Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:09:47 (7742)

2000-05-13 12:09:47# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:09]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég settist inn á þing árið 1974 var sá háttur hafður á að í þinginu var starfandi sérstök þingfararkaupsnefnd sem lagði fyrir Alþingi tillögur um breytingu á launakjörum alþingismanna sem alþingismenn þurftu síðan að afgreiða með atkvæðagreiðslu hverju sinni. Þetta fyrirkomulag var afskaplega mikið gagnrýnt í samfélaginu. Það var mikil andstaða við það, ekki síst hjá forustumönnum verkalýðshreyfingar sem voru andvígir því að alþingismenn fjölluðu sjálfir um kjaramál sín. Niðurstaðan varð sú að taka það vald úr höndum alþingismanna og ráða sjálfir kjörum sínum og setja það yfir í Kjaradóm. Ég stóð að þeirri ákvörðun og ég tel hana vera rétta. Ég tel ekki að alþingismenn eigi að greiða atkvæði um eigin laun.

Ég er alveg sannfærður um að ef hv. þm. Ögmundur Jónasson hugsar það mál betur fyndist honum óeðlilegt að ein stétt í landinu, einn hópur í landinu öllu heldur, því að alþingismenn eru ekki stétt, hafi sjálfdæmi um sín eigin kjör.