Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:24:23 (7749)

2000-05-13 12:24:23# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:24]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er svolítið farinn að undrast þennan málflutning í hv. Alþingi. Er það virkilega svo að hv. alþingismenn taki það eitthvað inn á sig að tala um það hver séu raunveruleg kjör forsetans? Þola menn ekki að tala um það, ef það er þannig, að kjör forseta Íslands jafngilda því að hann hefði fengið útborgarðar 2 millj. kr. og borgaði svo skatta af því? Þola menn það ekki? Er eitthvað vandamál að tala um það? Ef það er svo að þau kjör sem forsetinn hefur núna þýða að brúttólaun hans séu 2 millj. kr. þá er það bara svo. Það breytir ekki raunlaununum því að ef hans kjör eru metin þannig að núverandi laun jafngildi 2 millj. kr. á mánuði þá borgar hann bara skatt af því (Gripið fram í.) og síðan fær náttúrlega Bessastaðahreppur útsvarstekjurnar og ég held að það væri mjög gott fyrir Bessastaðahrepp að fá útsvarstekjurnar (Gripið fram í.) þannig að ég skil ekki þessa umræðu, að verið sé að væla yfir því hvort það eigi að tala um 1,5 eða 2 millj. kr. Ef það er svo að núverandi lög hafi fært forseta þessi kjör þá er eins gott að það sé uppi. Svo borgar hann bara skatt af sínum tekjum og stendur eftir jafn.

Þegar við sjómenn erum að koma í land eftir stóra túra og því er slegið upp í öllum blöðum að einhver sjómaður hafi haft milljón á mánuði, borgar hann ekki skatta af því? Við höfum 245 þús. kr. í skattafslátt á ári, þ.e. sjómannaafsláttinn. Það er samkvæmt lögum og reglum og þú veist alveg um það, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Það þarf ekki að upplýsa það neitt hér. (Gripið fram í.) Það er í reglugerðum, skráð í reglugerðum um sjómannaafslátt. (KHG: Þá er lítill forseti í þér.) (Gripið fram í: Já, já.) Það er enginn feluleikur í þessu máli. Þetta eru kjör sjómannastéttarinnar sem hún hefur búið við í 40 ár. (KHG: Það er alveg eins með forsetann. Þar er enginn feluleikur.)