Ávarp forseta

Föstudaginn 01. október 1999, kl. 16:07:08 (8)

1999-10-01 16:07:08# 125. lþ. 1.95 fundur 27#B ávarp forseta#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 1. fundur, 125. lþ.

[16:07]

Forseti (Halldór Blöndal):

Háttvirtir alþingismenn. Ég þakka hæstv. starfsaldursforseta, Páli Péturssyni, hlý orð í minn garð. Ég þakka hv. alþingismönnum það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að kjósa mig forseta Alþingis á ný. Ég met það traust mikils.

Það styttist í að við höldum inn í nýja öld og brátt hefst nýtt árþúsund. Við þau tímamót hlýtur það að vera okkur nokkurt umhugsunarefni hvernig við viljum að Alþingi hagi störfum sínum. Upplýsingatæknin verður óhjákvæmilega eitt af táknum hinnar nýju aldar. Sem fyrrv. ráðherra fjarskiptamála er mér umhugað um að Alþingi setji sér það mark að vera áfram í fararbroddi þeirra sem nýta sér til fulls upplýsingatæknina.

En það er fleira sem við þurfum að huga að við þessi tímamót. Skipulag þinghaldsins hefur um langt skeið verið í föstum skorðum en ný viðhorf og breyttir þjóðfélagshættir kalla á ýmsar breytingar á starfsháttum þingsins. Slíkar breytingar verða að taka mið af því að þingmenn þurfa að hafa betri tíma til að sinna samskiptum við umbjóðendur sína, ekki síst í ljósi þess að landsbyggðarkjördæmi munu stækka verulega á þessu kjörtímabili.

Þá verður ekki horft fram hjá því að alþjóðavæðingin er farin að hafa veruleg áhrif á starfsemi Alþingis m.a. með því að þingmenn taka æ meiri þátt í alþjóðlegu þingmanna\-starfi. Óhjákvæmilegt er að meira tillit verði tekið til þeirrar þátttöku í skipulagi þinghaldsins. Í forsætisnefnd Alþingis hafa því verið ræddar hugmyndir um róttækar breytingar á þinghaldinu sem m.a. felast í að þingstörfin gangi fyrir sig í lotum þar sem skiptast á þingfundavikur, nefndavikur og kjördæmavikur eftir nánari útfærslu. Ég vænti þess að þingmenn skoði þessar hugmyndir með opnum huga þegar þær koma til umfjöllunar í þingflokkum.

Eins og jafnan áður hafa húsnæðismál Alþingis verið fyrirferðarmikil á fundum forsætisnefndar. Þar er fyrst að nefna að forsætisnefnd hefur í sumar unnið að því að leita að hentugu húsnæði við Austurvöll fyrir starfsemi þingsins og vænti ég þess að það mál skýrist fljótlega. Ekki er síður mikilvægt að tryggja betri starfsaðstöðu fyrir fastanefndir og starfslið þeirra. Nefndirnar hafa lengi búið við óviðunandi fundaaðstöðu sem gerir þeim oft erfitt að sinna störfum sínum, t.d. þegar kalla þarf fjölda gesta á fund þeirra.

Þá hefur í sumar verið unnið af fullum krafti við byggingu skálans og er nú verið að steypa upp kjallara hans. Gert er ráð fyrir að því verki ljúki um miðjan þennan mánuð. Vegna þeirrar þenslu sem er í efnahagslífinu um þessar mundir er hins vegar nauðsynlegt að hægja á ýmsum opinberum framkvæmdum hér við Faxaflóa, þar með töldum framkvæmdum við skálann.

Í seinustu viku átti ég þess kost að heimsækja Manitoba-fylki í Kanada í boði fylkisstjórnarinnar og fór þá um þær byggðir þar sem Íslendingar námu land í Vesturheimi. Ég varð hvarvetna var við mikinn hlýhug til Íslands og áhuga á að hlúa að þeirri menningararfleifð sem tengir íbúa fylkisins við Ísland. Í reynd er það svo að í Manitoba er stærsta samfélag fólks af íslenskum uppruna utan Íslands. Ég tel að samskipti okkar við afkomendur íslenskra landnema í Kanada séu mjög mikilvæg fyrir okkur, ekki aðeins vegna þess að landnámið er hluti af sögu okkar heldur skapa Íslendingabyggðirnar góðan grundvöll fyrir auknum menningarlegum og viðskiptalegum samskiptum okkar á milli.

Ég vil geta þess sérstaklega að um þessar mundir stendur yfir fjársöfnun fyrir íslenskudeild háskólans í Manitoba og Íslandsdeild bókasafns skólans. Því er ekki að leyna að kennsla í íslensku við háskólann og rekstur bókasafnsins á í vök að verjast. Það er því mikilvægt að það fólk sem vill halda uppi þessum menningartengslum geti reitt sig á stuðning okkar Íslendinga.

Komið er að því að Alþingi, íslensk stjórnvöld og einkaaðilar taki höndum saman um að leggja nokkuð af mörkum til að styðja við bakið á íslenskudeildinni og bókasafninu. Ég vona að sá stuðningur dugi til þess að íslensk tunga og bókmenntir skipi áfram veglegan sess við háskóla í Vesturheimi.

Ég vil geta þess rétt til gamans að í Gimli hittum við gamlan heiðursmann, öðlingsmann, Stefán Stefánsson, og það fyrsta sem hann sagði þegar hann sá okkur var, um leið og hann sneri sér að einum okkar: ,,Hvað hefur þú fyrir stafni?`` Þetta er tungutak sem maður heyrir ekki allt of oft hér heima og vantaði einungis upp á að hann bætti við: ,,lagsmaður``.

Það þing sem nú er að hefjast er að því leyti sögulegt að það mun koma saman til sérstaks hátíðarfundar á Þingvöllum 2. júlí árið 2000 þegar landsmenn fagna því að þúsund ár eru liðin síðan Alþingi samþykkti að kristni skyldi lögtekin á Íslandi. Ég vil jafnframt skýra frá því að í byrjun næsta árs mun koma út viðamikið rit um sögu kristni á Íslandi. Verk þetta er framlag Alþingis til minningarhátíðar um kristnitökuna. Það er unnið í samræmi við samþykkt Alþingis frá 26. mars 1990. Kristnisagan mun vera eitt umfangsmesta ritverk sem gefið hefur verið út hér á landi í einu lagi. Það verður í fjórum bindum og hvert bindi verður um 400 blaðsíður að lengd. Alls hafa 15 fræðimenn unnið að ritun þess. Ég tel að Alþingi sé mikill sómi að útgáfu þessa verks.

Þá vil ég greina frá því að forsætisnefnd Alþingis hefur ákveðið að verða við þeirri ósk framkvæmdanefndar ráðstefnunnar Konur og lýðræði að gefa nokkrum konum frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi kost á að kynna sér störf Alþingis og þá lýðræðishefð sem íslensk stjórnmál byggjast á. Það er mikilvægt að Ísland leggi sitt af mörkum til að styðja þá lýðræðisþróun sem er í austurhluta álfunnar.

Eitt þeirra verkefna sem bíður þessa haustþings er að kjósa nýjan umboðsmann Alþingis en dr. Gaukur Jörundsson mun láta af störfum um næstu áramót. Dr. Gaukur hefur verið í leyfi frá störfum í rúmlega ár þar sem hann var kjörinn til setu í mannréttindadómstól Evrópu 1. október á sl. ári. Það var mikill fengur fyrir Alþingi að dr. Gaukur skyldi taka að sér starf umboðsmanns Alþingis þegar embættið var stofnað 1987. Hann hefur mótað starfsemina af einurð og festu og árangurinn af farsælu starfi hans hefur skilað sér í vandaðri vinnubrögðum í stjórnsýslunni og bættum rétti borgaranna.

Ég vil nota þetta tækifæri til að færa dr. Gauki sérstakar þakkir fyrir mikilvæg störf í þágu Alþingis og það brautryðjendastarf sem hann hefur unnið sem fyrsti umboðsmaður Alþingis.

Ég vil endurtaka þakkir mínar til þingheims fyrir að trúa mér fyrir forsetaembættinu. Ég vona að mér takist að eiga gott samstarf við hv. þingmenn.