Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 18:56:43 (7791)

2000-05-13 18:56:43# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[18:56]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls og endurtaka þakkir til hv. samgn. sem hefur staðið vel að verki.

Það skiptir auðvitað miklu máli að bærileg sátt sé um framkvæmdaáform í vegamálum, ekki síst þegar verða svo mikil kaflaskil eins og nú með þessari áætlun þegar jarðgangaáætlunin er komin til afgreiðslu og orðinn hluti af vegáætlun. Það eru vissulega tímamót.

Auðvitað hlýt ég að segja, vegna umræðu um skiptingu, að allt orkar tvímælis þá gert er. Til þess eru þessar áætlanir og ákvæðin um endurskoðun þeirra að færi gefist til að gera breytingar, koma að mikilvægum verkefnum og taka það sem næst er í röðinni. Það er alveg ljóst að við höfum lagt tilteknar áherslur. Það voru framkvæmdir við jarðgöng á Vestfjörðum. Ýmsir höfðu á orði að eðlilegt væri að næst yrði borað á Austurlandi. Aðrir segja að fara megi í aðrar áttir o.s.frv. En þessi fámenna þjóð hefur náð feiknarlega mikilvægum áföngum engu að síður. Við höfum tekið þetta í þeirri röð sem hér hefur orðið samkomulag um á Alþingi og það skiptir auðvitað miklu máli. Verkefnið liggur fyrir og það er alveg ljóst. Áfram verður haldið og ég vona að það náist eins góð sátt árið 2002 þegar endurskoðun fer næst fram.

Aðeins að lokum, herra forseti. Auðvitað verðum við að gæta að því --- það vil ég segja í tilefni þess sem hér hefur komið fram --- að ríkisútgjöld verði ekki meiri en efnahagslífið þolir og framkvæmdir og útgjöld verði ekki meiri en svo að allt haldist í jafnvægi. Það er auðvitað deginum ljósara að við verðum að gæta að okkur. Það hafa verið gerðir kjarasamningar og við þurfum að halda stöðugleikanum. Þau framkvæmdaáform sem hér eru í gangi fyrir þetta og næsta ár eru að okkar mati fullkomlega innan þeirra marka sem við gerum ráð fyrir til að stöðugleikinn haldist og forsendur kjarasamninga byggja á.

Ég tek þetta fram og tek undir það sem fram kom, m.a. hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Auðvitað þurfum við að gæta þess að ekkert fari úr skorðum. En framkvæmdaáætlanir eins og jarðgangaáætlun og vegáætlun verða að taka mið af fjárlagagerð hverju sinni. Þetta er því eilíft viðfangsefni, að þarna haldist í hendur mikilvæg framkvæmdaáform og geta efnahagslífsins til að standa undir þeim útgjöldum sem við leggjum til. Þetta þurfum við að hafa í huga og muna.

Með þeim orðum þakka ég enn og aftur fyrir ágætar umræður, málefnalegar umfram allt, og stórmerkilega veg- og jarðgangaáætlun sem hér liggur fyrir.