Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:41:03 (7730)

2000-05-13 11:41:03# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:41]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þarf ekki mörg orð þegar ég tek til máls í annað sinn við þessa umræðu. Hún hefur á margan hátt verið mjög fróðleg og ýmislegt komið fram í henni. Mér fannst mjög athyglisvert það sem fram kom í máli hæstv. forsrh. við þessa umræðu. Það er ljóst að hæstv. forsrh. hefur tekið ákveðna forustu við að koma þessu máli í höfn í þinginu og er mjög hlynntur þeirri breytingu sem hér er verið að leggja til.

Hæstv. forsrh. talaði um að hér væri eingöngu verið að gera laun forseta sýnileg. Það sem hæstv. forsrh. sagði, ásamt því sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum sem hér hafa talað og ekki síst því sem hefur verið vitnað til hjá tveimur hv. þm. sem standa að þessu frv., er að ekki er meiningin að rýra kjör forseta Íslands heldur gera menn þvert á móti ráð fyrir, og þar á meðal forsrh. einnig, að ekki verði raunlækkun hjá forsetanum í kjörum og það þýðir auðvitað á mæltu máli að menn gera ráð fyrir að í kjölfar þessa muni Kjaradómur hækka laun forsetans. Það sem menn greinir á um er hvort það muni síðan hafa þær afleiðingar að kjör annarra embættismanna, þar með talið forsrh. og annarra ráðherra, muni hækka í kjölfarið.

Hæstv. ráðherra orðaði það svo að hann óttist það ekki, beindi orðum sínum að mér og sagði að það væri nokkuð sem ég gæti alls ekki hugsað mér, þ.e. að kjör annarra embættismanna mundu hækka í kjölfarið og það er auðvitað hárrétt hjá hæstv. forsrh. Ég get alls ekki hugsað mér það að kjör annarra embættismanna muni hækka í kjölfarið á þessari breytingu, ekki síst í ljósi þess sem hér hefur verið að gerast í kjaramálum á vinnumarkaðnum þar sem launafólk á almenna markaðnum hefur fengið sáralítið í sinn hlut og samið til langs tíma. Það má ekki gerast aftur eins og hefur gerst og við höfum orðið vitni að á umliðnum missirum að embættismenn hafa verið að fá gífurlegar hækkanir í gegnum Kjaradóm á meðan fólk á almenna markaðnum, ekki síst láglaunafólk, hefur setið eftir. Það þarf engan að undra þó að við, hv. þm. Samfylkingarinnar sem hér höfum talað, höfum af því nokkrar áhyggjur.

Ég vil bara halda því til haga sem fram kemur hjá Kjaradómi sjálfum. Þeir telja eðlilegt að forseti Íslands sé með hæst laun þeirra sem Kjaradómur ákvarðar laun fyrir. Kjaradómur hefur greinilega ekki treyst sér að fara hærra með laun forseta Íslands einmitt út af skattfríðindum sem embættið og forseti hefur notið og þegar Kjaradómur hefur þetta svigrúm eftir að Alþingi hefur samþykkt að afnema skattfrelsi, að geta farið með laun forsetans upp, er alveg ljóst í mínum huga að það mun örugglega verða tekið til skoðunar ef ekki kemur til framkvæmda að hækka einnig laun forsrh., enda hefur verið afar lítill munur á beinum launum forseta og forsrh.

Þetta skulu vera lokaorð mín og ég vitna aftur til þeirra sem töldu ástæðu til þess að bera þennan ótta sem við hér færum fram í þessum ræðustól, en það voru þingmenn Sjálfstfl., fimm að tölu í allshn., ásamt einum framsóknarmanni, sem töldu að það mundi setja af stað keðjuverkun í kjaramálum embættismanna og opinberra starfsmanna að fara þessa leið.

Ég ítreka að ég er ekki á móti því að skoða það að afnema skattfrelsi forsetaembættisins og forsetans. En ég vil að það beri allt öðruvísi að en nú, að við stöndum að því með öðrum hætti, en hér sé ekki verið að láta þetta frv. fá einhverja flýtimeðferð og það síðan keyrt í gegn með nokkru offorsi. Það þarf helst að vera breið samstaða um þetta mál og menn þurfa að vera vissir um hvað eigi að taka við þegar þetta er afnumið. Á því er ekki neinn beinn skilningur eða samstaða um í þessum þingsal hvað eigi að taka við þannig að markmiðið er nokkuð óljóst með þessu öllu saman.

Herra forseti. Þess vegna skulu það vera mín lokaorð að nú þegar frestur til að skila inn framboði til forseta Íslands er að renna út núna á næstu sólarhringum, er alger óvissa um hvaða kjör forseta Íslands verða búin í framtíðinni.