Ávarp forseta Alþingis

Sunnudaginn 02. júlí 2000, kl. 10:28:14 (0)

2000-07-02 10:28:14# 125. lþ. 123.91 fundur 563#B ávarp forseta Alþingis#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 125. lþ.

[10:28]

Forseti (Halldór Blöndal):

Fundur er settur í Alþingi. Ég býð ykkur velkomin á Þingvöll. Í dag minnumst við þess að þúsund ár eru liðin síðan það var ,,mælt í lögum at allir menn skyldi kristnir vesa ok skírn taka, þeir es áðr váru óskírðir á landi hér``. Það var einstæður atburður í þjóðarsögunni og átti sér nokkurn aðdraganda.

Mér verður litið niður á vellina og sé fyrir mér tvær fylkingar með alvæpni þar sem þær mætast. Er önnur heiðin og önnur kristin. Í fylkingunum standa vinir og frændur á víxl, hver andspænis öðrum og það er ógn í loftinu. Síðan gerist það að menn hverfa á braut við svo búið. Við vitum ekki hvers vegna nema að þeir voru ekki vígfúsir. Enginn greiddi fyrsta höggið. Kannski voru þeir of nákomnir, kannski var þeim í fersku minni af hverju afar þeirra og ömmur, langafar og langömmur settust hér að.

Síðan sögðust ,,hvárir ýr lögum við aðra, enir kristnu menn ok enir heiðnu ok gingu síðan frá lögbergi. Þá báðu enir kristnu menn Hall á Síðu, at hann skyldi lög þeira upp segja, þau es kristninni skyldu fylgja. En hann leystisk því undan við þá, at hann keypti at Þorgeiri lögsögumanni, at hann skyldi upp segja en hann vas þá enn þá heiðinn.

[10:30]

Svá hafa ok spakir menn sagt, at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt, svá at eigi væri meirr síðan.``

Alþingi var sett hér á Lögbergi árið 930 ,,at ráði allra landsmanna,`` að sögn Ara fróða. Fyrr höfðu menn ekki ein lög í landinu.

Hér stóð æðsti dómstóllinn og hér sagði fyrsti embættismaðurinn og eini embættismaðurinn, lögsögumaðurinn, upp lögin á þrem árum og skar úr lögmálsþrætum. Það var mikið afrek og til þess þurfti fórnir, málamiðlanir og vitsmuni heildarinnar að málefnum þjóðarinnar yrði svo skipað og nýtt ríki, þjóðveldi, sett á stofn. Þessi skipan tryggði frið í landinu, en Alþingi var líka í fyrirsvari út á við, svo sem í skiptum landsmanna við Noregskonungana Ólaf Tryggvason og Ólaf Haraldsson sem síðar var kallaður helgi. Í augum þeirra hefur þjóðveldið, land án konungs og hirðar, verið veraldarundur, sem þurfti að lagfæra.

Flestir landnámsmanna komu frá Noregi með heiðinn átrúnað og norskar réttarvenjur í farteskinu. En þeir voru líka margir sem höfðu farið vestur um haf og átt viðdvöl á bresku eyjunum, Suðureyjum eða Írlandi, þar sem þeir kynntust kristinni trú og tóku hana.

Íslenska bændasamfélagið bar því í öndverðu keim af samfélagi víkinga og kaupmanna. Menn öðluðust vit og þroska með því að fara víða og sækja heim önnur lönd. Slík reynsla kenndi þeim umburðarlyndi í trúmálum af því að þeir þóttust skilja að gifta mannsins er ekki undir átrúnaði hans komin. Þess vegna ríkti trúfrelsi hér á þjóðveldisöld þótt Íslendingar þekktu ekki skilgreininguna. Undir þann sáttmála gengust þeir við stofnun Alþingis. Goðorðaskipanin var ekki reist á trúarlegum grunni.

Fyrsta íslenska kristnin var írsk kristni og hún hefur verið lífseig, þótt kennimenn og kirkjur skorti. Svo verða þáttaskil um 980 með komu Friðreks biskups frá Saxlandi og nú hefst hér skipulegt trúboð. Hinum fyrstu trúboðum verður vel ágengt. Það sjáum við af þeim mönnum sem skírn tóku og nafngreindir eru. Það sjáum við líka af hinni knöppu frásögn Íslendingabókar af þingfundinum fyrir þúsund árum. Þar liggur margt ósagt á milli línanna.

Og þó segir: ,,En nú þykkir mér þat ráð,`` kvað Þorgeir Ljósvetningagoði, ,,at vér látim ok eigi þá ráða, es mest vilja í gegn gangask, ok miðlum svá mál á miðli þeira, at hvárirtveggju hafi nakkvat síns máls, ok höfum allir ein lög ok einn sið. Þat mon verða satt, es vér slítum í sundr lögin, at vér monum slíta ok friðinn.``

Hinir kristnu menn gátu vel við unað. Kristni var lögtekin og skyldu þeir skírn taka er áður voru óskírðir á landi hér. Þó skyldu menn blóta á laun, ef vildu. Með því var Íslendingum kippt inn í menningarheim Evrópu í einni svipan sem Norðurlandabúar höfðu staðið utan við þótt þeir væru víðförlir. Með því hófst gróskuríkasta skeið íslenskrar sögu. Menn lærðu að lesa og skrifa og sóttu þekkingu og þroska víðar en áður, til Saxlands og Parísar.

Hinn heiðni menningararfur ávaxtaðist í meðförum sagnaritara eins og Ara fróða og Snorra Sturlusonar og í klaustrunum. Aldrei hefur íslensk tunga verið betur skrifuð, skáldskapurinn aldrei verið dýpri. Í þennan brunn hafa Íslendingar sótt um aldir. Þess vegna erum við þjóð og höfum þjóðlegan metnað að við höfum varðveitt tungu okkar, eigum okkur sögu og sjálfstæða menningu. Það eigum við kirkju okkar og kristinni trú að þakka. Þrátt fyrir einlægan fögnuð kristinna manna hér á völlunum fyrir þúsund árum hefur gleðin verið blandin. Íhlutun erlends konungsvalds rak á eftir því að kristni yrði lögtekin. Kristniboðarnir Stefnir Þorgilsson og Þangbrandur voru kannski framar öðru erindrekar Ólafs konungs.

Kannski málamiðlunin, sem Þorgeir Ljósvetningagoði skírskotar til, hafi verið í því fólgin að hinir heiðnu menn sáu fram á að Íslendingar yrðu áfram konunglausir, áfram þjóðveldi, í staðinn fyrir að fá kristinn konung eins og Orkneyjar og Færeyjar urðu að sætta sig við. Þeirri hættu var bægt frá í bili.

Sagan kennir okkur frá fyrstu áratugum Íslandsbyggðar, þegar konungur sendi hingað Una danska, síðar þegar konungur sendi orð Guðmundi ríka að hann vildi þiggja Grímsey, sem þá var almenningur, til þessa dags að við eigum að vera á verði gagnvart erlendri íhlutun eða ásælni --- gegn áhuga erlendra konunga á landi okkar, í hvaða líki sem þeir birtast.

Enn berast hingað straumar frá Evrópu, flestir góðir, guði sé lof, og sumir varhugaverðir. Og enn þurfum við að hugsa okkar ráð. Það er eðlilegt, þar sem ég stend, að ég brýni sjálfan mig og brýni aðra með því að segja að 17. júní 1944 náði þjóðin ,,fullkomnu stjórnarfarslegu sjálfstæði og óskoruðum eignarrétti landsnytja allra á láði og legi íhlutunarlaust í eigin hendur``.

Kristnitakan fyrir þúsund árum, eins og hún fór fram, var gifta íslensku þjóðarinnar. Ég bið góðan guð að vaka yfir velferð hennar og landi okkar.

Guð blessi Ísland.