Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:25:49 (7728)

2000-05-13 11:25:49# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, KHG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:25]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu óvenjulegt þingmannamál svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Það fjallar um embætti forseta Íslans og er lagt fram undir lok þingsins.

Ég tel að burt séð frá því hvert málið er þá eigi öll þingmál að fá venjubundna þinglega meðferð. Ég get ekki stutt það að mál af þessum toga eða önnur sambærileg séu rifin í gegnum Alþingi með sérstakri flýtimeðferð. Menn verða, burt séð frá málum sem lögð eru fram eða afstöðu þeirra til efnis málanna, að virða starfsreglur þingsins. Þess vegna tel ég það ekki koma til álita að meðferð þessa máls verði með öðrum hætti en venja er til, þ.e. að málið gangi til nefndar. Það varð eðlilega niðurstaðan. Það þýðir ekki að menn þurfi endilega að vera mjög lengi að afgreiða málið. Það fer eftir efni málsins. En menn verða ævinlega, í þessu máli sem öðrum, að muna eftir því að menn mega ekki ganga yfir þingið sjálft.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst afar óþægilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að þetta mál kemur þá fyrst fram á Alþingi þegar ljóst er að núverandi forseti verður áfram forseti. Ég hefði talið mun betri brag á þessu máli ef það hefði verið lagt fram með meiri fyrirvara, fyrr á þessu þingi. Ég held að mönnum hafi ekki verið neitt að vanbúnaði að gera slíkt.

Eins og hér hefur rækilega verið tíundað í umræðunni þá hefur þetta mál verið til umræðu fyrr á Alþingi tvisvar sinnum eins og menn hafa farið yfir. (PHB: Þrisvar sinnum.) Þrisvar sinnum, segir hv. þm. Pétur Blöndal. Mönnum var ekkert að vanbúnaði að hugsa málið fyrr og leggja það fram tímanlega.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti. Mér finnst óþægilegt að málið skuli svo seint lagt fram að þá liggur í raun fyrir, og mótmæli því hver sem vill, að núverandi forseti verður áfram forseti. Ég er ekki að gera mönnum upp neinar skoðanir eða meiningar í því. Menn mega hins vegar ekki leggja málið þannig fram að hægt sé að tengja saman málið og persónur. Það má ekki vera nokkur minnsti vafi í þeim efnum.

Herra forseti. Ég vil benda á að þetta mál hefur mun oftar komið til umræðu en hv. þm. Pétur Blöndal nefnir. Þrisvar sinnum, segir hann, og vísar þar til þingmála um málið. Það er rétt. Hver hefur verið niðurstaða Alþingis í þeim tilvikum? Hún hefur verið sú að Alþingi hefur ekki afgreitt málið. Það er afstaða. Þá hefur málið komið til kasta Alþingis í gegnum aðrar lagabreytingar. Í þeim lagabreytingum hefur komið fram afstaða. Við skulum ekki gera lítið úr því þegar við metum þetta mál og hvaða tökum þingið hefur tekið á því í gegnum árin.

Þegar tollalög eru sett árið 1987 er tekin afstaða til þessa máls og sett sérákvæði um forseta Íslands. Þegar sett eru lög um laun forseta Íslands árið 1990 er tekin afstaða til þessa máls, þingið setur fram ákveðna skoðun og lögbindur hana. Þegar sett eru lög um tryggingagjald 1990 kemur þetta mál við sögu og Alþingi tekur afstöðu þar eins og kunnugt er. Þegar sett eru lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur árið 1996 tekur Alþingi enn afstöðu til málsins og ákveður að hafa fyrirkomulagið eins og það er. Þannig hefur þetta mál mjög oft komið til meðferðar Alþingis á undanförnum áratug. Niðurstaðan hefur orðið sú að það hefur aldrei afgreitt tillögu um að afnema skattfríðindin en oft afgreitt lög um að viðhalda þeim. Þetta vildi ég draga fram svo að mönnum væri ljóst hver forsagan er.

[11:30]

Það segir ekki endilega að menn eigi ekki að skipta um skoðun. Það segir ekki endilega að menn eigi ekki að breyta því. En menn verða að muna eftir þessari forsögu málsins þegar menn flytja ræður um selvfølgeligheder í lagasetningu eins og hv. 1. flm. málsins gerði.

Herra forseti. Ég vil líka spyrja: Hvað ætla menn að gera? Það þarf að vera ljóst. Til þess að menn geti orðið sammála um breytingar þarf að vera ljóst hvaða breytingar menn ætla að gera. Það hafa komið fram tvær skoðanir í þeim efnum frá flutningsmönnum málsins. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, sem er einn af flutningsmönnum málsins, segir í viðtali í sjónvarpinu 11. maí eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,... það er ekki verið að tala hér um að rýra kjör forseta Íslands.``

Og hann segir hér í ræðu að aðeins sé um að ræða kerfisbreytingu. Með öðrum orðum, hans tillöguflutningur er sá að engin breyting verði á kjörum forseta Íslands.

Fyrsti flm. málsins, Pétur H. Blöndal, hefur aðra skoðun á þessu. Hann telur að breytingin hafi áhrif á kjör forseta Íslands (Gripið fram í: Og forsrh.) og forsrh. að vísu. Þannig að flutningsmenn eru ekki sammála um hvað felst í tillögu þeirra. Þetta þarf auðvitað að taka til skoðunar í nefnd því að ákveði Alþingi að gera breytingar þá verða menn að ná saman um hvert eigi að vera inntak þeirra breytinga. Ég vil segja fyrir mitt leyti, herra forseti, að ég tel ekki skynsamlegt að gera breytingar á kjörum forseta við þessar aðstæður á þann hátt að rýra þau. Ég tel það ekki skynsamlegt. Ég tel hins vegar að vilji menn gera kerfisbreytingu af ákveðnum ástæðum þá megi skoða það. En ég bendi á að stjórnarskráin er þannig orðuð að það má gera slíka kerfisbreytingu hvenær sem er því að hún kveður aðeins á um að eigi megi lækka greiðslur til forseta. Ef greiðslurnar eftir breytingu eru þær sömu og fyrir breytingu, þá tel ég að breyting standist ákvæði stjórnarskrárinnar og megi gera hana hvenær sem er, en hún sé ekki einskorðuð við upphaf kjörtímabils.

Þá er það efnisleg umræðan. Ég vil vekja athygli á því vegna þess sem ég rakti um mismunandi skilning tveggja flutningsmanna á frv., að frv. er þannig frá gengið að í því er hvergi minnst á það að ekki eigi að skerða kjör forseta. Það eru aðeins tillögur um að afnema skattfrelsi af tekjum og hlunnindum forseta. Það er hvergi tekið fram í frv. eða greinargerðinni að það eigi að bæta forseta þá breytingu. Það kemur hvergi fram þannig að ef maður les frv. og greinargerðina þá er ekki hægt að álykta annað en að fyrir flutningsmönnum vaki að rýra kjör forseta sem nemur breytingu frv. Frv. er þá ófullkomið að þessu leyti ef það er meining flutningsmanna að ekki eigi að rýra kjör forseta.

Menn kunna að segja að ekki þurfi að setja slíkt í frv. því Kjaradómur muni taka málið fyrir. Það má vera. Ég hef ekki haft aðstæður til að kanna það til hlítar. Ég bendi á að þegar málið var hér til umfjöllunar fyrir fjórum árum var leitað umsagnar Kjaradóms og hann hafnaði því að veita umsögn þannig að þingið hefur engar upplýsingar um það hvernig Kjaradómur muni bregðast við lagasetningu af þessu tagi. Í 12. gr. laga um Kjaradóm segir, með leyfi forseta:

,,Kjaradómur og kjaranefnd skulu taka mál til meðferðar þegar þeim þykir þurfa og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu til viðmiðunar samkvæmt lögum þessum eða á störfum þeirra sem úrskurðarvald þeirra tekur til.``

Þarna er kveðið á um hvenær Kjaradómur á að bregðast við breytingum. Samkvæmt þessu eru tvö atriði nefnd, annars vegar þegar þeim þykir þurfa. Það vitum við ekki hvernig Kjaradómur mun túlka. Hann getur tekið það upp þannig að lagabreyting af þessu tagi kalli á að hann komi saman og endurmeti málið. En við vitum það ekki.

Hitt atriðið sem hann nefnir er ef breytingar hafa orðið á launum þeirra sem eru til viðmiðunar. Sannanlega verða engar breytingar á launum þeirra við afgreiðslu þessa frv. þannig að það gefur ekki tilefni fyrir Kjaradóm til að koma saman og taka málið upp. Ég held því að ef það vakir fyrir mönnum að gera ekki breytingar á kjörum forseta þá þurfi að skoða málið með því hugarfari að ná því markmiði fram og hugsanlega gera breytingar á frv. í því skyni.

Herra forseti. Ég hygg að ég láti þetta duga af minni hálfu við 1. umr. þessa máls. Ég legg áherslu á vandaða og þinglega meðferð. Ég legg áherslu á að menn skoði málið og séu sammála um markmiðið. Ég útiloka ekki að menn geri breytingar. Ég er ekkert endilega fylgjandi því að núverandi fyrirkomulag eigi að vera. En ég vil líka nefna svolítið til varnar fyrir skattalögin. Skattalög eru eðli málsins samkvæmt lög sem mismuna fólki. Ef þau gerðu það ekki væri engin ástæða til að setja svona víðtæk skattalög. Skattalög ákvarða hópum mismunandi skatta. Þau ákveða mönnum líka mismunandi skatta eftir stöðu eða embætti eins og nefnt hefur verið hér í umræðunni. Við höfum dæmi um mismunandi skattalega meðferð, eftir starfi, þ.e. sjómannaafsláttinn, og við höfum fleiri dæmi um misjafna skattalega meðferð, t.d. eru starfsverðlaun eins og Nóbelsverðlaun og reyndar fleiri verðlaun skattfrjáls (GAK: Alþingismenn.) þannig að nóg er af alls konar reglum. Og þó að við tökum þessa reglu og breytum henni þá er fullt af öðrum reglum eftir og skattalöggjöfin er í eðli sínu nákvæmlega sú sama eftir sem áður þannig að ég tel það ekki rök fyrir breytingu að það þurfi af prinsippástæðum að gera hana. Það tel ég ekki rök. Ég fellst ekki á það vegna þess að skattalöggjöf er í eðli sínu til þess að mismuna þegnum landsins, eðlilega.

Herra forseti. Þá held ég að ég hafi komið því á framfæri sem ég hafði hugsað mér.