Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:12:48 (7720)

2000-05-13 11:12:48# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:12]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. síðasta ræðumann sem stendur að þessu frv. hvort hann óttist ekkert ef laun forseta Íslands hækki, eins og mér skilst að hv. þm. geri ráð fyrir að í kjölfar þessa hækki laun forseta, að þetta hafi þau áhrif að laun annarra embættismanna hækki sem taka laun samkvæmt Kjaradómi, þar á meðal ráðherra?

Hv. þm. vísaði í grein eftir mig frá 1996. Ég hef ekki breytt um skoðun. Ég tel að það eigi að skoða það að afnema skattfrelsið á kjörum forsetans. En ég vil ekki standa að því eins og hér er gert að á einum degi, nokkrum klukkutímum, eigi málið að keyrast í gegnum þrjár umræður og fara í meðferð í efh.- og viðskn. Það er ekki samboðið þinginu í neinu máli og sérstaklega ekki í máli sem lýtur að embætti forseta Íslands.

Á sínum tíma, 1995, hafði ég ekki hugmyndaflug til þess að gera mér grein fyrir að þetta gæti haft þau áhrif sem ég er að tala fyrir í dag. En það hefur ýmislegt gerst í Kjaradómi frá 1995 sem gefur mér tilefni til að ætla að slíkt geti gerst að þetta hafi þau áhrif. Við eigum að gefa okkur nægilegan tíma til þess að meta þessi áhrif. Ég hefði haldið að það væri ekki að skapi þeirra sjónarmiða sem vinstri grænir standa fyrir ef þetta fer að ganga eftir öllu embættismannakerfinu eftir að launafólk hefur á almennum markaði þegið mjög lítið úr hendi atvinnurekenda sinna í kjarabætur.