Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 10:16:32 (7709)

2000-05-13 10:16:32# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[10:16]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég deili ekki við hæstv. forsrh. um að eðlilegt sé að skoða hvort afnema eigi skattfrelsi forsetans. Ég hef hins vegar sagt að mér finnst til vansa hvernig þetta mál ber að. Við hæstv. forsrh. erum greinilega ósammála um það. En ég hef áhyggjur af áhrifunum af því að afnema skattfrelsið, að þetta geti farið út í launakerfið og hækkað laun embættismanna, þar á meðal forsrh. Hæstv. forsrh. hefur engar áhyggjur af því. Samt segir hæstv. forsrh. að hér sé eingöngu verið að gera laun forseta sýnileg. Ef eingöngu er verið að gera þau sýnileg hlýtur af sjálfu að leiða að ígildi skattfrelsisins birtist þá í hærri launum.

Ég vil nefna að fimm sjálfstæðisþingmenn í hv. allshn. og einn framsóknarmaður voru þeirrar skoðunar að þetta gæti haft keðjuverkandi áhrif í kjaramálum opinberra starfsmanna og embættismanna. Þetta eru flokksmenn og félagar hæstv. forsrh. Þeir höfðu þessar áhyggjur á sínum tíma og ég býst við að þeir hafi þær enn. Þess vegna er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessu.

Af hverju hefur Kjaradómur ekki hækkað laun ráðherra eða forsrh. hingað til þegar vitað var af skattfrelsinu? Það var vegna þess að þeir segja í úrskurði sínum að þeir telji eðlilegt að halda þeirri venju að forseti Íslands hafi hæstu launin. Fari þeir að hækka laun forsetans núna einmitt vegna þess finnst þeim laun hæstv. forsrh. kannski of lág í samanburðinum. Þá hafa þeir tækifæri til að hækka þau laun og þar með annarra ráðherra og þá er keðjuverkunin farin af stað. Ég óttast þetta. Ég spyr ráðherrann: Telur hann eðlilegt að hækka laun handhafa forsetavalds ef svo fer að Kjaradómur hækki laun forsetans í kjölfar þessara breytinga?