að skv. 58. gr. má eigi nema með leyfi forseta lesa upp prentað mál.)

Ég þakka kærlega fyrir ábendinguna.

Nú hafa þingmenn sem sagt haft fjögur ár til þess að undirbúa þessa lagasetningu frá því að Alþingi fjallaði síðast um málið, en hún er lögð fram nokkrum klukkutímum fyrir þinglok.

Ég vil einnig spyrja hæstv. forsrh. í lokin hvort hann teldi eðlilegt ef efh.- og viðskn. kæmist að þeirri niðurstöðu að ákveðin hætta væri því samfara að samþykkja þetta frv., þ.e. að áhrifin yrðu þau að laun æðstu embættismanna í kerfinu mundu hækka í kjölfar þessara breytinga, að skoða það að breyta lögum sem Kjaradómur vinnur eftir eða eftir atvikum lögum um laun forseta Íslands þar sem kveðið væri á um að þessi breyting ætti ekki að hafa þau áhrif að laun toppanna hækkuðu upp úr öllu valdi. Ef efh.- og viðskn. í fyrsta lagi telur þessa hættu vera fyrir hendi, í annan stað ef hún finnur einhvern flöt á því að koma með lagaákvæði í lögin um laun forseta Íslands eða um Kjaradóm, af því að Kjaradómur vinnur eftir ákveðinni forsendu í lögum, um að þessi breyting tryggði að laun annarra mundu ekki hækka, telur forsrh. þá ekki eðlilegt að það yrði skoðað af hv. efh.- og viðskn.?

Herra forseti. Ég fæ frv. til skoðunar í efh.- og viðskn. og mun því ekki lengja mitt mál frekar. En ég vildi við 1. umr. láta í ljós áhyggjur mínar um hvaða áhrif það hefði ef þessi leið yrði farin, þ.e. að þetta gæti haft keðjuverkandi áhrif um launakjör hjá hinu opinbera og í annan stað að láta í ljós vanþóknun mína á því hvernig frv. ber að í þinginu.