Kristnihátíðarsjóður

Sunnudaginn 02. júlí 2000, kl. 10:44:26 (0)

2000-07-02 10:44:26# 125. lþ. 123.1 fundur 656. mál: #A Kristnihátíðarsjóður# þál. 27/125, RG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 125. lþ.

[10:44]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Engum dylst að við lifum á miklum umbyltingartímum sem valda umróti í einkalífi fólks, atvinnuháttum og öllum samskiptum, þar sem nútíminn færir okkur margvíslega nýja tækni sem við hljótum að reyna að tileinka okkur til að bæta lífskjör og lífsskilyrði þjóðarinnar.

[10:45]

Við þessar aðstæður er það ein höfuðskylda stjórnvalda að leitast við að tryggja sem jafnasta möguleika allra þjóðfélagsþegna til að taka virkan þátt í þessum miklu breytingum og til að njóta þeirra lífsgæða sem nútíminn hefur upp á að bjóða. Hér ræður úrslitum að allir þjóðfélagsþegnar hafi öruggan aðgang að heilsugæslu og menntun og engir séu útilokaðir frá því að þroskast og hafa áhrif á gang mála eftir því sem hugur þeirra stendur til. Jafnrétti og lýðræði eru þær hugsjónir sem skipta mestu. Þess vegna er svo mikilvægt að þær séu lifandi í hugum okkar Íslendinga og að framtíðarsýn okkar beri merki þeirra. En það er alls ekki sjálfgefið að svo verði. Við núverandi aðstæður, þar sem endalaust er alið á samkeppni og allt lagt upp úr að koma sem mestu í framkvæmd á sem skemmstum tíma, er hættan sú að við Íslendingar verðum ráðvilltir og skeytum ekki um þau lífsgildi sem mestu skipta og sem jafnrétti og lýðræði er ætlað að standa vörð um. Við þessari hættu þarf að bregðast. Hér skiptir miklu afstaða stjórnvalda, stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna því ábyrgð þeirra er mikil. Þeim ber að tryggja sem best skilyrði þjóðarinnar til að ráða framtíð sinni og standa saman gagnvart áskorunum nútímans.

Samstaða formanna allra þingflokka um þá tillögu sem hér er borin fram er tákn um þá samstöðu sem þjóðin þarf að sýna til að geta tekist á við þau verkefni sem við henni blasa. Íslensk þjóð hefur sýnt það og sannað gegnum aldirnar að hún finnur sjálf lausnir á lífsvanda sínum þegar á reynir og hún hefur ávallt gert það með því að endurskapa menningu sína og vinna úr arfi genginna kynslóða.

Hinn kristni arfur þjóðarinnar skiptir hér miklu máli, hvort sem trúarsannfæring okkar er kristin eða ekki. Sjálf jafnréttishugsjónin er af kristnum toga spunnin því allar manneskjur eru óendanlega dýrmætar í augum Guðs samkvæmt hinni kristnu kenningu og eiga jafnan rétt til gæða lífsins. Kristur sjálfur var uppreisnarmaður gegn ranglæti og ójafnrétti sem einkenndi samtíma hans. Kjarninn í boðskap hans var sá að hver manneskja ætti að bera virðingu fyrir eigin persónu, eigin samvisku og dómgreind andspænis veraldlegum valdhöfum, hverju nafni sem þeir nefnast. Slík sjálfsvirðing er forsenda lýðræðis sem gerir þá kröfu til okkar allra að við hugsum um það sem betur má fara í samlífi okkar og leggjum okkar af mörkum til að bæta það. Á þeirri viðleitni hvílir framtíð okkar.

Sú tillaga sem hér er borin fram er liður í því að tryggja og auka líkurnar á því að ungir Íslendingar og komandi kynslóðir læri að horfast í augu við veruleikann, endurskapa menningu okkar með því að fræðast um arfleifð okkar, rannsaka hana og uppgötva þannig nýjar orkulindir til að skapa framtíðina, framtíð fyrir íslenska þjóð.