Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:00:24 (7737)

2000-05-13 12:00:24# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:00]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvernig önnur kjör eins og varðandi tollalög, tryggingagjald og virðisauka hafa verið metin hjá forseta. Mér er hins vegar sagt að varðandi virðisaukaskattinn hafi verið lagt á það mat á einhverjum tímabilum hver sú upphæð væri sem eðlilegt væri að forseti Íslands fengi endurgreidda út af virðisaukaskatti. Ég get sagt það úr þessum ræðustól að ég tel að það sem forseti hafi haft í kjörum verði að meta og líta á það sem starfskjör hans. Það hafa óumræðilega verið starfskjör hans í þessu starfi.

Ég geri mér ekki nákvæmlega grein fyrir því um hvaða fjárhæðir er þar að tefla en ég tel að þau skattfríðindi sem forseti hefur haft verði að meta til launa. Ef á að gera þetta algerlega sýnilegt þá verður að meta það til launa.