Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 1999, kl. 21:16:29 (17)

1999-10-04 21:16:29# 125. lþ. 2.1 fundur 28#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, SvH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 125. lþ.

[21:16]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þau voru ekki margbrotin, kosningaloforðin, sem formaður Sjálfstfl. gaf fyrir kosningarnar á liðnu vori. Raunar aðeins tvenns konar er hönd varð á fest.

Í fyrsta lagi lofaði hann áframhaldandi margrómuðum stöðugleika í fjármálum og efnahagsmálum. Og í öðru lagi að vinna að sem víðtækastri sátt í fiskveiðistjórnarmálum. En það kvað fljótlega við annan tón. Kosningar á liðnu vori voru ekki fyrr um götur gengnar en umræður um óstöðugleikann hófust. Og nú segir forsrh. í stefnuræðu sinni orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er meiri undirliggjandi verðbólga en við teljum viðunandi til lengri tíma.``

Og enn segir hann:

,,Við vitum að undirrót hinnar eiginlegu verðþenslu er að hraðinn á efnahagslífinu er meiri en hollt er til lengdar.``

Það er mjög mikilvægt að stjórnvöldum skuli vera ljóst hversu staðan í efnahagsmálum er alvarleg. Það er einnig mjög mikilvægt að stjórnarherrarnir skuli játa hvernig komið er. Það er forsenda þess að brugðist verði við vandanum með viðeigandi aðgerðum.

Það er orðalagið um hina miklu ,,undirliggjandi`` verðbólgu, eins og forsrh. orðaði það, sem þeim sem hér talar hrýs hugur við.

Mjög mikill árangur hefur náðst og framfarir orðið skjótar á mörgum sviðum þjóðlífsins. Nái verðbólga hins vegar skriði á Íslandi í líkingu við það sem þekktist lengstum á lýðveldistímanum er hætt við að í mörgu falli verði sá ávinningur unninn fyrir gýg. Rekstur fyrirtækja riðlast og við ekkert verður ráðið í fjármálum og markaðsmálum. Og skarðastan hlut frá borði mun hinn almenni launþegi bera. Við munum brotlenda, eins og forsrh. minntist á að við hefðum reynslu fyrir frá fyrri tíð.

Þess sér hvergi stað í fjárlagafrv. eða öðrum áætlunum að tekið sé tillit til þess að í hönd fara kjarasamningar á vinnumarkaði. Engu skal um það spáð í hvern stað þeir koma niður, en ýmsar blikur eru á lofti. Eða halda menn kannski að hækkun launa alþingismanna um 30% daginn eftir kosningarnar á liðnu vori muni ekki verða fyrirmynd neinna í launþegahreyfingunni?

Það er fjarri lagi að hagvöxtur næstliðinna ára hafi skilað sér í buddu fólksins í landinu, eins og forsrh. vill vera láta. Það er til skammar hversu lítið hinir verst settu hafa borið úr býtum, öryrkjar, sjúkir og aldraðir. Þeir hafa orðið að láta sér nægja reykinn af réttunum. Viðbótaratvinnutekjur lífeyrisþega lenda oft í allt að 80% jaðarskatti vegna tekjutenginga.

Við svo búið mega málin ekki standa. Á verðbólgutímum, eins og nú, eru að vísu ekki tök á almennum skattalækkunum þótt skattpíningin sé allt of mikil. En það verður þegar í stað að finna ráð til að rjúfa vítahring tekjutenginga vegna hinna verst settu, enda hafa stjórnmálamenn upp til hópa lofað bót og betrun í því efni.

Þegar litið er yfir sviðið og á hina ógnvænlegu verðþenslu og þeirra tilefna sem búið er að gefa til launasprenginga á vinnumarkaði verður ekki vikist undan þeirri köldu staðreynd að hrollvekja er fram undan í þjóðarbúskapnum.

Frjálslyndi flokkurinn er reiðubúinn til að ljá fylgi sitt öllum tiltækum ráðum til að sporna gegn þessari háskalegu þróun öðrum en þeim ráðum sem bitna á þeim sem minna mega sín því þeirra kjör þarf að bæta.

Og er þá komið að hinu kosningaloforði forsrh. og formanns Sjálfstfl.: Að vinna að sem víðtækastri sátt í fiskveiðistjórnarmálum.

Að vísu fylgdu þessu skammrifi bögglar frá upphafi, sem sé þeir, að sáttin mátti ekki raska hagkvæmni og stöðugleika í greininni, eins og það er orðað, og í öðru lagi að ekki yrði um að tefla grundvallarbreytingar á fiskveiðikerfinu.

Þótt þessir fyrirvarar blöstu við og virtust gera sáttatalið að einskisverðri kosningabrellu kusu fjölmiðlar að skilja sáttayfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna á þann veg að viðhlítandi breytingar yrðu gerðar á kerfinu. Og með þeim hætti var þessu lífshagsmunamáli byggðanna í landinu að mestu skotið undan dómi kjósenda.

En það er enn sama hljóð í strokknum. Nýskipaðri sáttanefnd er sett það fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar að fiskveiðistjórnarkerfinu verði ekki breytt í grundvallaratriðum. Það er að svo komnu eina heimanfylgja nefndarinnar.

Þessi stefna verður ekki misskilin. Það verða hins vegar aldrei sættir um neitt nema gerbyltingu á því kerfi sem nú er við lýði og leitt hefur og leiða mun þjóðina með vaxandi hraða til meiri ófarnaðar en orð fá lýst, sem leiðir til svívirðilegri eignatilfærslu á örfárra manna hendur en dæmi eru til um. Og nú eru þeir, sem stjórnvöld eru að mylja lungann úr þjóðarauðnum undir, sjávarauðlindina, að kaupa upp aðrar reytur landsmanna, fjármálastofnanir og annað sem óseðjandi hugurinn girnist.

Allt frá því að einkavæðing fjármálafyrirtækja ríkisins kom fyrst á dagskrá hamraði ríkisstjórnin á því að eignarhald þeirra yrði dreift. Það var forsenda einkavæðingar bankanna sem ella hefði ekki verið tekin í mál.

Það var því að vonum að forsrh. yrði mikið um þegar hann stóð skyndilega frammi fyrir því að eindreginni stefnumótun ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild virtist varpað fyrir ofurborð við sölu á FBA. Kannski varð honum þeim mun meira um þar sem þar hjó einkum sá innan ríkisstjórnar er hlífa skyldi.

Og forsrh. skundaði til Hóla og hélt þar messu yfir mafíósum þeim og eiturlyfjabarónum íslenskum sem hann jafnaði til þeirra sem nú gera garðinn frægan í Rússíá. Ef menn halda að það hafi verið tilviljun að hann fór í samjöfnuð við rússnesku mafíuna er það áreiðanlega misskilningur.

Í Rússlandi henti það, eftir 75 ára ráðstjórn, að Bandaríkjamenn buðu þeim austur þar upp á kapítalisma. En kapítalisma þarf að skorða af með lögum og reglum, skráðum sem óskráðum, annars fer í verra. Slíkar reglur voru ekki til í Rússlandi. Þess vegna leiddi hið nýja skipulagslausa frjálsræði til þess að hinir sterkustu báru hinn efra skjöld, mafíósarnir, sem nú blóðmjólka rússneskt þjóðfélag.

Á Íslandi birtist kapítalisminn í líki hinnar svonefndu nýfrjálshyggju, sem Sjálfstfl. gengur undir. Hér á landi eru heldur ekki til reglur til að skorða þá auðvaldsstefnu af og því er íslenska mafían komin á kreik að neyta aflsmunar í skjóli þess auðs sem henni hefur verið færður í hendur gefins.

En sá sem hér stendur á sér enn von. Hann trúir því ekki enn að Davíð Oddsson ætli að láta skrá nafn sitt á spjöld sögunnar sem sá sem afhenti fáeinum gripdeildarmönnum Ísland til eignar og ábúðar. Hámessan á Hólum bendir til þess að augu hans séu að opnast.

Í Morgunblaðinu fimmtudaginn 23. september sl. var viðtal við forsrh. þar sem söluna á FBA bar sérstaklega á góma. Hann segir þar að eins og sakir standa komi ekki til álita að hafa áhrif á hvernig eignaraðild að FBA sé háttað með lagasetningu. Hins vegar teldi hann að athuga ætti slíka hluti, enda hefði komið á daginn að mjög víða væru reglur í gildi, öfugt við það sem ýmsir hefðu fullyrt.

Hér er tilvitnun í Morgunblaðsviðtalið, með leyfi hæstv. forseta:

,,Og það er ekki bara svo að þær séu víða í gildi, heldur eru þær í raun virtar annars staðar þótt þær séu óskráðar,`` sagði hann. ,,Því miður er okkar fjármálakerfi svo vanþroskað að við þurfum kannski í byrjun á skráðum reglum að halda á meðan hinar óskráðu eru ekki byrjaðar að virka eins og verður vonandi þegar markaðurinn þroskast.``

,,Í fyrsta lagi þurfum við að huga að stöðu Fjármálaeftirlitsins,`` sagði hann. ,,Staða þess virðist vera afskaplega veik. Það hefur enn ekki fengið þennan leynisamning [Kaupþings og Orca SA]. Aðilarnir virða eftirlitið að vettugi. Fjármálaeftirlitið þarf að vera þannig að það veki ekki falskar vonir neytenda og viðskiptavina.``

Hann heldur áfram:

,,Ég tel að það komi til greina að styrkja stöðu þess. Síðan eigum við auðvitað að skoða í framhaldinu og ræða það hvort unnt yrði að koma á þeim reglum, sem sátt yrði um og tryggðu að við lentum ekki í þessu aftur.``

Ég þykist þekkja mitt heimafólk frá fyrri tíð. Ég er þess fullviss að þarna er Davíð Oddsson að tilkynna að hann ætli sér að koma á þeim reglum sem girða fyrir að gróðafíklar sölsi undir sig undirstöður íslensks fjármálalífs.

Það er því of snemmt fyrir mafíósana og umboðsmenn þeirra að hrósa sigri. En þar til þær reglur hafa verið lögbundnar er einsýnt að fresta allri frekari einkavæðingu ríkisbankanna, enda hlýtur reynslan af FBA-málinu að hafa fært forsrh. heim sanninn um að æðstu yfirstjórn bankamála er ekki treystandi fyrir framhaldinu.

En forsrh. þarf að vinna fleira. Hann nær ekki að stöðva mafíuna nema hann umbylti þegar í stað því fiskveiðistjórnarkerfi sem er að sporðreisa þjóðfélag okkar. Sægreifarnir bera nú saman bækur sínar opinberlega um það hvort fyrirtæki í útgerð á Íslandi verði innan tíðar tvö, fimm eða sjö. Það er kenning frjálshyggjunnar að hagkvæmast sé að lénsherrarnir séu sem fæstir.

Meðan skorið er á lífæðar sjávarþorpanna og þeim blæðir út tala stjórnarherrarnir tungum um ný atvinnufæri þeim til handa. Síbylja áróðurs LÍÚ-klíkunnar dynur á eyrum þjóðarinnar þar sem öllu er hallað til og logið víða frá. Í nafni hagræðingar er fiskveiðistjórnarkerfið lofað og prísað, mesta sóunarkerfi sem upp hefur verið fundið í einni atvinnugrein vegna gengdarlauss brottkasts afla, í óhugnanlegum tölum talið af gerkunnugum mönnum. Aðalatvinnugrein Íslands, sjávarútvegurinn, sem er undirstaða þeirrar framfarabyltingar sem við höfum upplifað á örfáum áratugum, er nú lokuð atvinnugrein og harðlæst.

Það voru ungir athafna- og aflamenn sem voru frumkvöðlar þeirrar byltingar. Nú komast þeir ekki lengur að og engin endurnýjun verður í greininni. Og þessu vill stjórnmálaflokkur sem eitt sinn kenndi sig aðallega við frjálst framtak og frelsi einstaklingsins, Sjálfstfl., bera ábyrgð á.

Þróunin í sjávarútvegsmálum er blátt áfram óhugnanleg. Á fjórum árum, 1995--1998 að báðum meðtöldum, hafa skuldir sjávarútvegsins aukist um 56 milljarða. 56 þúsund milljónir í sjálfu góðærinu þegar verðlag á sjávarvörum hefur aldrei verið hagstæðara. Svo eru taglhnýtingar sóttir upp í háskóla að skýra út þessa skuldaaukningu og fimbulfamba út og suður um ástæður hennar. En þeir nefna ekki aðalástæðuna. Þeir þegja yfir því að meiri hluti skuldaaukningarinnar er vegna kvótabrasks. Af fyrrgreindum 56 milljörðum eru 25,5 milljarðar nettófjárfesting í atvinnugreininni. 30,5 milljarða skuldaukning er mestan part vegna sölu braskaranna á veiðiheimildum, fjárhæð sem þeir hafa stungið í eigin vasa. Sú þróun mun halda áfram með vaxandi þunga.

Herra forseti. Það er kannski ekki von að stjórnmálamenn sem fá gott brautargengi í kosningum, þrátt fyrir slíka stjórnarhætti, uggi að sér. En það kemur að skuldadögum. Þá munu hinir sömu vakna upp við lúðurhljóm á dómsdegi.

Ég ítreka þá von mína og ósk að forusta míns gamla flokks bregði blundi áður en eldir af þeim degi.