Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 17:39:30 (7782)

2000-05-13 17:39:30# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, KPál
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[17:39]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Við ræðum hér jarðganga- og vegáætlun sem legið hefur frammi og ég vil segja að hér eru á ferðinni einhverjar stórbrotnustu áætlanir í vegagerð sem hafa komið fram í sögu lýðveldisins ef mætti orða það svo, og óhætt er að þakka samgrh. og ríkisstjórninni sérstaklega fyrir hversu kröftuglega og af miklu þori tekið var á þessum málum. Það var ljóst að úr þurfti að bæta en ég hugsa að enginn hafi gert sér grein fyrir því að af hálfu ríkisstjórnarinnar yrði tekið á þessu af þeim krafti sem hér birtist.

Það er að sönnu alltaf hægt að deila um hvernig peningunum er úthlutað þegar kemur að því að úthluta fjármagninu eftir því hvar skórinn kreppir. Ég var einn af þeim sem töldu ástæðu til að gagnrýna jarðgangaáætlun sérstaklega í ljósi þess að mun meira fjármagn vantaði til annarra hluta en þar sem búið er að leysa það mál sé ég ekki að hægt sé að hengja hatt sinn á einhverja sérstaka gagnrýni á jarðgangaáætlunina umfram aðrar áætlanir sem eru til umræðu í leiðinni. Ég mun því fyrir mína parta samþykkja bæði jarðganga- og vegáætlun eins og þær liggja fyrir og fagna því að þar náum við, vona ég miðað við það ástand sem ríkir í þjóðfélaginu í dag, þeim árangri sem að er stefnt.

Ég held, herra forseti, að að sjálfsögðu sé ástæða til þess, eins og kom fram í máli hæstv. samgrh., að skoða þau mál sem eru í áætluninni og þau verkefni sem eru í áætluninni og velta því fyrir sér hvort niðurröðun þeirra mætti vera einhvern veginn öðruvísi. Ég hef sjálfur haft mikinn áhuga á því, ef maður lítur yfir landið í heild sinni, að menn einblíndu verulega mikið á það að reyna að ná vegum með varanlegu slitlagi nánast hringinn í kringum landið sem ég held að sé eitthvert mikilvægasta verkefni sem liggur fyrir. Eins og hæstv. ráðherra benti á eru tvö svæði sem eru afskaplega illa sett hvað þetta varðar, norðausturhornið og Barðaströndin og þar er full ástæða til að skoða málin sérstaklega. Mér finnst samt fagnaðarefni að bæði eru ætlaðar 100 millj. í Djúpveginn og aðrar 100 millj. í Barðastrandarveginn sem viðbótarfjármagn sem mun að sjálfsögðu leysa verulega mikinn vanda þar. Það er ekki svo ég viti til gert ráð fyrir því að Melrakkaslétta og það svæði fái mikið fjármagn og þá er spurning hvort leiðin um Dettifoss sé forgangsverkefni umfram það. En ég lít svo á að þingmenn svæðisins hafi ýmsa möguleika til þess að beina fjármagni í þær áttir sem þeir telja mikilvægari ef aðstæður og ástæður eru til þess. Á þessu stigi sé ég ekki neina ástæðu til að fara út í nákvæmar upptalningar. Ég sé ekki annað en að breiddin á þessari fjárveitingu með landið allt í huga hafi tekist mjög bærilega miðað við þarfirnar og við sjáum að tekið er á málum í öllum kjördæmum og hringinn í kringum landið. Þó að við horfum kannski fyrst og síðast á okkar eigin mál þurfum við þó að hafa víðsýni til þess að átta okkur á því að við viljum öll lifa í sátt og samlyndi í okkar stóra og fallega landi.

Mig langaði aðeins til að fara stuttlega yfir mál sem heyra til suðvesturhornsins, en hér er að sjálfsögðu margt sem horfir við með öðrum hætti en á landsbyggðarsvæðinu. Þar er bæði um að ræða þéttbýli og landsbyggðarvandamál og þau eru í kringum höfuðborgina það stór að það er í rauninni alveg sérstakt átak að leysa þau og þá sérstaklega Sundabrautina. Þó er gert ráð fyrir 100 millj. í Sundabrautina sem byrjunarframkvæmd, sem er mjög lítið en er fyrsta skref, en fyrst verður náttúrlega að ákveða hvar hún á að liggja.

[17:45]

Reykjanesbrautin og Vesturlandsvegurinn eru helstu æðarnar í gegnum bæinn. Þessar tvær leiðir fá verulega aukningu. Vesturlandsvegurinn fyrst og fremst vegna þess að þar hefur umferð farið mjög vaxandi og er komin í 17--18 þúsund bíla á dag. Reykjanesbrautin suður til Reykjanesbæjar er einnig stórt verkefni sem vegna vaxandi bílaumferðar er orðið brýnt. Þess vegna eru lagðar í viðbót 400 millj. til Hafnarfjarðar sem er út af því að þar eru tengingar mjög flóknar og erfiðar sem leiðir til þess að þær verða dýrari en annars hefði þurft.

Ég lít svo á að með þessum viðbótarfjármunum muni takast að ná Reykjanesbrautinni í gegnum höfuðborgarsvæðið á þeim tíma sem gert er ráð fyrir í langtímaáætlun þrátt fyrir aukinn kostnað. Í langtímaáætlun og fjögurra ára áætlun sem eru í gildi er tekið á því máli þannig að Reykjanesbrautin í gegnum Hafnarfjörð ætti að vera búin um árið 2004 en Reykjanesbrautin sunnan Hafnarfjarðar ætti að vera búin 2010.

Hjá þingmönnum Reykjaneskjördæmis hefur verið mikil samstaða um hvernig leysa eigi þessi samgöngumál. Samstaða hefur verið meðal allra þingmanna um að flýta þurfi kaflanum frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar verulega með því að flytja það fjármagn sem er á langtímaáætlun. Reykjanesbrautin sunnan Hafnarfjarðar er ein af þeim leiðum sem hefur nægjanlegt fjármagn á áætlun en þetta er einungis spurning um hvernig takast eigi að ná því fjármagni fyrr inn í framkvæmdir þannig að brautin verið tvöfölduð fyrr en áætlunin sjálf gerir ráð fyrir. Það má kannski segja að þess vegna séu ekki til aukafjármunir til tvöföldunar Reykjanesbrautar sunnan Hafnarfjarðar. Það þýðir samt ekki að ekki sé fullur vilji og alvara í að tvöfalda Reykjanesbrautina á þeim hraða sem gert er ráð fyrir. Þó svo að orðalag í nál. samgn. sé þannig að hægt væri að misskilja það, þá lít ég ekki svo á að verið sé að tala um einhverjar frestanir, en það segir á bls. 2 í nál. samgn., með leyfi forseta:

,,Meðal stórverkefna er tvöföldun Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Miðað við fjárveitingar getur útboð á fyrsta áfanga verksins farið fram árið 2002 og stefnt er að því að stórum hluta þess, þ.e. tvöföldun milli Straumsvíkur og Keflavíkur, verði lokið 2006.``

Orðalagið ,,stefnt er að því að stórum hluta þess,`` --- þingmenn Reykn. hafa samþykkt fyrir sitt leyti og munu standa við það að sú framkvæmd verði sett af stað árið 2002 og henni verið lokið árið 2006 og því gefur orðalagið sem slíkt ekki nægjanlega sterka mynd af þeim vilja sem er hjá þingmönnum Reykn. á því að leysa þetta mál.

Aðrar framkvæmdir sem þingmenn Reykn. hafa lengi barist fyrir og sett er fjármagn í samkvæmt þessari áætlun er Suðurstrandarvegur. En samkvæmt áætluninni fara 49 millj. kr. í Suðurstrandarveg á næsta ári. Bæði Suðurstrandarvegur og Reykjanesbrautin eru í umhverfismati. Ljóst er að undirbúningur undir framkvæmdir tekur einhvern tíma en honum ætti að ljúka á næsta ári þannig að framkvæmdir við Suðurstrandarveg ættu að hluta til að geta byrjað á næsta ári og við Reykjanesbrautina alveg örugglega árið 2002.

Suðurstrandarveginn er nákvæmlega sambærileg framkvæmd í mínum huga og jarðgöngin frá Siglufirði til Ólafsfjarðar. Verið er að tengja saman kjördæmi, landshluta sem eru að verða eitt kjördæmi og því voru nákvæmlega sömu rökin á bak við það að flýta Suðurstrandarvegi eins og að setja jarðgöng á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Flýting og aukafjármagn til þeirrar framkvæmdar er mjög eðlilegt í ljósi þeirra aðstæðna. Upphaf framkvæmda á næsta ári er mögulegt vegna þeirra fjármuna sem þingmenn kjördæmisins voru búnir að ákveða að færu í þann veg.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa fleiri orð um þessa áætlun. Ég held að við getum sagt að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir geti verið mjög ánægðir. Að sjálfsögðu er stefnan að þetta sé ekki bara áætlun heldur að þetta komist í framkvæmd, en menn þurfa samt að standa vaktina.

Ég vil að lokum vona að við þingmenn svæðisins eigum gott samstarf við hæstv. samgrh. um að framfylgja þessum áætlunum, við vegagerðarmenn, vegamálastjóra, aðstoðarvegamálastjóra og aðra starfsmenn Vegagerðarinnar sem sjá um þessa framkvæmd. En með því starfsliði, sem ég vil meina að sé afskaplega faglega sinnað fólk, sem hefur unnið af mikilli þekkingu við að byggja upp vegi á Íslandi með ótrúlega litla peninga í höndunum miðað við umfang verka, að þar hafi tekist mjög vel til. Þarna er fólk sem er mjög vel hnútum kunnugt, kann vel til verka og ég hlakka til að vinna með því að þessum málum. Ég þakka að endingu hæstv. samgrh. og ríkisstjórninni fyrir áætlanir þeirra.