Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 17:53:18 (7783)

2000-05-13 17:53:18# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[17:53]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða vegáætlun og ég verð að hefja mál mitt á því --- án þess að ég ætli að hafa langa umræðu, enda þingfundir búnir að vera hér dag eftir dag og langt fram á nætur, klukkan er að verða sex á laugardegi --- hversu ósátt ég er við það hvernig höfuðborgarsvæðið kemur út úr þessu ári og hversu miklum hluta af framkvæmdum sem búið var að samþykkja í vegáætlun er frestað. Tæplega helmingi af því sem fé sem gert var ráð fyrir að færi til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu er frestað til seinni tíma. Ég er mjög ósátt við það.

Aftur á móti verð ég að segja að af þeim 9 milljörðum sem koma sem viðbótarfjármagn til vegagerðar kemur náttúrlega þó nokkur hluti hingað á höfuðborgarsvæðið. Ég fagna því að þar er verið að taka á framkvæmdum sem ég hef sérstaklega lagt mig fram um að þrýsta á bæði í ræðu og riti að farið verði í. Þar vil ég nefna tvöföldun Reykjanesbrautarinnar sem ég tel mjög mikilvægt verk. Það er brýnt verkefni bæði fyrir höfuðborgarbúa og landsmenn alla vegna þess að Reykjanesbrautin er þjóðbrautin úr landi, í Leifsstöð, og mjög mikilvægt er að farið verði í þá vinnu. Ég tel það vera árangur af þrýstingi frá þingmönnum af höfuðborgarsvæðinu og kannski þeim sem hafa setið í samgn. að þarna er tekið á málum.

Sama á auðvitað við um Vesturlandsveginn og er það löngu tímabær framkvæmd að tvöfalda hann.

Aftur á móti óttast ég svolítið, því miður, að þeir peningar sem eiga að fara í þessar framkvæmdir og er áætlað að fari í framkvæmdir frá árinu 2002--2004 skili sér ekki í ljósi þess hvernig höfuðborgin hefur verið leikin í samgöngumálum. Þó ætla ég ekki að fara að gera því skóna að svo verði og ég tala út frá því og treysti að staðið verði við þau áform gagnvart þessu svæði, höfuðborginni, að fara í þessar framkvæmdir.

Það hefur löngum verið talað um hversu mikilvægt og hversu arðbærar vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru. Þrátt fyrir það hefur verið frestað og dregið saman í framkvæmdum og það hefur alltaf bitnað meira og minna á höfuðborgarsvæðinu. Mér fannst svolítið hjákátlegt þegar hæstv. ráðherra talaði fjálglega um það hvernig þingmenn kjördæmanna hefðu skipt því fé sem kæmi í hlut hvers kjördæmis vegna þess að nánast ekkert eða lítið fé er til skiptanna t.d. í Reykjavík. Ég vil nefna nokkrar framkvæmdir í ár sem gert var ráð fyrir að fara í sem verið er að fresta. Það eru gatnamótin við Víkurveg sem eru mjög umferðarþung gatnamót við Vesturlandsveg og Grafarvog. Þar er verið að fresta framkvæmdum. Gert var ráð fyrir 220 millj. en verið er að fresta 200 millj. í það verk á þessu ári. Ég nefni gatnamót við Breiðholtsbraut. Þar var gert ráð fyrir 211 millj., þar er verið að fresta 190 millj. til þeirra framkvæmda. Það fjármagn sem ætlað er til Hallsvegar um Gullinbrú, þar er ekki framkvæmt því búið er að framkvæma þar og verið er að greiða skuld. Sömuleiðis er verið að fresta framkvæmdum við Hallsveg, þ.e. hringvegur/Höfðabakki, eins og það er kallað á skrá. Þetta er mál sem ég tel ekki viðunandi, að höfuborgin skuli þurfa að sitja undir því núna þegar verið er að setja svona mikla peninga í samgöngumálin að þarna sé skorið af okkur. Ég segi kannski ekki skorið en framkvæmdum frestað sem áttu að vera á þessu ári.

Ég vil gera að umtalsefni það mál sem ég og hæstv. ráðherra ræddum í andsvörum fyrr á fundinum en það er Sundabrautin. Ég fagna því að hæstv. ráðherra býður upp í dans hvað það verkefni varðar. Ég hef iðulega rætt þetta mál í þinginu þegar vegamál hafa verið til umræðu og einnig þegar ég hef fjallað um vegamál í fjölmiðlum, hvort sem það hafa verið ljósvakamiðlar eða dagblöð. Þar hef ég lagt mjög ríka áherslu á að farið verði í Sundabrautina og ég mun svo sannarlega ræða þetta mál frekar við hæstv. ráðherra fyrst hann býður upp á það. Ég verð að segja að þegar málin eru rædd í þinginu get ég ekki annað en litið á það sem ákveðinn þrýsting á viðkomandi ráðherra í þeim efnum.

[18:00]

Ég fagna því að fara eigi í þessar framkvæmdir í nágrenni höfuðborgarinnar. Höfuðborgin hefur verið svelt hvað varðar vegafé undanfarið, a.m.k. þann tíma sem ég hef setið á þingi og það má ekki ganga þannig áfram. Við megum ekki og munum ekki sætta okkur við það. Þetta er höfuðborg allra landsmanna og það verður að sjá til þess að staðið verði við samþykkta vegáætlun hvað höfuðborgina varðar.

Herra forseti. Aftur á móti hef ég haft ákveðnar áhyggjur af þeim fjármunum sem getið er um í nefndaráliti og í tillögum hv. samgn. á þskj. 1373. Það verður að segjast eins og er að sporin hræða þar sem við höfum gengið frá vegáætlun þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum fjárveitingum til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu sem síðan hafa ekki skilað sér eða hefur verið frestað. En ég verð að treysta því að hæstv. ráðherra ætli að standa við þetta og þar með tel ég að hann hafi á vissan hátt orðið við kröfum okkar Reykjavíkurþingmanna og þingmanna á höfuðborgarsvæðinu um þessar framkvæmdir. Menn sjá hvernig ástandið er þegar þeir koma til borgarinnar, hvort sem þeir eru að koma af Norðurlandi eða Vesturlandi sem hæstv. ráðherra ætti að þekkja þar sem hann þarf að fara þá leið alloft geri ég ráð fyrir. Að koma inn í borgina á háannatíma er nánast ekki boðlegt.

Það er líka staðreynd að bílaeign landsmanna hefur aukist og aukist mun hraðar en menn gerðu ráð fyrir. Ríkisstjórnin hefur verið að gera ýmsar ráðstafanir þannig að mönnum hefur verið gert auðveldara að eignast bíla. Það hafa verið svo bílakaupahvetjandi aðgerðir og auðvitað verða menn að bregðast við því einnig í samgöngumálunum og auka vegafé sem því nemur. Það segir sig alveg sjálft.

Varðandi Sundabrautina geri ég mér fulla grein fyrir því að það er ekki auðvelt verk að koma henni fyrir. Ýmsar leiðir liggja fyrir í því máli og hef ég kynnt mér það ítarlega. Þær eru misdýrar eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra í máli hans fyrr á fundinum. En ég er sannfærð um að ef menn hefðu komið sér saman um það þegar þeir voru að raða þessum viðbótarfjármunum niður á framkvæmdir og hefðu ákveðið að setja aukið fé í Sundabrautina, t.d. 2004 eða síðar, þá hefði verið farið í það. Ég er alveg sannfærð um það. Ef til staðar hefði verið raunverulegur vilji ráðamanna að koma því verkefni af stað þá held ég að það hefði verið ákveðin viljayfirlýsing að setja meira fjármagn í það þannig að hægt hefði verið að fara í þá framkvæmd. Þarna er stór og mikil framkvæmd á ferðinni og mun auðvitað taka allnokkurn tíma að verða að raunveruleika. En ég hefði gjarnan viljað sjá að settir hefðu verið meiri peningar í Sundabrautina en til þessa undirbúnings, þ.e. sjá þarna aukið fjármagn til þeirrar framkvæmdar.

Ég hefði líka gjarnan viljað heyra frá ráðherra, en ég geri mér grein fyrir að ekki verður unnt að fá svör við því, hvernig hann hyggst standa að fjármögnun og hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála mér í því að fjármögnun Sundabrautar gæti verið sambærileg við jarðgangagerðina, hvort það komi til greina. Ég tel að menn ættu að skoða það að fara sömu leið með Sundabrautina og jarðgöngin.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira en orðið er. En verð að segja að ég er ósátt við það hvernig höfuðborgarsvæðið kemur út, sérstaklega á þessu ári. Ég get ekki sætt mig við það að höfuðborgin búi við þetta ár eftir ár. Ég treysti því að ráðherra standi við þær fyrirætlanir sem koma fram í þessu þingskjali svo að næst þegar við ræðum endurskoðaða vegáætlun verði ekki farið í að draga úr framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu því að það er ekki hægt að bjóða þessu fjölmenna og umferðarþunga svæði, þar sem gatnamót eru erfið, hættulegir staðir og slysahætta er mikil, frekari frestun á framkvæmdum.