Þingfrestun

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 22:17:17 (7808)

2000-05-13 22:17:17# 125. lþ. 120.95 fundur 550#B þingfrestun#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 125. lþ.

[22:17]

Forseti (Halldór Blöndal):

Háttvirtir alþingismenn. Ég mun nú gefa yfirlit yfir störf 125. löggjafarþings.

Þingið stóð yfir frá 1. október til 21. desember 1999 og frá 1. febrúar til 13. maí 2000. Á þingtímanum urðu þingfundardagar alls 89. Þingfundir hafa verið 120 og stóðu þeir samtals í 535 klukkustundir. Lengsti þingfundurinn stóð í um það bil 15 klukkustundir.

Mun ég fyrst gera grein fyrir úrslitum þingmála.

Lagafrumvörp voru samtals 229. Af þeim voru stjórnarfrumvörp 145 og þingmannafrumvörp 84.

Af stjórnarfrumvörpum voru 127 afgreidd sem lög en óútrædd stjórnarfrumvörp eru 18.

Þá urðu 11 þingmannafrumvörp að lögum, tveim var vísað til ríkisstjórnarinnar, eitt var fellt, en 70 þingmannafrumvörp eru óútrædd.

Af 229 frumvörpum urðu alls 138 að lögum.

Þingsályktunartillögur voru alls 100. Af þeim voru stjórnartillögur 19 og þingmannatillögur 81.

Alls voru 25 tillögur samþykktar sem ályktanir Alþingis, ein var felld og 74 eru óútræddar.

Skýrslur voru samtals 33. Beiðnir um skýrslur frá ráðherrum voru tíu og bárust fimm skriflegar skýrslur, ein beiðni var kölluð aftur. Aðrar skýrslur lagðar fram voru 28.

Fyrirspurnir. Bornar voru fram 288 fyrirspurnir. Allar voru þessar fyrirspurnir afgreiddar nema 15. Munnlegar fyrirspurnir voru 165 og af þeim var 152 svarað og tvær voru kallaðar aftur. Beðið var um skrifleg svör við 123 fyrirspurnum og bárust 119 svör.

Alls voru til meðferðar í þinginu 655 mál. Þar af voru 443 afgreidd og tala prentaðra þingskjala var 1419.

Þá vil ég gefa yfirlit um nefndastarfið. Á þessu þingi var 21 dagur eingöngu helgaður nefndastarfi, fyrir utan reglubundna nefndafundi yfir þingtímann. Á yfirstandandi þingi hafa verið haldnir 382 nefndafundir og eru það 32 fundir að meðaltali á hverja fastanefnd. Alls stóðu nefndafundir í 769 klukkustundir og er meðaltalið 64 klukkustundir á nefnd. Eru þá ekki taldir aðrir fundir, svo sem meirihlutafundir.

Alls var 239 málum vísað til fastanefnda þingsins og afgreiddu þær frá sér 166 mál. Samtals voru 195 þingmál send til umsagnar utan þings. Bárust nefndum þingsins 2200 erindi um þingmál. Auk þessa hafa nefndir fjallað um mál að eigin frumkvæði og nokkrar nefndir hafa farið í vettvangsferðir á þessu þingi.

Alþingi hefur samþykkt að fresta fundum sínum til 30. júní nk., en þá kemur það saman að nýju í tengslum við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum 2. júlí í tilefni þess að 1000 ár eru liðin frá kristnitökunni. Ég vil því biðja þingmenn að hafa þessar dagsetningar í huga þegar þeir skipuleggja störf sín á næstu vikum. Nánari upplýsingar um þingfundinn 30. júní og dagskrá hátíðarfundarins verða sendar þingmönnum á næstu vikum.

Þegar Alþingi kemur saman til reglulegra funda í haust vænti ég að langþráðar umbætur á starfsaðstöðu fastanefnda verði komnar í höfn. Í húsnæði því sem Alþingi hefur tekið á leigu í nýbyggingu við Austurstræti 8--10 er ákveðið að fastanefndirnar og starfsfólk þeirra verði. Fastanefndirnar hafa lengi búið við óviðunandi aðstöðu og er von mín að hið nýja húsnæði verði til mikilla bóta í nefndastarfinu.

Í framhaldi af fyrirhuguðum framkvæmdum við 2. áfanga skálabyggingarinnar, sem hefjast í haust, eru það áform forsætisnefndar að við Kirkjustræti og Tjarnargötu rísi á næstu árum skrifstofubygging fyrir alþingismenn. Skrifstofur alþingismanna eru núna flestar í misgóðu leiguhúsnæð og löngu tímabært að Alþingi reisi eigið skrifstofuhúsnæði til að tryggja þingmönnum nútímalega aðstöðu.

Við lok þinghaldsins vil ég þakka þingmönnum fyrir samstarfið á þessu þingi. Ég vil færa varaforsetum sérstakar þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins, svo og formönnum þingflokka fyrir gott samstarf á þessu þingi. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð og fyrir mikið og gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á húfi er Alþingi kemur saman í lok júnímánaðar.