Forseti Íslands setur þingið

Föstudaginn 01. október 1999, kl. 14:11:28 (1)

1999-10-01 14:11:28# 125. lþ. 0.93 fundur 25#B forseti Íslands setur þingið#, Forseti Íslands f.Ísl.
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 7. september 1999 var gefið út svofellt bréf:

,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman föstudaginn 1. október 1999, kl. 13.30.

Um leið og ég birti þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett í Alþingishúsinu.

Gjört í Reykjavík, 7. september 1999.

Ólafur Ragnar Grímsson.

-------------------

Davíð Oddsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman föstudaginn 1. október 1999.``

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir því að Alþingi Íslendinga er sett.

Við upphaf hvers þings blasa við verkefnin mörg og margbreytileg, mismunandi að mikilvægi og umfangi. Sum snerta vanda líðandi stundar. Önnur munu móta samfélag og þjóðlíf um langa framtíð, marka stefnu inn í nýja öld.

Oft vill það gleymast í dagsins önn og orrahríðum hér í þingsalnum að Alþingi er í senn kjarni þess lýðræðis sem við höfum kosið og kjölfesta í þjóðvitund Íslendinga frá upphafi byggðar til okkar tíma; einstök stofnun og lýsandi fordæmi meðal þjóða heims, ekki síst þeim nágrönnum okkar sem undanfarið hafa brotist undan hrammi kúgunar til frelsis.

Kyrrlát stund í þögninni á Þingvöllum með þjóðhöfðingjum ríkjanna sem njóta nú loks sjálfstæðis og lýðræðis er eftirminnileg; einlæg og djúp virðingin sem þeir tjá íslenskri þjóð og langri sögu hennar líkist helst þakkargjörð í helgum kirkjum.

Á ferð um austfirskar byggðir skömmu eftir að forseti Eistlands kom hingað í þingsalinn til að þakka Alþingi stuðning á örlagatímum í sjálfstæðisbaráttu þjóðar sinnar var ég hvað eftir annað minntur á það hve áhrifa Alþingis gætir víða á vöxt og viðgang heimabyggða, hve djúp spor ákvarðanir og atkvæðagreiðslur í þessum sal marka á daglegt líf og framtíðarsýn fólks til sjávar og sveita.

Alþingi skipar ekki aðeins öndvegi í stjórnskipan okkar og sögu í þúsund ár. Alþingi er og verður örlagavaldur á öllum sviðum mannlífsins í breiðum byggðum landsins, setur mark á lífshætti og búsetu, framfarir og sóknarfæri með þeim lagaramma sem hér er smíðaður og hér breytt.

[14:15]

Þegar skimað er um aldalanga sögu þings og þjóðar er það í senn fróðlegt og umhugsunarvert að á stundum hafa náð flugi kenningar um áhrifavalda sem væru Alþingi æðri og hefur jafnvel verið reynt að setja þinginu skorður með tilvísan til mikilvægis þeirra og stöðu. En tíminn hefur leikið þessar kenningar grátt og lífsmáttur þess lýðræðis sem Alþingi er helgað jafnan borið hærri hlut úr sérhverri tilraun til að haga hlutföllum valds og áhrifa á annan veg.

Fyrr á öldum var konungsvaldið talið þinginu fremra, jafnvel umvafið náð æðri máttarvalda. Embættisvaldið var um skeið mótvægi og varnarmúr þegar Alþingi sótti fram til sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar. Síðan komu tímar þegar tilvísanir í stéttarvald af ýmsum toga var talið upphefja réttinn til að lúta lögmálum sem Alþingi ákvað hverju sinni.

Þótt nú sé önnur tíð og altækar kenningar af þessum toga ekki í tísku ber samt nokkuð á því að hallað sé á Alþingi með því að hefja hlutverk framkvæmdarvaldsins og reyndar einnig markaðarins í æðra veldi --- sagt að leikreglur nútímans skipi Alþingi á hliðarlínu á leikvelli áhrifa og valds.

Þá gleymist það oft að uppspretta þess umboðs sem framkvæmdarvaldið fær er hjá Alþingi einu, þingheimi sem fólkið í landinu hefur falið trúnað um tiltekinn tíma í anda þess lýðræðis sem er aðal íslenskrar stjórnskipunar. Hvorki flokksagi né forustuvald getur fært framkvæmdarvaldinu þá ábyrgð sem Alþingi ber. Né er hægt að afsaka ástand eða erfiðleika með því að ætla markaðinum hlutverk og valdsvið sem í okkar lýðræðisskipan á heima í höndum Alþingis.

Afnám hafta og ofstjórnar ríkis og embættisstofnana hefur vissulega gefið frjálsum markaði, samspili framleiðslu og viðskipta, neytenda og frumkvöðla, almennings og atvinnulífs tækifæri til að bæta lífskjör og treysta efnahag og verður svo vonandi enn um langa framtíð. En hættumerki eru samt í því fólgin þegar markaði eru falin hlutverk sem samkvæmt hefðum og anda lýðræðisins eiga heima í höndum þingheims alls.

Sú er kannski þrautin þyngst á okkar tímum að finna sambúð lýðræðis og markaðar þann farsæla farveg sem best fellur að sögu Íslendinga og menningu, samfélagsgerð og lífsháttum. Í þeim efnum getur reynsla annarra þjóða aldrei fært okkur töfralausnir heldur verður þjóðin sjálf á hverjum tíma að vega og meta valkostina, velja þá leið sem greiðust virðist og helst vísar til bættra lífskjara og aukinna sóknarfæra án þess að þráðurinn sem tengir okkur við fortíðina slitni. Alþingi hvorki má né getur skorast undan því að leiða þá umræðu til lykta.

Þegar treysta skal undirstöður farsællar framtíðar í sveitum og þorpum, kaupstöðum og borg, dugir ekki að skjóta ábyrgð frá háborði lýðræðisins í þessum sal til hins kvika og á stundum óræða leiks á torgi markaðarins. Þá er hætta á að rætur slitni og margt af því sem gert hefur okkur að þjóð hverfi í iðukasti breytinga og stundarhags.

Samvitund okkar Íslendinga og samstaða byggir ekki hvað síst á sterkum tengslum við heimahagana um landið allt, í sveit og í fjallasal, sjávarþorpi og kauptúni. Þar eru slóðir fornsagna og kvæða, einstæðra bókmennta sem hleyptu þrótti í sjálfstæðisbaráttuna og voru frumherjum hennar fyrirmynd að endurreisn íslenskrar tungu. Þar gengu um grundir skáld og listamenn sem náðu eyrum annarra þjóða en gleymdu aldrei uppruna sínum og gerðu bernskuslóðir ódauðlegar í heimslist sinni. Þar eru táknstaðir, bæir og byggðir þeirra atburða og örlaga sem við vísum jafnan til þegar útskýra þarf vegferð okkar og vilja. Þar er nábýlið við perlur íslenskrar náttúru lykillinn að fegurðinni sem þjóðinni er svo kær. Þar öðlast mannlífið það hljómfall sem í fjölbreytileika sínum færir okkur sífellt endurnýjun.

Örlög byggðanna í landinu mega aldrei ráðast á þann hátt að hagnaður og hagræðing séu einu lóðin á vogarskálum. Varðveisla byggðanna er verkefni þess lýðræðislega valds sem þjóðin hefur falið Alþingi, þeirri stofnun sem öllum öðrum fremur er samnefnari sögu okkar og sjálfstæðis. Slíkur er vilji fólksins sem mér hefur heilsað í heimahögum og djúp ást á landinu, ósk um að geta áfram ræktað fagurt mannlíf og blómlegt í góðri sátt við náttúru og umhverfi. Hann verður mér ætíð minnisstæður boðskapurinn sem ung stúlka flutti mér eystra fyrir hönd jafningja sinna, að framtíð byggðanna væri, ásamt hollu líferni og baráttu gegn fíkniefnum, brýnasta viðfangsefni okkar tíðar.

Þingið sem nú er hafið getur því vissulega gengið til starfa í trausti þess að kynslóðin sem landið erfir mun meta verk þess að verðleikum en jafnframt vera reiðubúin að veita það aðhald sem lýðræðið gerir ráð fyrir.

Viðfangsefnin sem til úrlausnar eru hafa jafnan endurspeglað vanda hverrar tíðar en Íslendingar hafa ætíð treyst því að Alþingi rísi með sóma undir sinni ábyrgð, að hér sé ávallt vilji til að gæta þess fjársjóðs sem gert hefur Íslendinga að þjóð.

Ég bið alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]