Framhald þingfundar

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 15:50:42 (7765)

2000-05-13 15:50:42# 125. lþ. 118.97 fundur 552#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[15:50]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við áttum fund með forseta einhvern tíma á síðasta sólarhring. Þá var áformað að haga þinghaldi þannig að hugsanlegt væri að ljúka því um þetta leyti, um fjögurleytið í dag, ef vel gengi. Þannig hefur verið haldið á málum á þessum fundi að það hefur reynst ókleift. Ég þarf ekki að rekja ástæður þess.

Hér hefur verið minnst á að efh.- og viðskn. mun funda um kvöldmatarleytið. Það á eftir að vinna nál. og það er alveg ljóst að því lýkur ekki fyrr en í kvöld eða nótt. Ég hef lýst því sem minni skoðun að skynsamlegra sé að hefja þingfund á mánudaginn. Það getur ekki verið í samræmi við virðingu þingsins að vinna svona og halda áfram fram á kvöld eða nótt.

Það er hárrétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að ekkert ráðrúm hefur gefist fyrir fundi með forseta. Forseti hefur ekki boðað þingflokksformenn til sín né heldur hafa þeir getað ræðst við í stjórnarandstöðunni. Einn hefur m.a. verið á fundi eftir því sem ég best veit. Þessi mál verður að ræða. Það er ekki hægt að láta eins og eðlilegt sé að halda áfram núna og fram eftir kvöldi.