Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 10:12:37 (7706)

2000-05-13 10:12:37# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[10:12]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hef sagt kunna menn að hafa skiptar skoðanir. Ég er bara spurður um mína skoðun og lýsi henni. Ég get ekki séð að þegar raunlaun forsetans eru ekki hækkuð þá eigi laun annarra að hækka. Ég get bara ekki fengið þá niðurstöðu.

Ég nefni annað, fyrst menn nefna forsrh. sérstaklega, en þessi breyting, a.m.k. ef laun forsetans eru ekki hækkuð, hefur örugglega smávægileg áhrif á laun forsrh. til lækkunar. Forsrh. er einn af handhöfum forsetavalds og fær nokkrar upphæðir skattfrjálsar árlega af þeim sökum. Það verður tekið af ef af breytingunni verður þannig að það er augljóst og það eina sem liggur örugglega fyrir er að skattfrjáls laun forsrh. hvað þetta varðar lækka, nema laun forsetans verði hækkuð jafnmikið á móti eins og menn segja, þá skiptir það ekki máli. Þá er það hlutlaust. Ég sé ekki að laun annarra hækki þó að laun forsetans verði sjáanleg. Ég skil ekki af hverju menn vilja ekki að þau séu sjáanleg. Það er enginn að tala um að gera breytingar á þeim, eingöngu að þau verði sjáanleg. Það hlýtur að vera eðlilegast að öll laun í landinu séu sjáanleg. Það hefur ekkert með virðingu forsetaembættisins að gera. Ég skil ekki hvaða titringur og vandræðagangur er hjá sumu fólki út af þessu. Ég skil það ekki nákvæmlega.