Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 10:10:24 (7705)

2000-05-13 10:10:24# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[10:10]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forsrh. á því að ekki eru allir sammála honum um að ekki sé líklegt að þessi breyting dragi dilk á eftir sér. Einn af þeim sem skrifuðu undir nál. meiri hluta allshn. fyrir fjórum árum um að vísa málinu til forsrh. til ríkisstjórnarinnar til athugunar m.a. með þeim röksemdum situr nú í stóli dómsmrh. og það er viðtal í Degi í dag við 1. flm. málsins. Hvað segir hann? Hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Kjaradómur hefur ekki að fullu leyti tekið tillit til þess að laun forsetans eru skattfrjáls, því að annars væri hann með lægri laun en forsætisráðherra. En ég reikna með að Kjaradómur taki eitthvert tillit til þessara breytinga, ef þær verða samþykktar.``

Síðan heldur 1. flm. málsins áfram og segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ég reikna með því að hugsanlega verði forsætisráðherra hækkaður eitthvað, vegna þess að hann er þannig í kjörum að margir í ráðuneyti hans eru með hærri laun.``

Fyrsti flm. málsins reiknar með því að þetta mál hafi þau áhrif að laun hæstv. forsrh. verði hækkuð. Það liggur fyrir, virðulegi forseti. Ég vildi bara benda hæstv. forsrh. á þessar umsagnir tveggja aðila, núv. dómsmrh. og 1. flm. málsins. Hvert er málinu vísað, herra forseti? Því er ekki vísað til allshn. eins og gert var fyrir fjórum árum heldur er því vísað, að beiðni flm., til þeirrar nefndar sem á að meta efnalagsleg áhrif af tillögugerð á Alþingi, efh.- og viðskn. (Gripið fram í: Skattalagafrumvarp.) Ja, fyrir fjórum árum var málinu vísað til allshn. sem tekur ákvörðun um svona afmörkuð mál. En það liggur auðvitað fyrir, herra forseti, hvernig flutningsmennirnir sjálfir líta á þetta mál.