Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:16:56 (7748)

2000-05-13 12:16:56# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, SighB
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:16]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Allt þetta mál og allur þessi málatilbúnaður er okkur til mikils sóma, ekki síst þeim sem standa að flutningi málsins því að þegar til á að taka kemur í ljós að enginn þeirra er sammála öðrum um hver tilgangurinn sé með þessu lagafrv. hvað varðar kjör forseta Íslands. Þrír hv. þm. af fjórum sem flytja málið hafa tjáð sig um þetta í dag og þeir eru eins ósammála um hvað þeir eru að leggja til og hægt er að hugsa sér. (SJS: Er þetta ekki bara eitt frv.?) Þetta er eitt frv. en þeir eru eins ósammála um tilganginn og hægt er að hugsa sér.

Ég heyri að hv. formanni vinstri grænna líður mjög illa og ég skil það ósköp vel. (Gripið fram í.) Við skulum aðeins líta yfir það sem þessir ágætu þingmenn hafa til málanna að leggja því þeir eru að fjalla um starfskjör forseta Íslands, ekki mannsins sem situr í embættinu sem vill svo til að heitir Ólafur Ragnar Grímsson og menn geta haft misjafnar skoðanir á heldur um embætti þjóðhöfðingja, þjóðkjörins þjóðhöfðingja, starfskjör hans.

Hvað vakir fyrir 1. flm. málsins hv. þm. Pétri Blöndal? Hvernig vill hann breyta starfskjörum þjóðhöfðingja? Því svarar hann á prenti í dag. Hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Kjaradómur hefur ekki að fullu leyti tekið tillit til þess að laun forsetans eru skattfrjáls því annars væri hann með lægri laun en forsrh. En ég reikna með að Kjaradómur taki eitthvert tillit til þessara breytinga, ef þær verða samþykktar.``

Hann reiknar sem sagt með því að Kjaradómur muni eitthvað hækka nafnlaun forseta Íslands við þessar breytingar en vill þó ekki segja hversu mikið, en eitthvað.

Hv. þm. heldur áfram og hann lýsir þeirri skoðun sinni að hann reikni með því --- hv. þm. segir, með leyfi forseta:

,,Ég reikna með því að hugsanlega verði forsrh. hækkaður eitthvað ...``

Skoðun 1. flm. á efni málsins er því sú að Kjaradómur eigi að bregðast við að einhverju leyti og í framhaldi af því eigi að hækka laun forseta Íslands. Þetta er skoðun 1. flm.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, 2. flm., tjáði sig ekki að þessu leytinu til. Hann tjáði sig ekki hvað fyrir honum vakir með því að gerast meðflutningsmaður að þessari tillögu öðruvísi en að hv. þm. sagði að það væri einfaldlega málefni Kjaradóms að taka ákvörðun um það. Sjálfur hafði hann enga skoðun á því. En þingflokksformaður hans sem kom hér og var að fara úr ræðustól sagði að í sínum huga væri hér um að ræða beina launalækkun til forseta Íslands sem væri ekkert of góður til þess að borga skatta af þeim nafnlaunum sem hann hefur í dag og væri ekkert of góður til þess að borga eignarskatta, virðisaukaskatta, tolla o.s.frv. og engin ástæða væri til þess að breyta neinu í þeim efnum (Gripið fram í: Þingmaðurinn er alltaf jafn...) þannig að hans tillaga er sú, hans hugmynd er sú, þ.e. formanns þingflokksins, að þetta frv. sé flutt til þess að lækka launakjör og starfskjör forseta Íslands. Það er hans tillaga. Hann er ekki flutningsmaður að málinu. En flutningsmaðurinn, hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, hafði ekki skoðun á því.

Síðan kom þriðji flutningsmaðurinn, Guðjón A. Kristjánsson, og hvað sagði hann? Sá flutningsmaður sagði að tilgangurinn með þessu frv. væri ekki sá að breyta neinu í kjörum forseta Íslands. Það ætti að hans mati þegar Kjaradómur fer að fjalla um málið að taka tillit til þessara breytinga, afnáms þessara hlunninda, ekki bara hvað varðar tekjuskattinn sem fyrir liggur að mundi hækka nafnlaun forseta Íslands upp í 1.340--1.500 þús. kr. heldur ætti einnig við ákvörðun um launakjör forseta Íslands að taka tillit til annarra breytinga eins og afnáms virðisaukaskatts, afnáms tolla o.s.frv. og að það ætti að færa inn í launin til forsetans. Þá fara þau að nálgast tvær millj. kr. á mánuði.

Hins vegar sagði hv. 3. flm. málsins ekki neitt um hvað hann héldi að áhrifin af slíkum ákvörðun Kjaradóms mundu hafa á aðrar stéttir. (Gripið fram í: Erum við á Kjaradómi?)

Þá er komið að fjórða flutningsmanni málsins, þeir eru fjórir, hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni. Honum hefur ekki gefist tækifæri til að tjá sig um málið því að hann er því miður í veikindaleyfi. Engu að síður skiptir það ekki meginmáli því að það eru ekki til fleiri skoðanir á málinu en þessar þrjár. Það er útilokað að hafa fleiri skoðanir á þessu máli en þrjár og þingmennirnir sem flytja málið eru búnir að skipta öllum skoðunum sem hægt er að hafa á áhrifum málsins á milli sín. Þetta er þessari stofnun til mikils sóma. Það er gaman að ganga til afgreiðslu máls sem ekki einu sinni liggur fyrir hjá flutningsmönnum hvað þýðir. Það er von að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé ekkert óskaplega rólegur í þessari stöðu.

Ég vil aðeins vísa til þess ... (Gripið fram í.) herra forseti. Ég hef orðið enn þá. Hv. þm. getur beðið um orðið. Ég hef atkvæðisrétt eins og hann og skoðanarétt og skoðanafrelsi eins og hann, en er öfugt við hann ekkert órólegur, ósköp rólegur í málinu. (Gripið fram í.) Einhver besta ræða sem hefur verið flutt um þetta mál tel ég að hafi verið flutt af hv. þm. Kristni Gunnarssyni. Hann kom að efnisatriðum málsins, nákvæmlega þeim efnisatriðum sem Alþingi þarf að taka til skoðunar við afgreiðslu þessa máls.

Herra forseti. Það er ekki mikill virðuleikasvipur á afgreiðsluháttum þessarar stofnunar á síðasta þingfundadeginum.

(Forseti (HBl): Virðuleikinn fer eftir þingmönnunum, hv. þm.)

Rétt.