Kristnihátíðarsjóður

Föstudaginn 30. júní 2000, kl. 14:05:30 (0)

2000-06-30 14:05:30# 125. lþ. 122.1 fundur 656. mál: #A Kristnihátíðarsjóður# þál. 27/125, GAK
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 125. lþ.

[14:05]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um að stofna sjóð í tilefni þess að þúsund ár eru liðin frá því að kristinn siður var lögtekinn. Sjóðurinn mun heita Kristnihátíðarsjóður og honum er í þáltill. ætlað tvíþætt hlutverk: Í fyrsta lagi að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og efla umræðu um lífsgildi hennar, siðferði og framtíð. Hins vegar er sjóðnum ætlað að kosta og efla fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum okkar.

Til þessara verkefna er lagt til að verði varið 100 millj. árlega í fimm ár. Ætlast er til að þetta fé sé til viðbótar við annað fé til þessara málaflokka og verði ekki til þess að dregið verði úr öðrum fjárveitingum til fornleifarannsókna eða trúmála.

Formenn þingflokka eru sammála um að leggja til að sú tillaga sem við ræðum nú verði til afgreiðslu á hátíðarfundinum á Þingvöllum sunnudaginn 2. júlí. Í almennri greinargerð segir m.a. um verkefni, með leyfi forseta:

,,Lögð er áhersla á að verkefni sjóðsins verði fjölþætt, þar geti komið að skólar, stofnanir, söfnuðir, félagasamtök og einstaklingar, og að þess verði gætt að verkefnin dreifist um allt land. Stefnt verði að því að a.m.k. önnur tveggja verkefnisstjórna hafi aðsetur á landsbyggðinni.

Það verður verkefni stjórnarnefndar að leggja meginlínur í þessu starfi, ákveða skiptingu hins árlega fjárframlags milli aðalverkefna sjóðsins, sbr. a- og b-lið tillögugreinarinnar, og skipa verkefnisstjórnir. Mikilvægt er að til þeirra starfa veljist hæfir einstaklingar sem hafi trausta þekkingu og reynslu en auk þess góð tengsl við helstu stofnanir og fræðahópa á sínu sviði. Verkefnisstjórnunum er ætlað að vera faglegur vettvangur, hvorri á sínu sviði, þar sem gerðar verða tillögur um styrkveitingar, ýmist að eigin frumkvæði þeirra, í samvinnu við stofnanir eða eftir almennum umsóknum. Stjórnarnefnd gengur loks endanlega frá ákvörðunum sjóðsins.``

Kristnitakan á Þingvöllum fyrir 1000 árum með friðsamlegum hætti var einstæður atburður. Það er við hæfi þegar Íslendingar minnast 1000 ára kristni í landinu að þeir hyggi að trúararfi sínum, sögu og siðferðismati, lífsgildum sínum og framtíðarsýn. Áhrif kristni á þjóðina er erfitt að meta en vonandi hefur hún verið til góðs. Kristinn arfur skiptir þjóðina miklu og er hluti af íslenskri þjóð, sjálfsmynd og lífsafstöðu. Þjóðin var oft fátæk og svöng við harðindi liðinna alda þó höfðingjar kæmust af og lifðu við nokkurt ríkidæmi á vinnuframlagi undirsáta sinna og vinnu fólks sem fékk laun sín í mat sem hélt því vinnufæru. Allt var það valdsmönnum og kirkju til auðs á fyrri tíð.

Herra forseti. Við þurfum að efla fræðslu og rannsóknir á trúar- og menningararfi og atvinnusögu þjóðarinnar því að sumt í fortíð okkar ber að varast. Sérstaklega að hér verði að nýju stéttskipt þjóðfélag fárra auðmanna sem eigi auðlindir lands og sjávar. Framtíð Íslands er fengin í hendur æskunni sem erfa mun landið. Því er afar mikilvægt að efla umræðu meðal unga fólksins um lífsgildi og siðferði þjóðarinnar í framtíðinni. Æska þessa lands þarf að hafa metnað til mennta og sjálfstæðis og áræði til að takast á við lífið.

Nýjar hættur steðja að og okkur ber að forða æsku landsins frá váboðum eiturlyfja svo sem framast er kostur.

Ísland er ekki ríkt land af fornum byggingum og okkur ber nauðsyn til að rannsaka og varðveita söguna. Það er vandasamt að umgangast fornminjar og landsins sögu. Vonandi verða þeir fjármunir, sem við hyggjumst nú leggja til rannsókna á sögu okkar vel nýttir, enda um viðbótarfé til fornleifarannsókna að ræða. Við eigum margar atvinnusögulegar minjar þó þær eignir teljist ekki enn þá forngripir. Við megum huga vel að því að varðveita sögu okkar frá þessari öld vegna þeirra öru breytinga sem 20. öldin færði okkur Íslendingum. Göngum vel um fornar minjar. Þær eru saga Íslands og mistök eða eyðing á sögulegum verðmætum verða ekki svo auðveldlega aftur tekin.