Kristnihátíðarsjóður

Sunnudaginn 02. júlí 2000, kl. 10:53:18 (0)

2000-07-02 10:53:18# 125. lþ. 123.1 fundur 656. mál: #A Kristnihátíðarsjóður# þál. 27/125, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 125. lþ.

[10:53]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Við komum nú saman á Lögbergi til að minnast atburða sem hér áttu sér stað fyrir réttum eitt þúsund árum. Kristnir menn og heiðnir höfðu sagt sig úr lögum hvorir við aðra. Ófriðlega horfði af þessum sökum og höfðu valdamenn í hótunum innan lands sem utan. Það var við þessar aðstæður að Þorgeir Ljósvetningagoði gerði tillögu um að Íslendingar skyldu búa við einn sið, kristinn sið, og ein lög enda var það hans mat að ella mundi friðurinn úti. Heiðnir menn gáfu samþykki sitt fyrir þessari skipan mála. Þá ákvörðun tóku þeir af hyggindum en voru þó jafnframt reiðubúnir að sýna umburðarlyndi.

Siður og lög. Umburðarlyndi og réttlæti. Trúarbrögð eða siður eins og þau voru nefnd til forna eiga að grundvallast á umburðarlyndi og lögin á réttlæti. Þorgeir Ljósvetningagoði var fulltrúi umburðarlyndis. Hann vildi að Íslendingar stæðu saman. Hann trúði þannig á framtíð þjóðarinnar og treysti á virðingu fyrir lögunum. Þetta er sú mynd sem sagnaritarar gefa af kristnitökunni og þeim mönnum sem þar komu helst við sögu. Sagnaritarar tólftu og þrettándu aldar, sem skrásettu þessa atburði, voru sprottnir upp úr kristnum jarðvegi og hver svo sem skýringin kann að vera á kristnitökunni þá var þetta sá arfur úr fortíðinni sem þeir vildu miðla til samtíðar sinnar og þeirra sem á eftir kæmu.

Okkur er flestum tamt að tala um umburðarlyndi en umburðarlyndi er lítils virði fram að þeim degi sem á það reynir. Og sá tími kann að vera að renna upp í landi okkar að á umburðarlyndið reyni jafnvel í enn ríkari mæli en fyrr. Í menningarlegum, trúarlegum og siðferðilegum efnum búa Íslendingar við meiri margbreytileika en áður og er mikilvægt að stuðla að umræðu sem eflir skilning á mismunandi menningu og lífsháttum. Að þessu viljum við vinna með þeirri þingsályktunartillögu sem hér verður borin undir atkvæði. Við viljum enn fremur efna til umræðu um siðferðileg gildi svo við verðum betur í stakk búin að takast á við krefjandi spurningar og álitamál sem við stöndum frammi fyrir í hraðfara heimi.

En hvers virði er það fyrir Íslendinga að vera þjóð, þjóð sem á sér sögu, menningu og tungu? Það má spyrja á annan hátt: Hvers virði er það okkur að virkja þá krafta sem búa í samstöðunni og samvinnu um það sem gott er og til framfara horfir? Þeim samfélögum hefur vegnað best sem tekst að leysa úr læðingi þá krafta sem búa með hverjum og einum og við þekkjum það úr sögu okkar að þegar við leggjumst öll á árarnar áorkum við langt umfram það sem við gerum sundruð. En forsenda þess að menn leggist sameinaðir á árarnar er vissan fyrir því að við séum á sama báti, búum við sanngjörn skipti í þjóðfélagi jafnaðar og réttlætis. Hitt skyldum við einnig hafa í huga þegar við göngum til samstarfs við aðrar þjóðir --- og því fleiri sem þær eru því betra --- þá má það aldrei henda okkur að hætta að treysta á okkur sjálf. Ef við gerum okkur ánægð að vera knúin áfram með erlendu skipunarvaldi, jafnvel til góðra verka, þá mun fyrr en varir halla undan fæti fyrir Íslendingum því sá maður sem gleðst yfir því að vera barinn til hlýðni endar sem þræll.

Með því að leggja rækt við íslenska menningu og tungu eflum við með okkur kraft og frumkvæði og viðhöldum því sjálfstrausti sem hverri sjálfstæðri þjóð er lífsnauðsynlegt. Með því að styrkja menningu okkar leggjum við okkar af mörkum til að gera heiminn að margbreytilegri og skemmtilegri íverustað.

Með þeirri þjóðargjöf sem við sameinumst nú um mun gefast kostur á því að fræðast um fortíðina, kallast á við liðinn tíma, draga lærdóma af því sem á undan er gengið og byggja á því besta úr íslenskum þjóðararfi til sóknar inn í nýjan tíma.