Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 17:35:14 (7780)

2000-05-13 17:35:14# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[17:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins í andsvari þakka hæstv. ráðherra fyrir þá yfirlýsingu sem hann gaf í sambandi við almennar vegaframkvæmdir. Hæstv. ráðherra kom réttilega inn á það að auðvitað væru brýn og stór verkefni sem hefðu þurft að fá meiri úrlausn en hér væri verið að leggja til í áætluninni og viðbótartillögum og nefndi þar sérstaklega tvö svæði og tvö verkefni þar sem væri tenging þéttbýlisstaða sem byggju við malarvegi á norðausturhorni landsins og Vestfjörðum. Ég er svo innilega sammála hæstv. ráðherra sem hugsast getur og ég þakka fyrir þessa yfirlýsingu að þau svæði verði sérstaklega tekin til meðhöndlunar fyrir næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar með það að markmiði að flýta framkvæmdum þar eins og hæstv. ráðherra sagði.

Ég þakka fyrir þessa yfirlýsingu. Ég treysti því að á bak við hana sé fullur vilji og innstæður til þess að þarna megi hraða framkvæmdum en það hefur einmitt verið inntak gagnrýni minnar að hluta til á skiptingu þessa viðbótarfjár nú undanfarna daga að þessi svæði og sérstaklega þó annað þeirra eru alveg utan við þegar kemur að úthlutun þessa viðbótarfjár til almennra vegaframkvæmda. Ég held að sé hollast að halda þeim aðgreindum í umræðunum því þarna er um að ræða aðskilda þætti mála, jarðgangaframkvæmdir, höfuðborgarsvæðið og síðan í einhverjum mæli viðbót við almennar vegaframkvæmdir. Þar verður tæpast um það deilt, herra forseti, að einmitt þessi verkefni sem hæstv. ráðherra nefndi eru í algerum sérflokki hvað varðar stór brýn verkefni sem enn er langt í land með að menn komist í gegnum sem er að ljúka tengingu allra þéttbýlisstaðanna sem enn búa við samgöngur á malarvegum, og gríðarlega mikil verkefni, öll norðausturleiðin frá Húsavík til Vopnafjarðar og síðan ákveðin svæði á Vestfjörðunum.

Ég fagna því þessari yfirlýsingu en ætla að öðru leyti að ræða þetta frekar í ræðu minni, herra forseti.