Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 21:37:55 (7802)

2000-05-13 21:37:55# 125. lþ. 119.4 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 125. lþ.

[21:37]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. forsrh. að líklega ríkir almenn samstaða um það á Alþingi að afnema beri skattfríðindi forsetaembættisins. Sú skoðun hefur ítrekað komið fram að eðlilegt væri að forseti lýðveldisins væri jafnsettur öðrum þegnum þó að hann væri að öðru leyti fremstur meðal jafningja.

Það sem hefur hins vegar gerst núna, herra forseti, er að málið ber að með þeim hætti að menn hljóta að spyrna við fótum og spyrja: Hvað hastar? Hvað hastar núna að bera fram frv. þessarar gerðar daginn sem á að fresta fundum Alþingis?

Í greinargerð með frv. segir að þær breytingar sem felast í frv. verði ekki gerðar á kjörtímabili forseta vegna ákvæðis 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar og síðan er vitnað í það ákvæði. Miðað við þær upplýsingar hér hafa komið fram um skoðun Sigurðar Líndals lagaprófessors á þessu er hér um ákveðinn misskilning ræða. Menn þurfa ekki að flýta sér nema til standi að rýra kjör forsetans. Ætli menn að hafa forsetaembættið jafnsett eftir sem áður má breyta kjaraumhverfinu, þ.e. gera breytingar á kjörtímabilinu. Mér finnst þetta skipta máli og varpa ljósi á hve mikill hraðinn er. Það kom ekki í ljós að þetta atriði, sem virðist hvatinn að því að hraða þessum málum, byggist á misskilningi fyrr en í umfjöllun efh.- og viðskn. um málið í dag.

Við getum reyndar velt því fyrir okkur hvort tilgangurinn var að rýra kjör forsetaembættisins. Eins og kom fram við umræðuna í morgun þá virtust flutningsmenn ekki alveg einhuga um til hvers var lagt af stað í þessa ferð, hvort forsetaembættið átti að vera jafnsett eða hvort það mætti rýra. Menn voru heldur ekki sammála um hverjar gætu verið hugsanlegar afleiðingar frv. Af því að formaður Kjaradóms kvartaði undan því að leiðbeiningar Alþingis hefðu verið svolítið út og suður, ef hlustað væri eftir því sem flm. sögðu, þá er rétt að ítreka að orð 1. flm. hljóta að vega dálítið þegar menn vilja túlka eða finna út hvað hér er meint. Hann lét hafa eftir sér að hann teldi að laun hæstv. forsrh. mundu hækka í kjölfarið. Þar var auðvitað á ferðinni ákveðin forsögn sem hér er síðan reynt að bera til baka. Málið hefur sannarlega verið ruglingslegt, herra forseti, og ber vott um að menn hafi kannski flýtt sér meira en efni stóðu til.

Menn hafa haft áhyggjur af því hvaða áhrif samþykkt þessa frv. mundi hafa. Fyrst og fremst hafa menn haft áhyggjur af því hvaða áhrif það hefði á launamarkaðinn. Í dag gætti ákveðins titrings í röðum launafólks þar sem menn óttast að hér sé einungis upphafið að því að launabilið í þjóðfélaginu aukist enn meira en það er núna. Formaður Kjaradóms taldi að þrýstingur á dóminn mundi aukast mjög eftir að laun forsetans verða skráð eins og gera verður hér eftir einfaldlega vegna þess að þarna sjá menn mjög mikið bil, annars vegar á milli forseta lýðveldisins og hins vegar forsrh. en síðan annarra ráðherra, æðstu embættismanna og loks alþingismanna. Í kjarabaráttu eru menn fljótir að gleyma því sem var og horfa einungis á þá stöðu sem uppi er þegar tekist er á um hlutina og fljótlega verða menn búnir að gleyma því að ástæðan fyrir því að laun forsetans eru skráð eins og þau eru skráð er sú að skattfríðindi hans hafi verið afnumin. Þannig er áreiðanlega rétt að þessi pressa mun verða mikil. Ég er ekki trúuð á að það sem meiri hluti hv. efh.- og viðskn. setur í nál. sitt hafi mikið að segja þegar að því kemur að takast á við þann þrýsting.

Ég held að þetta frv. muni líka hafa önnur áhrif og hafi þegar haft önnur áhrif. Áhrifin eru þau að embætti forseta Íslands og samskipti þess við þjóðþingið er komið undir alveg sérstakt ljós og það ljós er ekki gott fyrir Alþingi Íslendinga. Býsna margir í þjóðfélaginu eru sannfærðir um að meðferð þessa máls og aðdragandi beri fyrst og fremst vott um að menn vilji á einhvern hátt gera lítið úr embætti forseta Íslands. Menn geta auðvitað mótmælt og vilja ugglaust gera það en eigi að síður eru þetta áhrifin.

Herra forseti. Ég vil, með þínu leyfi, vitna í leiðara sem ritstjóri Dags skrifar í blað sitt í dag undir fyrirsögninni ,,Pukurslegt næturbrölt``. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi: Síðustu sólarhringa þinghaldsins hefur pukurslegt næturbrölt nokkurra alþingismanna vakið furðu. Þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum hafa haft um það frumkvæði að þingið kasti fyrir róða allri venjulegri meðferð þingmála til að afnema í skyndi skattfrelsi forsetaembættisins og láta þar með núverandi forseta greiða skatta á næsta kjörtímabili. Upphaflega þorði að vísu enginn þingmannanna að kannast við krógann opinberlega, en þegar málið kom fram í þinginu varð ljóst að sjálfstæðismenn höfðu fengið þingmenn úr öllum flokkum nema Samfylkingunni til að taka þátt í þessum einstæðu vinnubrögðum.

Í öðru lagi: Hvers vegna kemur þetta mál upp með svo óvenjulegum hætti á síðustu dögum þingsins? Flutningsmenn tillögunnar segja skýringuna þá að nú sé kjörtímabili forsetans að ljúka. Á þjóðin að trúa því að þessir þingmenn hafi ekki áttað sig á þeirri staðreynd fyrr en allra síðustu daga? Hefur það ekki legið fyrir í fjögur ár? Var þeim þetta ekki ljóst þegar þingið hófst í október? Auðvitað! Þess vegna er þessi afsökun tómt blaður. Annars hefðu þingmennirnir auðvitað lagt málið fram strax á haustþinginu. Það er því eitthvað annað og alvarlegra sem býr hér að baki. Þeir þingmenn sem standa að frv. eiga að skýra þjóðinni frá raunverulegu ástæðunni, annað er óheiðarlegt.

Í þriðja lagi: Auðvitað ættu allir þegnar þjóðfélagsins að greiða skatta og skyldur til samfélagsins. En slík undanþága nær ekki aðeins til forseta Íslands. Margir opinberir embættismenn njóta líka skattfrelsis, svo sem sendiherrar. Hvers vegna fylgir ekki með í frv. þingmannanna tillaga um að afnema skattfrelsi þeirra líka? Ef svo væri, gætu flutningsmenn a.m.k. reynt að segja þjóðinni að þeir væru sjálfum sér samkvæmir og að framfylgja einhverri grundvallarstefnu í málinu, en ekki aðeins að flytja frv. sem beinist augljóslega gegn þeim sem nú gegnir forsetaembætti.``

Herra forseti. Það er miður að menn skuli skrifa leiðara sem þessa og telja sig hafa stóran hluta þjóðarinnar á bak við sig í þeim viðhorfum sem hér koma fram. Þetta eru því miður áhrifin af því frv. sem hér er verið að afgreiða. Ég held að þessi áhrif verði hvað alvarlegust, þ.e. þau áhrif sem sitja eftir af þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð.