Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:32:09 (7754)

2000-05-13 12:32:09# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:32]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur alltaf legið fyrir af minni hálfu að ég tel að rétt sé að skattamál forsetans séu sambærileg og hjá öðrum þegnum eins og ég tel það rétt að ýmis atriði í þeim skattalögum séu endurskoðuð. Eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur bent á eru ýmis undanþáguákvæði í þeim lögum, m.a. sem gilda um hv. þm. Pétur H. Blöndal. Það eru ýmsar greiðslur til þess hv. alþm. sem ekki eru skattlagðar frekar en til annarra þingmanna. (PHB: Ég tek ekki við því.) Ég leyfi mér nú að efa það. Hann er þá eini þingmaðurinn sem ekki gerir það. (PHB: Einn af þremur.) Ég tel það alveg sjálfsagt.

En málið snýst ekki um þetta. Málið snýst um að --- ég veit ekki betur en að hv. þm. taki við greiðslum dagpeninga sem eru skattfrjálsir. (PHB: Ég skila þeim.) Það er bara ekki rétt að hv. þm. skili þeim. En það sem ég ætlaði að taka fram í þessu sambandi var að málið snýst um samskipti löggjafarstofnunar og þjóðkjörins þjóðhöfðingja og þau gerast ekki með slíkum hætti. Þau gerast ekki heldur með þeim hætti að flutningsmenn máls af þessu tagi viti ekki hver er tilgangurinn með flutningnum eða hverjar afleiðingarnar kunna að verða. Þetta er fyrir neðan allar hellur að hegða sér svona á síðustu dögum þingsins. Þetta er ekki í samræmi við þann virðuleikablæ sem við viljum hafa á starfsemi þessarar stofnunar. (Gripið fram í: Þingmaðurinn reynir að bæta úr því núna.) Herra forseti. Það hefði verið betur að þingi hefði verið slitið í gær eða þingfrestun hefði farið fram í gær eins og áformað var fremur en að þjóðin þurfi að horfa upp á skollaleik af því tagi sem hér fer fram.