Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 17:31:17 (7778)

2000-05-13 17:31:17# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[17:31]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Lítið er um svör frá hæstv. ráðherra um þessa framkvæmd og ég verð að segja að það kemur mér á óvart þegar verið er að setja 9 milljarða til viðbótar í vegaframkvæmdir að ekki skuli vera settir meiri peningar í Sundabrautina. Ég furða mig á því reyndar og ég er hissa á þingmönnum höfuðborgarsvæðisins innan stjórnarliðsins að þeir hafi ekki lagt meiri áherslu á hana. Það hefur ekki skilað sér í þeim áætlunum sem komu frá ríkisstjórninni í þeim efnum. Ég hefði gjarnan viljað heyra meira frá hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst fjármagna þetta og hvort hann telji ekki ráðlegt að farið verði í þá framkvæmd og henni hraðað.

Annað sem mig langar til að spyrja um sem kom fram í máli hæstv. ráðherra. Hann var að ræða um ýmsa aðila sem hafa verið gagnrýnir á þessar miklu vegaframkvæmdir og talaði alltaf um að sumir segðu þetta og sumir segðu hitt og aðrir segðu eitthvað annað. Getur hæstv. ráðherra ekki talað skýrt og sagt okkur nákvæmlega um hverja hæstv. ráðherra er að tala?