Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:26:38 (7750)

2000-05-13 12:26:38# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:26]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var góð ræða vegna þess að hv. þm. kom þarna að kjarna málsins. Það er ekkert feimnismál að ræða málið á þessum nótum við mig eða suma aðra hér inni. Fyrir hverjum er það feimnismál að ræða málin svona eins og hv. þm. hefur gert, að þarna sé um að ræða breytingu sem geti valdið því að nafnlaun forseta Íslands yrðu hækkuð upp í tvær millj. kr. á mánuði. Fyrir hvern er það vandamál? Fyrir hvern er það feimnismál? Það er fyrir meðflutningsmenn hans að málinu. Það er fyrir mann t.d. eins og hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson sem ekki vildi svara því. Það er fyrir mann eins og hv. þm. Ögmund Jónasson sem neitar að horfast í augu við þessar staðreyndir.

Þetta er ekkert vandamál í mínum augum. Ég er ekkert feiminn við að ræða þetta því að þetta er kjarni málsins. Og láta menn sér detta það í hug að ef sú verður niðurstaðan af afgreiðslu Alþingis sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefnir, að Kjaradómur komist að þeirri niðurstöðu sem hann var að lýsa, þ.e. að þessi breyting muni kalla á ákvörðun Kjaradóms um tveggja millj. kr. laun fyrir forseta Íslands á mánuði, að þá fylgi hæstv. forsrh. og aðrir ráðherrar og æðstu embættismenn og þingmenn ekki á eftir eins og 1. flm. málsins Pétur Blöndal benti á í viðtali í Degi í dag. Hann taldi ósköp eðlilegt að forsrh. fylgdi á eftir og sjálfsagt aðrir ráðherrar líka. En það er ekkert feimnismál af minni hálfu að ræða málin svona. Það er nákvæmlega svona, herra forseti, sem á að ræða þau því að um þetta snýst málið. Þetta er kjarni málsins sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði og sýnir hvílík órafjarlægð er á milli þeirra þriggja flutningsmanna sem hafa tjáð sig um málið. Þeir eru eins mikið ósammála og hægt er að hugsa sér um það til hvers þetta mál er flutt, hvaða áhrif það muni hafa. Og svo er ætlast til að Alþingi afgreiði svona frv. við þær afstæður í jafnmikilli óvissu þegar einu sinni flutningsmennirnir, herra forseti, koma sér ekki saman um hvað þeir eru að gera.