Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 17:26:34 (7776)

2000-05-13 17:26:34# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[17:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið hæstv. ráðherra sammála um að allar þessar framkvæmdir eru mjög mikilvægar. En mig langar til vegna þess að ráðherrann gerði Sundabraut sérstaklega að umtalsefni og talaði um fjárveitingar, sem eru ekki háar miðað við hvað sú framkvæmd er dýr þar sem er verið að undirbúa, fara í umhverfismat og annað fyrir þær framkvæmdir. Hann nefnir að samkomulag hafi verið gert við borgarstjórn Reykjavíkur um þær framkvæmdir að farið verði í verkið upp úr 2002. Ég vil gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hversu mikla fjármuni hyggst hann setja í þetta verk eftir árið 2002. Hvernig hyggst hann fjármagna þessa framkvæmd? Nú hefur verið talað um að það verði sérstök fjármögnun á Sundabrautinni og ég hefði ekki talið óeðlilegt að það væri þá sambærileg fjármögnun og er við jarðgangagerðina. Þetta er alveg eins og hæstv. ráðherra sagði mjög áríðandi að farið verði í Sundabrautina sem fyrst og menn sem eru mér reyndari í vinnu samgn., sem voru fyrir mína tíð á þingi, tala um að lögð hafi verið rík áhersla á að Sundabrautin yrði að veruleika mun fyrr en talað er um núna og verður reyndin vegna þess hversu þetta mál hefur dregist, en þá vil ég fá að heyra það frá hæstv. ráðherra hversu mikla peninga hann ætlar að setja í þetta og hvernig hann hyggst fjármagna framkvæmdina. Ég minni á að þetta er mjög arðbær fjárfesting og því vil ég gjarnan heyra það frá hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst standa að þessu.