Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:10:49 (7743)

2000-05-13 12:10:49# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:10]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég fari rétt með að á danska þinginu sé tekin ákvörðun um launakjör þingmanna. Ég held að ég fari rétt með það. Mér finnst eðlilegt að hafa þennan hátt á. Ég veit hins vegar að mörgum þingmönnum finnst þetta óþægilegt og ég veit að ákvarðanir þingsins hafa sætt gagnrýni í þjóðfélaginu.

En sú er sérstaða þingsins og alþingismanna að þeir standa ábyrgir gerða sinna gagnvart þjóðinni í kosningum, þá greiðir hún um það atkvæði hvort hún telji að þeir hafi komið fram af sanngirni, m.a. í þessum málum. Mér finnst eðlilegt að launaákvarðanir alþingismanna séu teknar af Alþingi og menn axli ábyrgð en skjóti henni ekki annað.