Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 16:44:49 (7772)

2000-05-13 16:44:49# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[16:44]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna ræðu hv. þm. hlýt ég að koma því að í fyrsta lagi að jarðgangaáætlunin hvað varðar fyrirhuguð jarðgöng til Siglufjarðar er byggð á mjög vandaðri vinnu sérstaks starfshóps sem skoðaði mjög vandlega og rækilega hvaða leiðir ætti að velja. Í þeim hópi voru m.a. fulltrúar Skagfirðinga og annarra heimamanna sem hagsmuna hafa að gæta og hafa víðtæka þekkingu á því sem þarna þarf að skoða. Það er alveg nauðsynlegt að það komi rækilega fram að hinn svokallaði Lágheiðarhópur vann að undirbúningi málsins og hann komst að þeirri niðurstöðu sem síðan varð að þessari tillögu um jarðgöng frá Ólafsfirði um Héðinsfjörð til Siglufjarðar.

Í annan stað vil ég nefna, vegna þess sem hv. þm. sagði, að gert er ráð fyrir að ljúka framkvæmdum við Bröttubrekku á áætlunartímabilinu þannig að ekki er annað hægt að segja en þar sé allbærilega að verki unnið. Og hvað varðar Norðurárdalsveginn í Skagafirði er gert ráð fyrir ríflega 200 millj. á áætlunartímabilínu í þá vegagerð þannig að því mun miða allvel áfram þó það sé vissulega mikilvægt og stórt verk.