Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 1999, kl. 21:43:11 (20)

1999-10-04 21:43:11# 125. lþ. 2.1 fundur 28#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 125. lþ.

[21:43]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ágætu áheyrendur. Fyrir skömmu spurði mig blaðakona hvort ég væri ekki stundum þreytt á endalausum spurningum um fjárhagsvandann í heilbrigðiskerfinu. Ég var tímabundin og svaraði að bragði að málið snerist ekki bara um hallarekstur. Um helgina fór ég að hugsa um spurninguna og komst að því sem ég auðvitað vissi eins og þú, hlustandi góður, að hallarekstur er sú hlið þjónustunnar sem við ræðum bara þegar við þurfum ekki sjálf á henni að halda.

Fyrir skömmu var mér boðið að taka þátt í degi heyrnarlausra sem var tileinkaður börnum. Mörg ykkar sáu litla fimm ára stúlku tjá sig á táknmáli í sjónvarpinu um byltinguna sem varð í lífi hennar þegar hún fékk tölvu með textasíma. Tilfinningar telpunnar létu engan ósnortinn. Þetta er heilbrigðismál, ekki hallarekstur.

Fyrir skömmu kynntu læknar á Landspítalanum nýtt sneiðmyndatæki. Það er fullkomið og fljótvirkt og það sem mér finnst dýrmætast er að ekki þarf lengur að svæfa öll börn sem fara í flóknar rannsóknir. Tækið kostar nær 100 millj. kr. sem er há upphæð, en þegar við ákváðum að kaupa það vorum við að forgangsraða. Þetta er heilbrigðismál, ekki hallarekstur. Það er þetta sem skiptir máli.

Í fjárlagafrv. sem liggur á borðum þingmanna kemur fram að útgjöldin til heilbrigðismála aukast um 13% á næsta ári. Þetta er staðfesting á stefnu Framsfl. að setja fólk í fyrirrúm. En það væri ómaklegt að eigna bara öðrum flokknum þetta. Það er ríkisstjórnin sem er að auka útgjöldin með þessum hætti. Þetta er pólitísk stefna hennar og ég get sagt það af því að þeir segja það ekki sjálfir að fjmrh. og ekki síst hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hafa ávallt staðið með heilbrrh. þegar á hefur reynt í stóru og smáu.

[21:45]

Það er ekki sjálfsagt að tveir ólíkir flokkar nái samkomulagi um að setja rúma 70 milljarða í heilbrigðis- og tryggingamál eða bæta við milljarði á einu ári til velferðarmála. Það eru miklir peningar en þetta er velferðarstefna sem ég er stolt af fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, ekki síst vegna þess að við höfum í áherslum okkar tekið mið af því sem segir í stefnuyfirlýsingunni, að ,,ráðist verði í aðgerðir til að bæta þjónustu við sjúk börn og ungmenni``.

Virðulegi forseti. Ég veit að þegar störf ríkisstjórnarinnar verða metin í framtíðinni verður henni ekki aðeins talið til tekna efnhagsstefnan sem hún fylgir. Það verður ekki bara einkavæðing sem menn staldra helst við eða sala á bönkum. Þetta eru menn að gera um allan hinn vestræna heim. Störf ríkisstjórnarinnar verða metin af áherslunum sem hún hefur í velferðarmálum. Ríkisstjórnin hefur ekki gert það sem ýmsar vinstri stjórnir gera í nálægum löndum, að skipuleggja tvenns konar heilbrigðisþjónustu, aðra fyrir efnamenn og hina fyrir efnaminni. Ætli þær áherslur séu ekki einmitt tonnatakið sem hefur haldið ríkisstjórninni svo þétt saman? Ætli þær áherslur muni ekki standa upp úr þegar ríkisstjórnin verður metin á nýju árþúsundi?

Hæstv. forseti. Gott ástand heilbrigðismála nú er ekki trygging fyrir því að það verði gott eftir tíu eða tuttugu ár. Afar brýnt er að koma böndum á rekstur heilbrigðisþjónustunnar og stöðva útgjaldaaukninguna. Undanfarin fimm ár hefur jöfnum höndum verið gripið til skammtímaaðgerða og langtímaaðgerða í þessu skyni, allt til að draga úr kostnaðaraukningu og bæta um leið þjónustuna. Ég hef stundum sagt til einföldunar að ef ná á niður hallanum í heilbrigðisþjónustunni þurfi fjórar meginleiðir.

Við getum fækkað læknisverkum, lækkað laun starfsfólks, látið sjúklingana greiða meira og sameinað dýrustu einingarnar og náð fram mjög mikilli fjárhagslegri hagræðingu. Ég hef stundum spurt til einföldunar: Vill einhver fækka læknisverkum, lækka laun heilbrigðisstarfsmanna eða krefjast þess að sjúkir greiði læknisverk að fullu? Svörin eru yfirleitt neitandi.

Þetta þýðir bara eitt. Annaðhvort látum við heilbrigðisþjónustuna þróast óbreytta eða við skipuleggjum hana upp á nýtt. Við lögðum grunn að nýrri framtíðarstefnu þegar ráðinn var einn forstjóri yfir stóru sjúkrahúsin í Reykjavík. Sú ráðstöfun tókst vel og við höldum ótrauð áfram á sömu braut. Þetta er að mínum dómi sú leið sem við þurfum að fara til að geta boðið upp á sömu þjónustu á Íslandi og boðið verður upp á meðal milljónaþjóða í næstu framtíð.

Fjárhagslega verður ekki sátt um að verja miklu meira fé til heilbrigðismála en við gerum nú. Til að varðveita allt það góða sem við bjóðum öllum upp á verðum við að fara leið aukinnar samvinnu og sameiningar.

Virðulegi forseti. Ágætu áheyrendur. Það er önnur leið sem getur í framtíðinni dregið úr kostnaði við heilbrigðiskerfið og skattheimtu ríkisins þótt hún kosti átök og tímabundnar kvalir þeirra sem í hlut eiga. Það er að hætta að reykja eða gera það sem enn þá betra er, að byrja aldrei. Þessi leið skilar sér beint í veski viðkomandi. Ég nefni þetta í tilefni evrópskrar viku gegn reykingum ungmenna sem hófst í dag og ég nefni þetta vegna þess að reykingar eru mesta heilbrigðisvandamál sem við stöndum frammi fyrir.