Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 10:46:09 (7714)

2000-05-13 10:46:09# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, LB
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[10:46]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég hef lýst því áður hér í ræðustól hvað mér hefur fundist um þá meðferð sem þetta mál hefur fengið og skoðanir mínar eru ljósar í þeim efnum. Sú málsmeðferð sem þingið og yfirstjórn þingsins hefur sýnt af sér í þessu máli er að mínu viti alveg fráleit og þinginu til lítils sóma.

Virðulegi forseti. Um hvað snýst þetta mál? Það snýst um að hið háa Alþingi er nú á síðustu klukkustundum þingsins að breyta lögkjörum æðsta embættismanns þjóðarinnar án þess að ég viti til þess að nokkurt samráð hafi verið haft við hann eða nokkurn á hans vegum. Til þess að reyna að skýra hvað hér er átt við þá held ég að nauðsynlegt sé að lesa upp 2. gr. stjórnarskrárinnar. Hún hljóðar svo:

,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið.``

Hér erum við því að tala um æðsta embættismann þjóðarinnar og hugmyndafræðin sem býr að baki þessu er sú að við ætlum að breyta lögkjörum hans hér á síðustu klukkustundum þingsins. Málið er tekið inn með afbrigðum, svo mikill var hraðinn.

Virðulegi forseti. Við erum að tala um lögkjör sem hafa ríkt í 56 ár og fyrir þann tíma naut ríkisstjóri þessara sömu kjara. Það er ekki eins og þetta hafi komið óvænt upp á. Það er ekki eins og enginn hafi vitað af þessu. Það er einfaldlega þannig að í tæpa sex áratugi hefur þetta verið við lýði. Það er dálítið sérstakt að grípa þurfi til neyðaraðgerða á þinginu og koma málinu á dagskrá með afbrigðum við þessar aðstæður.

Virðulegi forseti. Í mínum huga skiptir formið og málsmeðferðin miklu máli því að við erum ekki að tala um hvern sem er. Við erum að tala um þann sem fer með t.d. löggjafarvaldið ásamt Alþingi. Við hljótum að spyrja líka í þessu samhengi: Eru þetta samskipti löggjafarvalds og forseta sem eru mönnum til sóma? Mín skoðun er sú að svo sé ekki. Að hér svona nánast að næturþeli sé samþykkt að taka inn með afbrigðum þingmannafrv. sem kveður á um að breyta lögkjörum æðsta embættismanns þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Það er ekki mikil reisn yfir þessari málsmeðferð. Við hljótum að spyrja: Hvert er markmiðið með þessum breytingum? Þegar þetta frv. sem við ræðum er lesið þá kemur það ekkert fram. Það kemur reyndar fram að prinsipíelt, ef svo má að orði komast, eigi allir að greiða opinber gjöld. Því get ég verið sammála. En það kemur ekkert fram að hvaða breytingu er stefnt með þessu frv. Er stefnt að því að forseti njóti sömu lögkjara áfram eins og hann hefur gert hingað til eða er stefnt að því að lækka laun forseta? Það eru engin svör við þessum spurningum hér. Hins vegar segir, virðulegi forseti, ef ég leyfi mér að lesa upp úr greinargerðinni:

,,Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.``

Ekki veit ég hvort hér er verið að ýja að því að markmiðið með þessu sé að lækka laun forseta. Um það skal ég ekkert segja því að ekkert segir um það að öðru leyti í greinargerðinni. En ég held að það sé mjög mikilvægt að Alþingi viti hvernig eigi að breyta lögkjörunum. Það er voðalega erfitt að ræða þetta mál undir þeim forsendum að það eigi einfaldlega að breyta, að það sé almennt viðhorf í samfélaginu að allir eigi að greiða opinber gjöld. Undir þetta get ég tekið. En við erum að tala um breytingar á ástandi sem hefur ríkt í áratugi, áratugum saman og mér hefði þótt það lágmarkskurteisi hjá flutningsmönnum að upplýsa þingheim um hvert markmiðið væri með þessu að öðru leyti. En það er ekki gert í þessu máli.

Fyrr í umræðunni lýsti hæstv. forsrh. því yfir að hann sæi ekki að breytingar á lögkjörum forseta hefðu áhrif á aðra embættismenn. Vitaskuld getur forsrh. og má og á að hafa sínar skoðanir á þessu máli. En það er ekki eins og þetta mál sé að koma í fyrsta skipti fyrir Alþingi. Það kom fyrir Alþingi 1991 a.m.k. og það kom fyrir Alþingi 1996 og í hvorugt skipti var málið afgreitt.

Í áliti meiri hlutans árið 1996 þegar málinu var vísað til ríkisstjórnarinnar hafði núv. hæstv. dómsmrh., Sólveig Pétursdóttir, framsögu um nefndarálit meiri hluta allshn. og ég ætla að vitna til þess, virðulegi forseti, með þínu leyfi. Þar segir:

,,Gera má ráð fyrir að bein laun forsetans yrðu hækkuð ef slík breyting næði fram að ganga.`` --- Það er að heildarlaun forsetans yðru hækkuð tölulega. --- ,,Kjaradómur ákveður laun forseta Íslands og margra æðstu ráðamanna þjóðarinnar. Hefur dómurinn jafnan reynt að gæta samræmis í ákvörðunum sínum og er því ekki útilokað að hækkun launa forsetans leiddi jafnframt til hækkunar launa annarra embættismanna. Ef svo færi gæti slík breyting ein og sér sett af stað ákveðna keðjuverkun í kjaramálum opinberra starfsmanna. Meiri hluti nefndarinnar telur, í ljósi þessara atriða, að málið þurfi nánari skoðunar við og felur ríkisstjórninni að kanna áhrif slíkrar lagabreytingar og undirbúa frumvarp um málið ef raunhæft þykir.

Með hliðsjón af framansögðu leggur meiri hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``

Þetta varð niðurstaða meiri hluta allshn. Hún var sú að þessi hækkun mundi að öllum líkindum leiða til keðjuverkunar í hækkun á kjörum opinberra starfsmanna. Þetta varð niðurstaða meiri hluta allshn. á þeim tíma. Ég sat hins vegar í allshn. á þessum tíma og stóð að minnihlutaáliti sem þar var lagt fram og þar er meginatriðið að gagnrýnt er mjög að málið, sem hafði verið til meðferðar í allshn. í sex mánuði, var ekki afgreitt og þar var lagt til að a.m.k. hluti af málinu yrði afgreiddur, enda get ég upplýst það hér, virðulegi forseti, að ég er almennt þeirrar skoðunar að allir eigi að greiða opinber gjöld og hef ekkert farið leynt með það. Hins vegar er málsmeðferð slík að hún er þinginu til vansa. (Gripið fram í: Hvaða dagsetning er á þessu?)

Virðulegi forseti. Vegna frammíkalls hv. þm. er mælt fyrir þessu máli 11. desember 1995. Málið er síðan afgreitt út úr nefnd 4. júní 1996. Þannig var það mál. Það hafði enga umfjöllun fengið á þessum tíma og það er gagnrýnt í þessu nefndaráliti. En þessu máli var síðan vísað til ríkisstjórnarinnar á þeim tíma. Þessu máli var vísað til ríkisstjórnarinnar, hv. þm., og það kom fram hér hjá hæstv. forsrh. að ekkert hefur verið gert í málinu. Hæstv. forsrh. upplýsti það hér reyndar að hann hefði talað við nokkra menn, einhverja lögfræðinga sem höfðu almenna skoðun á því að það væri sennilega sniðugt að ráðast í þessar breytingar einmitt núna. En frekari rökstuðning var ekki að finna í þeim málflutningi.

Virðulegi forseti. Það sem ég gagnrýni fyrst og fremst er sú aðferðafræði sem hér er stunduð. Það er ekkert skrýtið þó að málið sé tortryggilegt því að þegar menn lesa greinargerðina, liggur ekki einu sinni fyrir hvert markmiðið er, hvaða áhrif þetta muni hafa á lögkjör forseta o.s.frv. Það liggur nákvæmlega ekkert fyrir. Það liggur bara fyrir að að mati flutningsmanna sé það almennt viðhorf í samfélaginu að skattfríðindi séu tímaskekkja. Undir þetta get ég tekið. En hvert er markmiðið? Hvað á að gera? Hvaða áhrif hefur þetta á lögkjör forsetans? Er ætlunin að lækka hann í launum? Er ætlunin að hækka hann í launum eða hvert er markmiðið? Ég held að það sé lágmarkskurteisi í flutningi þessa máls að hv. flutningsmenn upplýsi okkur um það hver þeirra hugsun er a.m.k. jafnvel þó að það sé síðan Kjaradóms að fjalla um málið. Ég held að það sé alveg lágmark að þeir upplýsi það hvað þeir telja því það hefur verið á flugi, a.m.k. um þinghúsið og meðal annarra hafa sumir hv. flutningsmanna haldið því fram, að til þess að forseti Íslands haldi sínum lögkjörum óbreyttum, þurfi að hækka laun hans upp í 1.300--1.500 þús. á mánuði. Er það t.d. vilji hv. þm. Péturs H. Blöndals sem er 1. flm. málsins, að launin verði hækkuð upp í 1.300--1.500 þús. á mánuði? Ef svo er ekki þá er augljóslega markmiðið með framlagningu þessa frv. að lækka forseta Íslands í launum því til þess að hann haldi óbreyttum launum, þarf að hækka launin sem þessu nemur. Ég held, virðulegi forseti, að það sé mjög mikilvægt, áður en þetta mál fer til efh.- og viðskn. --- þess ber þó að geta að undanförnum tveimur málum, frá 1991 og 1995, um sama efni var vísað til allshn. en nú er ætlunin að vísa þessu til efh.- og viðskn. og hef ég svo sem engar athugasemdir við það því færa má rök að því að ... (Gripið fram í.) Hv. þm. upplýsir að 1997 hafi það einnig verið gert. Ég geri ekki athugasemdir við það, virðulegi forseti, enda má færa rök að því að málið geti farið til meðferðar í báðum nefndunum. En ég geri a.m.k. þá kröfu að málið verði eins vel og vandlega unnið og kostur er í efh.- og viðskn. því að ég held að það sé alveg lágmark að áður en þetta mál verði afgreitt, viti þingið nákvæmlega að hverju er stefnt. Það held ég að sé alveg grundvallaratriði. Úr því að svona mikil nauðsyn er á að breyta margra áratuga ástandi í einu vetfangi þá held ég að nauðsynlegt sé að hv. flutningsmenn málsins upplýsi okkur a.m.k. um hvar asinn liggur. Mér finnst það ekki vera mikil krafa til þeirra hv. þm. sem að þessu máli standa.