Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 18:41:23 (7788)

2000-05-13 18:41:23# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, SJS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[18:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að stytta mjög mál mitt með tilliti til aðstæðna undir lok þinghaldsins en einhvern tíma hefði maður látið eftir sér að hafa nokkur orð um tímamót af því tagi að hér er verið að afgreiða endurskoðun vegáætlunar og umtalsverðar nýjar ákvarðanir á ferð hvað varðar forgangsröðun til verkefna og fleira.

Ég fagna að sjálfsögðu því, eins og ég hef jafnan gert og mun gera, að verið sé að taka ákvarðanir um að verja auknum fjármunum til vegamála. Það hefur verið baráttumál mitt mjög lengi að reyna að hafa þær framkvæmdir sem mestar, enda verkefnin ærin og sér hvergi fyrir endann á. Enn er sjálfsagt fram undan 15--25 ára verkefni hvað það varðar að koma öllu þjóðvegakerfi landsins og helstu hliðarvegum í fullnægjandi horf og það er svo undarlegt að það eru alltaf þessi sömu 15--25 ár sem eru fram undan okkur í þeim efnum. Það er eins og bætist alltaf nýtt við hinn endann.

Ég held hins vegar að þó að við séum að tala um slíkt og gleðjumst yfir því og ég er ekkert að gera lítið úr því að verið er að ákveða talsverða raunaukningu fjár til vegamála, þá skulum við líka hafa í huga að umferðin hefur aukist gríðarlega og þörfin hefur aukist gríðarlega. Ef við lítum á þetta í hlutfallstölum erum við þrátt fyrir allt ekki að gera neitt óskaplega miklu betur og reyndar talsvert lakar hvað það snertir en við höfum gert stundum áður. Mikið vantar upp á að við náum þeim hlutföllum sem varið var til vegamála á árunum upp úr 1970 þegar allt upp í 2,28% af landsframleiðslu fóru í slíkar framkvæmdir. Ég held að það sé allt í lagi að menn hafi það í huga að menn eru náttúrlega að tala um breyttar aðstæður, menn eru að tala um miklu meiri veltu í þjóðarbúskapnum og við erum að tala um miklu meiri umferð sem kallar aftur á aukin útgjöld.

Ef við lítum líka á raungildi upphæða má til gamans nefna og það kemur fram í skýrslu samgrh. sem dreift var hér fyrir skömmu að á árinu 1973 var varið tæpum 8,6 milljörðum kr. á verðlagi ársins 1999 til vegamála. Á árinu 1999, á því sama ári sem var til viðmiðunar, var varið 9,1 milljarði. Það er allur munurinn. Það er rúmum 500 millj. meira að raungildi þó að þjóðartekjurnar séu miklu hærri á Íslandi í dag en þær voru 1973.

Á árinu 2000 á samkvæmt brtt. að verja 9 milljörðum og 802 millj. kr. til vegaframkvæmda og það er eins og ég segi ekki nema rétt liðlega milljarði meira að raungildi en varið var til vegamála 1973 og verður sjálfsagt einhvers staðar undir 1,5% af þjóðarframleiðslunni. En þetta er samt sem áður gleðilegt út af fyrir sig svo langt sem það nær að við erum að ná þarna inn meiri fjármunum á næstu árum og ég held að menn eigi ekki að gera allt of mikið með það hvort þeir peningar koma í gegnum hina mörkuðu tekjustofna Vegagerðarinnar eða beint úr ríkissjóði af þeirri einföldu ástæðu að eins og þessir hlutir hafa þróast, þá renna í ríkissjóð geysilegar skatttekjur af umferð og bílainnflutningi. Heildarskatttekjur sem ríkið --- Vegasjóður og ríkissjóður --- hafa af umferðinni í landinu nálgast um 30 milljarða kr. Í því ljósi erum við ekki að gerast mjög stórtæk í þeim efnum. Þetta getur hæstv. samgrh. haft sér til málsbóta og raka þegar að honum er sótt vegna þess að hér sé gáleysislega verið að ráðstafa fjármunum til þessa málaflokks. Þeir menn sem þannig tala og skrifa þekkja ekki raunveruleikann. Þeir lifa í öðrum heimi en þeir sem samgöngumálin brenna á. Það er algerlega ljóst að ef þjóðin ætlar að lifa góðu lífi í landinu á komandi árum í nútímalegu hátæknisamfélagi verður hún að leggja mikla rækt við þennan málaflokk og ráðstafa í hann miklum fjármunum og það standa öll rök til þess að gera það.

[18:45]

Í öðru lagi fagna ég því einnig, herra forseti, að nú á að hefjast handa við jarðgangaframkvæmdir á nýjan leik. Ég verð reyndar að segja að ég græt mjög þau ár sem við höfum glatað í þeim efnum. Við verðum að horfast í augu við að því miður misstum við fram hjá okkur allmörg ár þar sem gat kom í þessar framkvæmdir. Ég er þá að tala um almennar jarðgangaframkvæmdir frá því að þeim lauk á Vestfjörðum eða frá því að greiðslu kostnaðar vegna þeirra framkvæmda lauk. Þó við tækjum frekar síðara ártalið, eins og tveimur árum eftir að framkvæmdunum sjálfum lauk, er komið þriggja til fimm ára gat eftir því við hvað er miðað. Þeim árum höfum við í raun tapað og við gætum verið lengra komin ef mönnum hefði tekist að verja þar samfelldar framkvæmdir. Þetta er að fara af stað á nýjan leik og ég fagna því mjög og kem aðeins betur að því síðar.

Ég hef, herra forseti, gagnrýnt einn þátt sérstaklega sem snýr að vinnubrögðum í þessu sambandi. Það snýr að því sem þarna er bætt við í almennum vegaframkvæmdum, hvernig með það mál var farið eða að því var búið. Ég segi sem svo: Jarðgangaframkvæmdirnar voru og eru séráætlun og það lá alltaf fyrir að þannig yrði á því tekið. Það hefur legið í loftinu að eitthvað yrði farið í viðbótarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum, undan því yrði ekki vikist. Ég er því sammála. Mér hefur lengi verið ljóst að hér bíða gríðarleg verkefni og hef stundum bent á það á undanförnum árum að sú holskefla mundi fyrr eða síðar skella yfir okkur með milljarðaframkvæmdum og gæti að sama skapi orðið þrengra um fyrir framkvæmdir annars staðar í landinu. Mikill bakki er fram undan með margra milljarða og milljarðatuga verkefnum þar sem Sundabraut er stærst og aðrar mjög dýrar lausnir, mislæg gatnamót o.fl. Það er ljóst að ekki verður undan því vikist að fara þarna í framkvæmdir.

Ég hef ekki gagnrýnt að bætt sé við fé til almennra vegaframkvæmda heldur hvernig því var skipt í brtt. samgn. og þar hafi ekki allir setið við sama borð. Ég stend við þá gagnrýni og vísa til þess sem ég hef áður sagt í þeim efnum.

Herra forseti. Ég fagna að sjálfsögðu einnig þeim almennu framkvæmdum sem þarna á að greiða götu fyrir eins og þverun Kolgrafarfjarðar og framkvæmdum við stórverkefni á Vestfjörðum, þó meira hefði verið. Ég sakna þess hins vegar og hlýt að láta það koma fram að önnur sambærileg stórverkefni, sem mun taka ár ef ekki áratugi að ljúka og eru um flest hliðstæð eins og framkvæmdir á norðausturhorni landsins eða ákveðnir kaflar annars staðar, Norðurárdalur í Skagafirði eða vissir bútar í vegakerfinu á Austfjörðum, skuli þá ekki einnig fá einhverja úrlausn. Það finnst mér ekki sanngjörn skipting á þessu viðbótarfé vegna þess að í mínum huga er um sambærilegan vanda að ræða á þessum stöðum. Hver er t.d. munurinn á milli stórverkefnanna á Vestfjörðum, sem fá þó 200 millj. og það er þakkarvert, og verkefna á norðausturhorni landsins? Hver er hann eiginlega? Framkvæmdirnar á norðausturhorninu eru slíkt forgangsverkefni af hálfu okkar þingmanna Norðurl. e. að við höfum sett hverja einustu krónu af öllu viðbótarfé inn í kjördæmið í það eina verkefni og neitað okkur um það að láta nokkuð renna til annarra framkvæmda. Með því höfum við reynt að undirstrika mikilvægi verkefnisins og forgang en samt er sjálfsagt í besta falli a.m.k. áratugur þangað til við getum séð til lands með að koma leiðinni frá Húsavík til Vopnafjarðar í sæmilegt horf. Þetta er slíkt risaverkefni. Mér hefði fundist að það hefði þurft að fá þarna úrlausn í leiðinni.

Ég fagna hins vegar þeirri yfirlýsingu sem hæstv. samgrh. gaf sérstaklega í tengslum við þetta mál þar sem ráðherra nefndi tvö svæði eða verkefni sérstaklega. Það væri tenging þéttbýlisstaðanna á norðausturhorni landsins og á Vestfjörðum sem enn búa við langa kafla af malarvegum sem tengjast þjóðvegakerfinu. Það eru auðvitað eins og mál hafa þróast, þar á meðal sjósamgöngur, algerlega óviðunandi samgöngur. Ég kýs að orða það þannig, herra forseti, að verkefnið sé að koma þessum héruðum landsins í vegasamband á nýjan leik. Þar eru sambærilegar aðstæður og meðan þarna lágu kerruslóðir milli staða. Það að ætla að búa við malarvegi með aurbleytu og þungatakmörkunum fyrir byggðarlög sem orðin eru algerlega háð samgöngum á landi með alla sína flutninga, afsetningu allrar framleiðslu sinnar og alla flutninga inn á svæðið, er bara ekki vegasamband í nútímalegum skilningi þess orðs.

Það væri fróðlegt fyrir menn að kynna sér þá miklu erfiðleika sem þetta skapar einstökum fyrirtækjum og hægt er að leggja dæmin á borðin um, sem eru t.d. að reyna að framleiða fersk matvæli til útflutnings með flugi á þessu svæði. Þau búa við þungatakmarkanir í nokkrar vikur, alveg upp í mánuð, á hverju vori og búa t.d. við að það kostar stopp á báðum leiðum þegar komið er inn á slitlagið að þvo bílana því að ekki vilja menn koma með hágæðamatvörur í grútskítugum flutningabílum út á flugvöll eða á markað o.s.frv. Þetta tefur, kostar mikla fjármuni og skapar mikið óhagræði svo ekki sé minnst á ferðaþjónustuaðila og almenning sem þarna geldur fyrir með lökum samgöngum.

Ég fagna hins vegar enn á ný, herra forseti, yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að þetta verði sérstaklega skoðað nú milli tímabila og komi inn við næstu endurskoðun vegáætlunar veturinn 2001--2002, ef ég hef tekið rétt eftir, með það að markmiði að hraða þessum framkvæmdum. Við getum þá gert áætlanir og unnið í því ljósi að þarna muni eitthvað rætast úr.

Ég fagna að sjálfsögðu fjármunum til vegamála á Austurlandi, þessum milljarði þó að hann sé dálítið sérkennilega merktur. Ég hafði ekki áttað mig á því eftir öll þessi ár að til væru sérstakir vegir sem kölluðust orku- og iðjuvegir. Ég hef aldrei ekið slíka vegi, ég verð bara að játa fáfræði mína, herra forseti. Það væri gaman að fá lýsingu á hvernig þessir vegir eru. Er gult á þeim malbikið eða hvað er svona sérstakt við þá að þeir heita þessu nafni? En þetta eru þó vegaframkvæmdir á þessu svæði og koma þeim til góða þó ég hafi efasemdir um að merkja þetta svona og að þetta sé endilega heppilegasta forgangsröðin. Auðvitað má taka það til skoðunar í framhaldinu en þarna koma fjármunir til framkvæmda sem örugglega koma sér vel. Ekki veitir Austfirðingum af, sem hafa verið grátt leiknir gegnum gylliáform um stóriðju og aðrar miklar framkvæmdir í þeirra fjórðungi sem ekkert hefur orðið af. Við vitum vel að þar er þungt fyrir fæti vegna þess að ýmsir höfðu bundið miklar vonir við þetta sem ganga nú ekki eftir.

Varðandi jarðgöngin, herra forseti, þá get ég eiginlega ekki farið úr ræðustólnum nema segja um þau setningu. Þau hafa lengi verið mér hugleikin, ég fagna því mjög að þessar framkvæmdir fara nú af stað og bæði verkefnin eru mjög brýn. Það hefur lengi blasað við að þessi stuttu göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar væru mjög hagkvæm en það á við um fleiri staði á Austurlandi. Ég tel mjög brýnt að hraða einnig undirbúningi framkvæmda sem tengja Norðfjörð með betri göngum og allt miðsvæðið á Austurlandi og ekki síst Vopnafjörð við Hérað. Fyrr lýkur ekki uppbyggingu strandleiðarinnar, norðausturleiðarinnar úr Ljósavatnsskarði, en hún er komin gegnum jarðgöng undir Hellisheiði yfir á Hérað. Þá er sú stóra tenging byggðanna á öllu norðausturhorni landsins loksins orðin eins og hún á að vera í framtíðinni og enginn efi í mínum huga um að við eigum að stefna að því.

Tenging Siglufjarðar er sömuleiðis ákaflega brýn. Menn geta kannski deilt um útfærslu þar en það er engin spurning að það er gífurlegt hagsmunamál fyrir Eyjafjarðarsvæðið og auðvitað fyrst og síðast Siglufjörð, að fá betri tengingu inn á Eyjafjarðarsvæðið, að allt svæðið tengist saman. Ég sé í framtíðinni fyrir mér sams konar byggðatengingu úr Eyjafjarðarbotni frá Akureyri út með Eyjafirði að vestanverðu um Siglufjörð eða Fljót og áfram um Skagafjörð og ,,Þverárhlíðarfjallsdalsheiðarveg``, eða hvað það nú heitir, yfir á Blönduós. Þá er þar kominn stór baugur til norðurs sem tengir alla stóru staðina á Miðnorðurlandi inn í botn Eyjafjarðar. Það er sams konar framtíðarsýn og ég tel að við eigum í sambandi við norðausturhornið, miðsvæði Austfjarða, Vestfirðina og fleiri staði.