Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 10:22:59 (7712)

2000-05-13 10:22:59# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[10:22]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er afskaplega erfitt að ræða þetta við hv. þm. því að hún virðist rugla stöðugt saman raunlaunum og nafnlaunum. (JóhS: Nei, nei.) Ég segi: Ef raunlaun hækka ekki þá verður engin breyting. Það er bara verið að afnema skattfrelsið. Þetta snýst ekki um kjör. Hún ruglar þessu stöðugt saman, raunlaunum og nafnlaunum. Hún er í raun að segja við þingheim og landsmenn alla að feluleikur með laun forsetans hafi þýtt að allir aðrir hafi lægri laun. Ef allir hefðu séð hver laun forsetans væru svart á hvítu þá hefðu öll laun í landinu verið öðruvísi, samkvæmt hennar málflutningi. Hún segir að þessi feluleikur hafi verið svo góður til að halda niðri launum opinberra starfsmanna. Hún segir að hætta sé á því að ef menn hætti feluleik með laun forsetans þá hækki laun opinberra starfsmanna. Það getur þingmaðurinn bara alls ekki hugsað sér. Þetta er einhver vitleysa og alger meinloka. Áðan kom fram í hálfgerðu frammíkalli, um laun handhafanna, að ef laun forsetans verða hækkuð, nafnlaunin, þannig að raunlaunin verði þau sömu, hann fái það sama útborgað, þá gerist ekkert með laun handhafanna, þá eru þau bara óbreytt. Þá eru útborguð laun handhafanna óbreytt.

Varðandi eftirlaunin. Í lögum segir að fyrrv. forsetar skuli eftir eitt kjörtímabil þiggja 60% af launum forsetans en þeir hafa þau ekki af því að launin eru skattlaus. Þá hafa þeir í raun 25--30% eftirlaun af raunlaunum. (Gripið fram í.) Já, það hækkar og er það ekki eðlilegt? Er ekki eðlilegt að hlutfallið sé þannig? Það hefði maður haldið. Þessi feluleikur sem einhverjir þrá að stunda, það eru einhverjir sem þrá að hafa þennan feluleik, er náttúrlega bara feluleikur. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir getur ekki hugsað sér að fólk sjái hvaða laun forsetinn hefur nákvæmlega en það liggur fyrir að allir frambjóðendur til forsetaembættisins vildu, núv. forseti talaði sérstaklega um það aftur og aftur í forsetakosningum, að þetta siðleysi yrði afnumið. Nú vill hv. þm. halda við þessu siðleysi.