Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 21:56:58 (7805)

2000-05-13 21:56:58# 125. lþ. 119.4 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 125. lþ.

[21:56]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sem hefur tekið afdráttarlausa forustu í þessu þingmannamáli fagnaði þeirri samstöðu sem hann las úr afstöðu alþingismanna varðandi það að afnema skattfrelsi forsetaembættisins. Ég vil þess vegna benda á þá afstöðu sem kemur fram í nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn. þar sem minni hlutinn lýsir vanþóknun sinni á því hvernig að þessu frv. er staðið. Öll vinnubrögð og meðferð málsins einkennast af virðingarleysi við forsetaembættið. Það ber að harma að samskipti þjóðkjörins þjóðhöfðingja og Alþingis skuli dregin niður á þetta plan.

Herra forseti. Mér finnst það einstaklega dapurt að enda þinghald þessa vetrar á þessu ólánlega máli og greiði ekki atkvæði.