Kristnihátíðarsjóður

Sunnudaginn 02. júlí 2000, kl. 10:58:16 (0)

2000-07-02 10:58:16# 125. lþ. 123.1 fundur 656. mál: #A Kristnihátíðarsjóður# þál. 27/125, GAK
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 125. lþ.

[10:58]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Forseti Íslands, góðir Íslendingar og erlendir gestir. Við komum nú saman á Þingvöllum til þess að minnast þess að þúsund ár eru liðin frá því að kristinn siður var lögtekinn á Íslandi. Á þessum tímamótum vil ég víkja að því hvernig ég lít til þeirra atburða sem við minnumst nú.

Ég lít svo á að þeir sem trúðu á hinn gamla sið, ásatrúna, hafi fyrir þúsund árum, er þeir meðtóku kristni, sýnt í verki sáttfýsi og skilning til þess að forða landslýð frá miklum innanlandsátökum og mannvígum. Það voru þeir heiðnu sem höfðu þennan skilning og skynsemi til að bera. Það voru hins vegar þeir kristnu sem höfðu í hótunum og tóku menn í gíslingu ef eigi ætti eftir að ganga þeirra vilji.

Þó hér á landi hafi fyrir skynsemis sakir þeirra sem heiðnir kölluðust verið tekin upp kristin trú var vissulega hefð fyrir átökum við boðun kristinnar trúar með öðrum þjóðum. Við eigum því ásatrúarmönnum fyrri alda margt að þakka og eigum sem kristnir menn að umgangast þá og aðra sem aðra sannfæringu hafa í trú sinni af virðingu og skilningi þeirra sem vel máttu læra á þúsund árum. Það er við hæfi þegar Íslendingar minnast þúsund ára kristni í landinu að þeir hyggi að trúararfi sínum, sögu, siðferðismati, lífsgildum sínum og framtíðarsýn.

[11:00]

Áhrif kristni á þjóðina er erfitt að meta en hún hefur vafalaust verið til góðs. Kristinn arfur skiptir þjóðina miklu og er samofinn íslensku þjóðerni, sjálfsmynd og lífsafstöðu. Þjóðin var oft fátæk og svöng við harðindi liðinna alda þó að höfðingjar kæmust vel af og lifðu við nokkurt ríkidæmi á vinnuframlagi undirsáta sinna og vinnufólks.

Vel má að fortíð hyggja þegar framtíð skal byggja. Saga okkar á þessari öld þar sem við komumst loks til þess að afla tekna sem frjálsbornir menn sýnir svo ekki verður um villst að þá fyrst komst þjóðin til bjargálna þegar dugnaður einstaklinganna fékk notið sín. Lengi á síðustu öld hélt vistarbandið okkur enn þá í fjötrum fárra. Það er í raun furðulegt að nú á nýju árþúsundi undir aldamót skuli vera til ný stétt sem við köllum leiguliða. Þeir greiða í dag afnotagjald til fárra fyrir atvinnu- og aflarétt ef þeir fá að halda til fiskveiða, sem var sú atvinna þar sem frjálsbornir menn fyrr á þessari öld rifu þjóðina úr fjötrum fátæktar til bjargálna. Umbylting til hagsældar á þessari öld var borin uppi af íslenskum sjómönnum en öldin endar með miklum höftum á atvinnufrelsi þeirra. Forsendum byggðar í landinu er raskað og fólk í sjávarbyggðum er óöruggt um framtíð sína og atvinnu.

Við þurfum að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi ásamt atvinnusögu þjóðarinnar því sumt í fortíð okkar ber okkur að varast, sérstaklega að hér verði að nýju stéttskipt þjóðfélag fárra auðmanna sem eigi auðlindir lands og sjávar.

Framtíð Íslands er fengin í hendur æskunni sem erfa mun land. Því er afar mikilvægt að efla umræðu meðal unga fólksins um lífsgildi og siðferði þjóðarinnar í framtíðinni. Æska þessa lands þarf að hafa metnað til að mennta og sjálfstæði og áræði til að takast á við lífið. Það steðja nýjar hættur að og okkur ber að forða æsku landsins frá váboðum eiturlyfja svo sem framast er kostur. Ísland er ekki ríkt land af fornum byggingum og okkur ber nauðsyn til að rannsaka og varðveita söguna.

Það er vandasamt að umgangast fornminjar landsins og sögu. Vonandi verða þeir fjármunir sem við nú hyggjumst leggja fram til rannsókna á sögu okkar vel nýttir, enda um viðbótarfé til fornleifarannsókna að ræða. Við eigum margar atvinnusögulegar minjar þó að þær eignir teljist ekki enn þá forngripir. Við megum huga vel að því að varðveita sögu okkar frá þessari öld vegna þeirra öru breytinga sem 20. öldin færði okkur Íslendingum. Göngum vel um fornar minjar, þær eru saga Íslands.

Í guðs friði.