Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 17:00:21 (7775)

2000-05-13 17:00:21# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[17:00]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Nú þegar síðari umræða fer fram um vegáætlun og jarðgangaáætlun fyrir tímabilið 2000--2004 vil ég í upphafi ræðu minnar þakka hv. samgn. fyrir vel unnið verk og einnig þeim embættismönnum sem að undirbúningi þessa máls hafa komið. Það skiptir mjög miklu máli að vel sé unnið í samgn. og auðveldar okkur alla afgreiðslu í þinginu.

Ekki fer á milli mála að við höfum verið að ná feiknalega miklum og góðum áföngum í uppbyggingu vegakerfisins á undangengnum árum og ég hlýt að vekja sérstaka athygli á því að mikill áhugi hefur verið fyrir því hjá mjög mörgum þingmönnum og ég held raunar flestum þingmönnum að leggja töluvert fé til uppbyggingar samgöngukerfisins og þeir hv. þingmenn sem hafa setið á stóli samgrh. á undangengnum árum hafa lagt metnað sinn í að ná sem mestum árangri í uppbyggingu vegakerfisins og fyrir það hlýt ég að þakka.

Hér erum við að fjalla um bæði vega- og jarðganga\-áætlun, það eru tímamót. Jarðgangaáætlun hefur ekki fengið formlega afgreiðslu í þinginu eins og ég vænti og vona að sú áætlun sem nú liggur fyrir hljóti. Auk þess sem á það er bent hlýt ég einnig að vekja athygli á því að hér er verið að leggja á ráðin um meira fjármagn til vegaframkvæmda en áður hefur verið. Að vísu hefur það verið gagnrýnt að undanförnu í fjölmiðlum en ég hef ekki séð að sú gagnrýni hafi verið þannig að hún eigi að trufla okkur í þinginu og hún hefur raunar sannfært mig fremur en hitt um að við séum á réttri leið.

Sú vegáætlun sem við erum að ræða mótast að sjálfsögðu af gildandi vegáætlun sem við höfum unnið eftir og einnig þeirri langtímaáætlun sem er í gildi og verður til endurskoðunar áður en langt um líður. Vinnan við þessa áætlunargerð er þannig að á vegum Vegagerðarinnar og samgrn. er öll forvinna um skiptingu í einstök verk og síðan kemur samgn. að því. En þingmenn kjördæmanna leggja auðvitað mjög mikið í þá vinnu og fjalla um skiptingu verka í hverju kjördæmi fyrir sig og það hefur verið venjan að kjördæmaþingmenn hafi haft mjög frjálsar hendur um skiptingu á einstök verk.

Sú jarðgangaáætlun sem hér er til umræðu er felld inn í vegáætlunina hvað varðar skiptingu fjármuna eins og eðlilegt er en auk þess koma síðan inn sem nýmæli það sem kallað er í áætluninni orku- og iðjuvegir. Einnig hlýt ég að nefna það sem er nýmæli þar sem eru jaðarbyggðir og ferðamannaleiðir, en í áætluninni er sérstaklega fjallað um þá þætti áætlunarinnar.

Ég ætla aðeins að fara nokkrum orðum um orku- og iðjuvegina. Gert er ráð fyrir framkvæmdum fyrir um milljarð kr. á áætlunartímabilinu við vegi í Fljótsdal og milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar vegna fyrirhugaðrar virkjunar og stóriðjuframkvæmda. Segja má að nokkur áhöld hafi verið um það hvort slíkar framkvæmdir ættu að vera í vegáætlun eða ættu fremur að vera utan hennar og á vettvangi þeirra sem standa að uppbyggingu stóriðjunnar. En vegna þess að þarna er um að ræða vegi sem eru partur af þjóðvegakerfinu og eru í byggð var að okkar mati talið eðlilegt að þeir væru felldir inn í vegáætlunina og kæmu sem partur af henni og er enginn ágreiningur um það.

Þarna er um að ræða mjög mikilvæga uppbyggingu vegakerfis á Austurlandi sem nýtist þessum byggðum eins og fram hefur komið í umræðunni. Hvað varðar jaðarbyggirnar og ferðamannaleiðirnar sem eru sérstaklega hluti af áætluninni, vil ég minna á að í byggðaáætlun sem hér var afgreidd var sérstök áhersla lögð á að nauðsynlegt væri að auka fjármuni til uppbyggingar fáfarnari vega í dreifðum byggðum þar sem byggðin ætti undir högg að sækja og atvinnulífið væri veikt. Þess vegna var tekin ákvörðun um að setja 300 millj. á ári árin 2002--2004 til að ná fram mikilvægum áföngum og einnig hvað varðaði ferðamannaleiðir, þ.e. veginn að Dettifossi annars vegar og leiðina frá Þingvöllum um Uxahryggi.

Ég held að engum blandist hugur um að vegakerfið að Dettifossi og uppbygging þess frá því sem nú er er mjög mikilvægt. Þetta er mikil náttúruperla og mikill fjöldi ferðamanna sem fer þarna um á hverju ári en auk þess er á það að líta að þar er snjóþungt á vetrum og oft ófært langt fram á vor þannig að þeir sem þyrftu og hefðu áhuga á að fara um þessar leiðir eiga þá oft og tíðum í erfiðleikum með það sem skerðir þá möguleika sem ferðaþjónustufyrirtækin á þessu svæði hafa til að koma ferðamönnum inn á svæðin við Dettifoss.

Að hinu leytinu vil ég nefna leiðina frá Þingvöllum um Uxahryggi. Allir vita náttúrlega um þann fjölda ferðamanna sem fer um Þingvelli en inn í Borgarfjörðinn er vaxandi straumur ferðamanna og er mjög mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í landinu að ná þessari hringleið og auðveldar alla flutninga um þetta svæði og skapar fleiri möguleika og skapar fleiri kosti til að skipuleggja ferðir út frá höfuðborgarsvæðinu frá Suðurlandi og inn á Borgarfjarðarsvæðið.

Ég vildi fara stuttlega yfir þetta í upphafi en ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bæta við fjármunum og taka þar með inn sérstök verkefni var mjög mikilvæg, ekki síst í ljósi þess að hægt hefur á undirbúningi að uppbyggingu stóriðju. Það er því í fyllsta máta eðlilegt að í því ljósi séu lögð á ráðin um að hraða og herða á uppbyggingu samgöngukerfisins á meðan sá slaki er fyrirsjáanlegur í uppbyggingu stóriðjunnar og stórvirkjana.

Fyrir lá að jarðgangaáætlun yrði afgreidd í þinginu og jafnframt lá fyrir að strax á þessu ári yrði samkvæmt jarðgangaáætluninni varið 100 millj. til rannsókna og 200 millj. á næsta ári og síðan 1.450 millj. kr. á hverju ári út áætlunartímabilið til þess að hefja framkvæmdir við jarðgöng. Í ljósi þess og einnig að vilji var fyrir því í ríkisstjórninni að leggja milljarð kr. til uppbyggingar iðju- og orkuveganna á Austurlandi, þá er því ekkert að leyna að talið var eðlilegt af ýmsum á hér suðvesturhorninu að huga enn frekar að viðbót inn á það svæði ekki síst vegna þess að umferðin hefur aukist mjög mikið á höfuðborgarsvæðinu og af þeim ástæðum hafa verið vaxandi kröfur um framkvæmdir þar. Þess vegna ber auðvitað að fagna því að tekist hefur sátt um hugmyndir mínar um skiptingu þessara fjármuna og framkvæmda, og ég vil þakka samgn. alveg sérstaklega fyrir afar gott samstarf um þá niðurstöðu sem hér er fengin.

Ég hlýt að fara nokkrum orðum um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu ekki síst vegna þess að ýmsir pólitískir andstæðingar mínir hafa reynt að gera það tortryggilegt að við drógum úr framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. Ástæðan fyrir því var að sjálfsögðu sú að við settum okkur tiltekin markmið í fjárlögum og niðurstaðan varð sú að eðlilegt þótti að hægja á ferðinni, enda hefur ekkert farið á milli mála að rík ástæða hefur verið til þess að draga úr verktakaumsvifum á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan það að ekki hafa öll þau verk verið tilbúin sem gert var ráð fyrir að vinna á grundvelli gildandi vegáætlunar á þessu svæði. Það varð niðurstaðan og hún kemur fram í tillögum samgn. að eðlilegt væri að leggja þær meginlínur á suðvesturhorninu í fyrsta lagi að bæta við fjármunum og hraða framkvæmdum við fjölförnustu brautirnar út frá höfuðborginni, þ.e. annars vegar í gegnum Mosfellsbæinn og hins vegar Reykjanesbrautina og þá fyrst í gegnum Hafnarfjörð og síðan suður á bóginn og í öðru lagi að hraða uppbyggingu gatnamóta eða mannvirkjagerðar á gatnamótum í höfuðborginni. Mér virðist vera býsna góð sátt um þetta og ég hlýt auðvitað að fagna því, en það er virkilega um það að ræða að framkvæmdum verður hraðað þó að einhvers staðar sé reynt að gera lítið úr því.

Jafnframt vil ég vekja athygli á því að samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að vinna að undirbúningi svokallaðrar Sundabrautar sem er mjög mikilvæg samgönguleið innan höfuðborgarsvæðisins og inn í Grafarvogsbyggðina og samkvæmt umferðarspám er talið að leggja þurfi á ráðin um þá framkvæmd áður en langt um líður. Gert var samkomulag milli mín og borgarstjóra að hefja nú þegar á þessu ári undirbúning að umhverfismati og ætlaðar til þess 50 millj. á ári út áætlunartímabilið vegna rannsókna, hönnunar og umhverfismats en gert ráð fyrir að við endurskoðun áætlunarinnar, sem verður til afgreiðslu haustið 2002, verði undirbúið að leggja fjármuni til framkvæmda. Ég tel að þetta sé mjög eðlileg tímasetning og í samræmi við það sem búast má við að verði um undirbúning slíkra framkvæmda því að þetta er mjög flókin og viðamikil framkvæmd og mun taka langan tíma að komast að niðurstöðu um umhverfismat. Þetta vildi ég sérstaklega nefna í sambandi við höfuðborgarsvæðið.

[17:15]

Aðrar framkvæmdir sem eru í þessum tillögum eru Suðurstrandarvegurinn, sem ég tel að sé mjög mikilvæg framkvæmd til þess að tengja Suðurlandið og Suðurnesin. Ég minni á það ástand sem varð í vetur þegar ófært varð um Hellisheiði og Þrengslin. Þá hefði verið gott að hafa veg með ströndinni til að geta sinnt þeirri þörf sem umferðin kallaði þá vissulega á.

Einnig vil ég nefna að gert er ráð fyrir því í þessum sérstöku framkvæmdum að leggja fjármuni til stórverkefna á Vestfjörðum og sömuleiðis stórverkefnis í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi.

Samkvæmt þessum brtt. er gert ráð fyrir að leggja aukna fjármuni sem styrk til sérleyfisrekstrarhafa. Það er alveg ljóst að mikil þörf er á því að fram fari endurskipulagning á sérleyfisþjónustunni í landinu. Með fjölgun einkabíla hefur dregið úr notkun þeirrar þjónustu, bæði vegna þess að fleiri eru nú á eigin bílum en einnig hitt að það kann að vera að endurskipuleggja þurfi þjónustuna. Samgrn. hefur lagt á það ríka áherslu að fram fari breyting á skipulagi sérleyfanna og þeirri þjónustu sem sérleyfishafar eiga að veita. Til þess verkefnis gerir áætlunin ráð fyrir auknu fjármagni.

Eins og fram kemur í þessum tillögum er reiknað með að fjáröflunin sé annars vegar með sölu ríkiseigna og hins vegar hvað varðar orkuvegina er gert ráð fyrir að Landsvirkjun komi þar nokkuð að og leggi til bæði viðbótarfjármagn vegna aukins kostnaðar við vegi í Fljótsdal og milli fjarðanna og láni sömuleiðis að einhverju leyti til þessara framkvæmda eins og hefur verið venja í þvílíkum tilvikum.

Mér er fyllilega ljóst að mjög mörg verk þyrfti að vinna hraðar en hér er gert ráð fyrir. En það varð samkomulag í hv. samgn. um þessar framkvæmdir. Engu að síður veit ég að það hefði þurft og hefði verið vilji fyrir því hjá þingmönnum að setja aukna fjármuni í önnur verk. Þess vegna vil ég láta það koma fram að miðað við þau framkvæmdaáform sem fram koma í brtt. við vegáætlun er ljóst að vegagerð um land allt mun skila vel áfram og margir mjög mikilvægir áfangar nást. Enn verða þó eftir þéttbýlisstaðir sem sækja þurfa tengingu við aðalvegi landsins um malarvegi. Þessir malarvegir eru í misjöfnu ástandi og kalla eftir endurbótum og bundnu slitlagi. Þessir þéttbýlisstaðir eru einkum á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Við næstu endurskoðun vegáætlunar veturinn 2001--2002 verður að taka fjármögnun þessara vegna til sérstakrar skoðunar í því skyni að hraða framkvæmdum og tryggja umræddum þéttbýlisstöðum fullnægjandi vegtengingu. Mun ég beita mér fyrir því að svo verði gert.

Ég vil enn fremur taka fram að ég hef lagt fyrir Vegagerðina að flýta eftir því sem kostur er útboðum þeirra framkvæmda sem hafa fjárveitingu samkvæmt vegáætlun. Þetta vildi ég að kæmi sérstaklega fram við umræðuna.

Það er mjög ánægjulegt til að vita að á síðustu missirum hefur komið fram að kostnaður við vegagerð hefur verið að lækka þrátt fyrir þenslu á markaði. Útboð, tilboð samkvæmt útboðum hafa verið ótrúlega lág og það er mat mitt og margra annarra að með auknum afköstum og meiri þekkingu vegagerðarmanna kemur fram lægri kostnaður við vegagerðina. Þessu ber vissulega að fagna og þarna er um að ræða þróun, framleiðniaukningu, meiri afköst og betri og meiri árangur á þessum sviðum eins og mörgum öðrum í þekkingarþjóðfélagi okkar.

Engu að síður er það svo að vegagerð er afskaplega vandasöm og með auknum kröfum um umhverfismat og meiri og harðari kröfu um betri vegi, betur gerða vegi, verður stöðugt meiri vinna sem þarf að leggja í vegna undirbúnings. Þetta hefur m.a. komið fram sem viðvörunarorð frá þeim ágæta embættismanni vegamálamálastjóra sem hefur vakið sérstaka athygli á því að það þarf meiri tíma til undirbúnings en áður var og áður hefur verið vegna þessa. Við þurfum að taka tillit til þessara aðstæðna og það er eðlilegt að gerðar séu miklar kröfur til vegagerðar um okkar fagra land, um viðkvæma náttúru okkar. Þess vegna þurfum við að sýna Vegagerðinni og hönnuðum tillitssemi og gefa þeim nægan tíma til að vinna sitt verk en auðvitað viljum við, óþolinmóðir stjórnmálamennirnir, helst að allt gerist í gær.

Ég hlýt aðeins að víkja nokkrum orðum að þeirri gagnrýni sem hefur komið fram á þessa vegáætlun og jarðgangaátlun frá þeim sem telja sig þurfa að vara þjóðina við fjárfestingum. Það hefur komið fram að undanförnu að ýmsir í þjóðfélaginu hafa látið frá sér fara varnaðarorð. Allt er það gott og ég hef sagt að við þurfum að gæta okkar á því að halda stöðugleikanum. En spjótum hefur sérstaklega verið beint gegn útgjöldum til samgöngumannvirkja. Af þessu tilefni vil ég vekja athygli á því að ég hef ekki séð að sérfræðingar í efnahagsmálum hafi séð ástæðu til að koma fram í fjölmiðla og vekja athygli á þensluhættu eða óeðlilega miklum útgjöldum þó að samningar hafi verið gerðir m.a. með tilstilli þeirra stofnana sem viðkomandi sérfræðingar starfa hjá. Þar er ég að vísa til samninga um stórfellda uppbyggingu verslunar- og þjónustumiðstöðva á höfuðborgarsvæðinu. Þar er um að ræða fjárfestingu sem er ekki síður talin í milljörðum en þau áform um fjárfestingu og framkvæmdir í vegagerð.

Ég vil minna á að við gerum ráð fyrir rúmlega 700 millj. kr. útgjöldum samkvæmt þessari áætlun á næsta ári. Ég er ansi hræddur um að það blikni í samanburði við fjárfestingaráform samkvæmt samningum um ýmsar framkvæmdir sem ég vil ekki gera lítið úr á höfuðborgarsvæðinu sem kalla einmitt á aukin útgjöld í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Um leið og forsvarsmenn þessara lánastofnana senda sérfræðinga sína til að gagnrýna okkur fyrir ríkisútgjöld til samgöngumannvirkja skrifa þeir undir samninga sem kalla á aukin útgjöld til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er nauðsynlegt að draga fram í umræðunni fyrir utan það að sumir af þeim sem hafa verið að leiðbeina okkur hafa verið á höttunum út um allan heim eftir því að fá aðila til að fjárfesta í stóriðju á Íslandi og gera þar með samkvæmt því ráð fyrir stórfelldum útgjöldum. Vonandi tekst það en þetta er engu að síður nokkur þversögn í slíkum málflutningi.

Hvað um það. Það er skoðun mín að vegáætlun eins og hún er hér upp sett og verður vonandi afgreidd og jarðgangaáætlun séu fullkomlega í samræmi við þau áform um stöðugleika sem stjórnvöld hafa. Ég treysti því að hv. þingmenn sem hér fjalla um hafi sama skilning.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég undirstrika að bættar vegasamgöngur skipta okkur mjög miklu máli. Í okkar stóra landi hafa flutningar mjög mikla þýðingu. Þeir eru mjög mikilvægir fyrir atvinnulífið. Þeir eru mjög mikilvægir fyrir afkomu þjóðarinnar því þeim mun greiðari sem flutningar eru með sjávarafurðir og þjónustuvarnir um landið þeim mun betri verður afkoma alls almennings.

Þróun flutninga hefur hins vegar tekið miklum breytingum að undanförnu. Flutningar hafa, frá því að hafa vera á sjó flust meira yfir á vegina. Það þarf að bregðast við þessu og taka tillit til þess þegar við leggjum á ráðin um ríkisútgjöld og uppbyggingu samgöngumannvirkja. Þess vegna er nú er unnið í samgrn. að samræmdri samgönguáætlun þar sem tekið er tillit til flugsamgangna, hafna- og vegasamgangna. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og vonandi fær þingið áður en langt um líður tækifæri til þess að ræða slíka áætlun.