Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:18:04 (7723)

2000-05-13 11:18:04# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:18]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að í svona málum, þar sem menn kasta málinu á milli sín eins og heitri kartöflu, sé kannski heppilegt að málsmeðferðin sé af þessu tagi, einmitt í málum sem byggjast á hjárænuhætti. Það þarf að taka af skarið og í þessu máli, sem er mjög einfalt, tel ég að þetta sé heppileg leið. En ég get verið sammála hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að þetta eigi ekki að vera regla eða venja.

Enn og aftur. Starfskjör forseta Íslands eru auðvitað ákveðin af Kjaradómi miðað við það að hann sé skattfrjáls. Ég ætla ekki Kjaradómi annað en að taka málið upp á nýtt og ákveða starfskjör forsetans miðað við þær breytingar sem hér eru lagðar fram. Það er mjög einfalt í mínum huga. Ég tel að þar séu menn færir um að fara ofan í málin og hugur flm. stendur ekki til þess að hækka eða lækka hin raunverulegu laun forsetans. Fyrst og fremst er hér um að ræða kerfisbreytingu sem gerir launin sýnileg. Flestir hv. þm. ættu að geta verið sammála um að það sé alger nauðsyn í þessu samfélagi og að allir séu jafnir fyrir skattalögum.