Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:58:52 (7736)

2000-05-13 11:58:52# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:58]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er akkúrat um þetta atriði, þ.e. hvort bæta eigi forsetanum fullkomlega það tap í kjörum sem hann yrði fyrir við þessa breytingu, sem afskaplega misvísandi afstaða virðist vera til hjá hv. þingmönnum. Nú heyri ég að hv. þm. sem talaði á undan mér er á þeirri skoðun að það eigi að bæta honum fullkomlega það kjaratap sem hann yrði fyrir við þessa breytingu og ég spyr: Er þá innifalið í því að bæta honum hugsanlegt tap sem hann gæti orðið fyrir vegna annarra fríðinda en þeirra að vera undanþeginn tekjuskatti? Er það þá hugmyndin bak við þessa afstöðu að allt sem forseti hefur fengið í kjörum samkvæmt öðrum lögum sem verið er að breyta eigi að bæta honum í launum? Því það er eina leiðin til að bæta honum slíkt kjaratap sem hann verður fyrir við breytingar á öðrum lögum, það yrði þá að koma inn í launaliðinn hjá honum í staðinn. Er það afstaða hv. þm. að hækka laun forsetans til þess að rétta þau af gagnvart öðrum breytingum á lögum en tekjuskattinum?