Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 21:35:24 (7800)

2000-05-13 21:35:24# 125. lþ. 119.4 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 125. lþ.

[21:35]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. meiri hlutans með fyrirvara og er skýringin á honum eftirfarandi:

Hér er verið að greiða atkvæði um skattalagafrv., ekki um laun forseta Íslands. Samkvæmt landslögum ber Kjaradómi, ekki Alþingi, að ákvarða laun forsetans. Ég hef margoft lýst andstöðu við það fyrirkomulag að Kjaradómur og kjaranefnd ákvarði laun forsetans, alþingismanna og embættismanna og fært rök fyrir þeirri afstöðu. Þetta er hins vegar það fyrirkomulag sem við búum við og að mínum dómi er óeðlilegt að Alþingi leggi Kjaradómi lífsreglurnar með þeim hætti sem gert er í nál. meiri hlutans. Ég er því ekki sammála þeim hluta álitsins.

Sem einstaklingar getum við haft á því skoðun hvað Kjaradómi ber að gera en öðru máli gegnir um Alþingi sem löggjafa. Ég styð lagabreytingarnar og þær brtt. sem fram eru komnar frá því að 1. umr. fór fram en þær fela í sér að hlunnindi vegna skilgreindra embættiskvaða eru ekki reiknuð forsetanum til skattskyldra tekna.