Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 17:28:48 (7777)

2000-05-13 17:28:48# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[17:28]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég nefna vegna spurninga hv. þm. að samkomulag við borgarstjórann gekk einungis út á að hefja undirbúning að umhverfismatinu en snerist ekkert um tímasetningar framkvæmda. Það er nauðsynlegt að það valdi ekki misskilningi en það varð fullt samkomulag um að ríkið kostar umhverfismatið en borgin sér um skipulagsþáttinn og að þessu er nú þegar unnið.

Um það hversu miklir fjármunir komi árið 2002 get ég ekkert sagt. Það er kannski ástæðan fyrir því að ekki er hærri fjárhæð inni á vegáætlun en raun ber vitni að svo mikil óvissa er um það hvernig framkvæmdinni verður háttað að ekki er skynsamlegt að setja inn tölur á þessu stigi.

Þær tillögur og þær athuganir sem liggja núna fyrir benda til þess að kostnaðurinn geti legið á bilinu 4,8 milljarðar til 10 milljarðar eftir því hvaða leið er valin yfir voginn. Það skiptir mjög miklu máli að umhverfismatið sé vandað og reynt sé að velja ásættanlega lausn sem er ekki allt of dýr. Ég er sannarlega að vonast til þess að lausnin sem er áætlað að kosti 4,8 milljarða verði ofan á. En á það er að líta að þarna eru Elliðaárnar og er nauðsynlegt að taka mikið tillit til þess umhverfis og gæta þess.

Hvað varðar það hvernig eigi að fjármagna þær framkvæmdir held ég að það sé ekki rétt á þessu stigi heldur að gefa neinar yfirlýsingar um það. Það þarf að finna leiðir til þess en það hlýtur að markast af þeim kostnaði sem þarna verður af þeirri framkvæmd.