Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 13:38:58 (31)

1999-10-05 13:38:58# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[13:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2000. Í ræðu minni mun ég fjalla um helstu áhersluatriði ríkisstjórnarinnar í efnahags- og ríkisfjármálum eins og þau birtast í þessu frv. Auk þess mun ég gera grein fyrir helstu efnisatriðum þess. Af ráðnum hug mun ég þó ekki fjalla í smáatriðum um einstakar tillögur í frv. um fjárveitingar sem þar er að finna. Það er til þess að leggja áherslu á efnahagslegt hlutverk frv. og að niðurstöður þess í heild skipta mestu máli og eru mikilvægari en einstakar fjárveitingar sem þar er að finna.

Fjárlagafrv. fyrir árið 2000 er lagt fram með hagstæðari niðurstöðu en áður hefur þekkst hér á landi að því er best er vitað. Gildir þá einu hvort litið er á afgang í tölum eða sem hlutfall af landsframleiðslu. Rekstrarafgangur ríkissjóðs samkvæmt frv. er áætlaður 15 milljarðar króna eða sem svarar 2,2% af landsframleiðslu. Til samanburðar má nefna að fjárlagafrv. ársins 1999 var lagt fram í fyrra með 1,9 milljarða kr. afgangi en afgreitt með afgangi upp á 2,4 milljarða. Nú er áætlað að endanleg niðurstaða verði nálægt 7,5 milljarðar í afgang eða um 1,2% af landsframleiðslu. Þetta er til marks um það aðhald sem felst í fjárlagafrv. Afgangurinn tvöfaldaðist. Heildarútgjöld ríkissjóðs lækka milli áranna 1999 og 2000 bæði að raungildi, um 1,5% og í hlutfalli við landsframleiðslu um sama hlutfall, fara úr 29,2% í 27,7%.

Stóraukinn rekstrarafgangur endurspeglast í hagstæðri greiðslustöðu ríkissjóðs. Þannig er lánsfjárafgangur ríkissjóðs árið 2000 talinn verða um 24 milljarðar króna samanborið við 20 á yfirstandandi ári og 17 milljarða afgang árið 1998. Samanlagt nemur lánsfjárafgangur áranna 1998--2000 því um 61 milljarði króna. Þetta svarar til ríflega fjórðungs af heildarskuldum ríkissjóðs. Öllu þessu fjármagni er unnt að verja til uppgreiðslu lána eða til að bæta stöðu ríkissjóðs að öðru leyti. Eins og þessar tölur bera með sér er í frv. lögð megináhersla á að nýta hagstætt árferði til þess að reka ríkissjóð með verulegum afgangi. Þessi stefnumörkun er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá síðasta vori þar sem meðal annars er kveðið á um nauðsyn aðhaldssamrar hagstjórnar og að ríkissjóður skuli rekinn með umtalsverðum afgangi. Við núverandi aðstæður er fátt mikilvægara til að draga úr þenslu í efnahagslífinu, sporna gegn viðskiptahalla og tryggja stöðugleika, ekki síst í verðlagsmálum.

Töluverðra breytinga er að vænta í efnahagsmálum á næsta ári miðað við fyrirliggjandi þjóðhagsspá. Eftir mikinn hagvöxt undanfarinna ára er nú spáð að úr honum dragi og að hagvöxtur verði 2,7% á árinu 2000. Þjóðarútgjöld eru talin aukast um 2,5% samanborið við 4,5% aukningu á þessu ári og tæplega 12% aukningu í fyrra. Einkaneysla, samneysla og fjárfesting aukast einnig á bilinu 2--2,5% samkvæmt spánni.

Í forsendum fjárlaga fyrir yfirstandandi ár var miðað við að verðhækkanir milli áranna 1998 og 1999 yrðu 2,5% og að hækkunin innan ársins yrði 3%. Ýmislegt hefur orðið þess valdandi að verðbólgan á árinu verður meiri en þá var reiknað með. Hins vegar er gert ráð fyrir að verulega dragi úr verðhækkunum á næsta ári og að neysluverðsvísitalan hækki um nálægt 2,5% frá upphafi til loka næsta árs, samanborið við um 4,5% hækkun á þessu ári. Meðalhækkunin milli ára verður þó meiri vegna mikilla hækkana á síðari hluta þessa árs, eða á bilinu 3,5--4%. Þess má geta að nýjasta spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um verðlagsþróun hér á landi er nokkru hagstæðari en þær tölur sem fram koma í þjóðhagsáætlun.

Nokkur umræða hefur orðið um stöðu efnahagsmála að undanförnu, m.a. í ljósi þeirrar verðlagsþróunar sem ég hef gert að umtalsefni. Eðlilegt er að spurt sé hvernig stjórnvöld hyggist bregðast við aukinni verðbólgu. Þessari spurningu hefur að nokkru leyti verið svarað með þeirri ákvörðun Seðlabankans fyrir skömmu að hækka vexti í fjórða sinn á einu ári. Þessi ákvörðun er að mínu viti rökrétt og eðlileg og gefur um leið skýr skilaboð um að stjórnvöld muni einskis láta ófreistað til að hamla gegn verðbólgunni. Um leið stuðlar hún að hækkun gengis íslensku krónunnar sem aftur leiðir til lækkunar innflutningsverðs og þar með minni verðbólgu til skamms tíma.

Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að veigamestu og skýrustu áherslur stjórnvalda um að það verður ekki látið viðgangast að verðbólgan fari úr böndunum komi fram í þessu fjárlagafrv. Niðurstaða frv. um tvöfalt meiri rekstrarafgang á næsta ári en í ár felur í sér skýr skilaboð um að ríkisstjórnin hyggist beita sér af alefli gegn verðbólgu og viðskiptahalla með öllum tiltækum ráðum. Stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er mjög skýr og verður ekki misskilin.

Ég vil einnig undirstrika ábyrgð Alþingis í þessum samhengi og mikilvægi þess að í engu verði hvikað frá markmiðum fjárlagafrv. þannig að fjárlög verði afgreidd með að minnsta kosti jafnmiklum afgangi og gert er ráð fyrir í frv. Í þessu felst vitaskuld að ýmsum verkefnum sem mörgum kann að þykja brýn verður að skjóta á frest. Hér eru engar millileiðir færar. Meginatriðið er að tryggja stöðugleikann og því þurfa aðrar áherslur einfaldlega að víkja um sinn. Á því byggir áframhaldandi farsæld og velmegun í landinu og ekkert mun koma sér betur fyrir heimilin og atvinnulífið. Ég treysti því að þessi sjónarmið hafi víðtækan hljómgrunn og njóti skilnings bæði hér á hinu háa Alþingi og almennt í þjóðfélaginu.

[13:45]

Þrátt fyrir að verðlagshækkanir síðustu mánaða hafi orðið meiri en æskilegt getur talist er ekki unnt að líta fram hjá þeirri staðreynd að þróun efnahagsmála hér á landi að undanförnu hefur verið hagstæð og flestir mælikvarðar á afkomu þjóðarbúsins verið mjög jákvæðir. Hagvöxtur hefur verið á bilinu 5--6% síðustu fjögur ár, eða tvöfalt meiri en gengur og gerist í helstu nágrannalöndum. Kaupmáttur heimilanna hefur aukist meira á undanförnum árum en dæmi eru um hér á landi, eða um nálægt fjórðung síðan 1995. Þetta jafngildir 5--6% kaupmáttaraukningu á ári að jafnaði, eða þrisvar sinnum meira en í helstu viðskiptalöndunum. Atvinnuleysi er um 2% og er hvergi lægra sé tekið mið af aðildarríkjum OECD. Verðbólga hefur verið á bilinu 1,5--2,5% allt fram á þetta ár. Staða ríkisfjármála hefur mjög færst til betri vegar að undanförnu og horfur á ríflegum afgangi á fjárlögum á næstu árum ef rétt er að málum staðið.

Staða ríkisfjármála er ekki einungis hagstæð í samanburði við fyrri ár heldur einnig með tilliti til stöðunnar í helstu nágrannaríkjum. Þannig er Ísland eitt fárra aðildarríkja OECD þar sem ríkissjóður skilar afgangi. Í flestum ríkjanna er halli sem nemur á bilinu 1--2% af landsframleiðslu. Jafnframt er skuldastaða hins opinbera betri hér en víða annars staðar sem og staða opinberra lífeyrismála. Í þessu felst hins vegar ekki að unnt sé að slaka á þeirri ábyrgu og aðhaldssömu efnahagsstefnu sem hér hefur verið fylgt að undanförnu. Við verðum að nota það svigrúm sem nú er fyrir hendi til að grynnka enn frekar á skuldum ríkisins og létta þannig undir með komandi kynslóðum.

Ofangreindar staðreyndir sýna svo ekki verður um villst að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur skilað miklum árangri. Jafnframt hefur Ísland skipað sér á bekk með þeim þjóðum sem sýnt hafa hvað bestan árangur í efnahags- og ríkisfjármálum að undanförnu. Þegar horft er til baka til þess tíma er hér ríkti óðaverðbólga og óstöðugleiki var landlægur verður þetta að teljast ótrúlega góður árangur eins og fram hefur komið í skýrslum OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sömu sögu er að segja af þeim fyrirtækjum sem hafa skoðað stöðu íslenskra efnahagsmála með það fyrir augum að meta lánshæfi Íslands. Niðurstaða þessara aðila hefur verið á sama veg, að staða efnahagsmála sé traust og umbætur í stjórn efnahagsmála undanfarin ár hafi skilað mikilvægum árangri og komið Íslandi í hóp þeirra ríkja sem best standa í þessu tilliti. Jákvæð umsögn þessara aðila og bætt lánstraust hefur síðan skilað sér með áþreifanlegum hætti í þjóðarbúið í formi lægri vaxta af erlendum lánum því að lánstraust íslenska ríkisins þjónar sem ákveðin viðmiðun fyrir aðra lántakendur.

Það er enn frekar til marks um þau umskipti sem orðið hafa í ríkisfjármálum á undanförnum árum að frá árinu 1990 hefur svokallaður undirliggjandi halli í ríkisfjármálum --- eða kerfishallinn eins og hann er stundum nefndur --- sem þá nam tæplega 30 milljörðum kr., snúist í 6--7 milljarða kr. afgang. Þessi mælikvarði sýnir afkomu ríkissjóðs þegar áhrif hagsveiflunnar hafa verið fjarlægð. Það er því ekki rétt sem sumir halda fram að hagstæð afkoma ríkissjóðs skýrist eingöngu af efnahagsuppsveiflunni eða góðærinu sem kallað er. Vissulega aukast tekjur ríkissjóðs þegar vel árar, en nú hefur verið búið svo um hnútana að ríkissjóður mun að óbreyttu einnig skila afgangi í venjulegu árferði. Útreikningar af þessu tagi byggjast að vísu ekki á nákvæmum vísindum en gefa á hinn bóginn sterka og ánægjulega vísbendingu um hvert stefnir. Samkvæmt framreikningum eru horfur á að afgangur á ríkissjóði á þennan mælikvarða þrefaldist á næstu fjórum árum ef haldið verður áfram á þeirri braut sem mörkuð er í fjárlagafrv. sem ég tel bæði sjálfsagt og eðlilegt.

Heimilin í landinu hafa einnig notið þess árangurs sem náðst hefur í efnahagsmálum eins og sést best á því að útgjöld þeirra til ýmissa málaflokka hafa stóraukist að undanförnu, hvort sem litið er til almennra neysluútgjalda eða fjárfestinga í íbúðarhúsnæði í kjölfar aukins kaupmáttar. Það er enn fremur til marks um bætta stöðu heimilanna að vanskil þeirra hafa minnkað. Traust og farsæl efnahagsstefna skilar sér einnig í almennum fyrirtækjarekstri, hvort sem litið er til hefðbundinna atvinnugreina eða fyrirtækja í nýjum greinum sem hafa haslað sér völl að undanförnu, bæði innan lands og utan. Bætt staða atvinnulífsins er síðan grundvöllur fyrir enn aukinni velmegun heimilanna.

Ég hef lagt mikla áherslu á það bæði nú og í fyrra að batnandi afkoma ríkissjóðs gerir honum kleift að greiða niður skuldir og grynnka á vaxta- og greiðslubyrði næstu ára. Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að þessu. Sú vinna hefur skilað þeim árangri að í stað langvarandi hallareksturs og skuldasöfnunar hafa skuldir ríkissjóðs lækkað um meira en fimmtung frá 1995 til ársloka 1998 og horfur eru á frekari lækkun á þessu og næsta ári. Samkvæmt áætlun fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að skuldahlutfallið verði nálægt 30% í árslok 2000 samanborið við 51% í árslok 1995 og er þá miðað við hlutfall af landsframleiðslu. Jafnframt hefur þetta orðið til þess að vaxtagreiðslur ríkissjóðs lækka um 2 milljarða kr. á næsta ári miðað við 1998 og er þar að sjálfsögðu um varanlega, árlega lækkun að ræða.

Mikil lækkun skulda ríkissjóðs er vitaskuld fagnaðarefni og ætti að vera kappsmál allra. Í þessu sambandi vil ég þó nefna nokkur álitamál sem upp koma við núverandi aðstæður og gera það að verkum að ekki er sjálfgefið að verja lánsfjárafgangi ríkissjóðs einvörðungu til að lækka skuldir. Lítum aðeins nánar á þetta. Eins og ég hef sagt gefur hagstæð greiðslustaða ríkissjóðs vissulega færi á að lækka skuldirnar verulega en hér þarf hins vegar jafnframt að huga að stöðu efnahagsmála hverju sinni í víðara samhengi. Ef lánsfjárafgangur ríkissjóðs er eingöngu nýttur til að lækka innlendar skuldir leiðir það, að öðru óbreyttu, til vaxtalækkunar, einkanlega á lánum til lengri tíma. Sú þróun er þegar hafin en við núverandi aðstæður þarf að gæta þess að það stuðli ekki að aukinni eftirspurn og þenslu. Á hinn bóginn setur gjaldeyrisforðinn því nokkrar skorður hversu langt er unnt að ganga í að greiða niður erlendar skuldir sem þó væri að sjálfsögðu æskilegast út frá almennum efnahagssjónarmiðum. Einnig eykur uppgreiðsla erlendra skulda þrýsting á gengi krónunnar og getur leitt til gengislækkunar sem sömuleiðis er mjög óheppilegt við núverandi aðstæður. Hér þarf því að iðka vissa jafnvægislist í lánastýringu þar sem einnig kemur til greina að ávaxta hluta afgangsins í Seðlabanka eða með öðrum hætti.

Sérstaklega kemur til athugunar að nýta þær hagstæðu aðstæður sem nú ríkja til að koma til móts við fyrirsjáanlegan fjárhagsvanda B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem til er kominn vegna fyrri ára. Staðan er sú að ríkissjóður er, eins og kunnugt er, á endanum ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum þótt ekki sé hægt að líta á þær sem skuldir í hefðbundnum skilningi. Þessar skuldbindingar hafa stórvaxið á undanförnum árum. Sýnt er að að óbreyttu stefnir í sjóðþurrð hjá B-deild lífeyrissjóðsins um árið 2010 þannig að ríkissjóður þurfi þá og framvegis að standa undir öllum útgreiddum lífeyri úr þessum hluta sjóðsins á grundvelli bakábyrgðar sinnar. Þá alvarlegu stöðu er brýnt að koma í veg fyrir. Það verður best gert með skipulegum innborgunum í sjóðinn, t.d. næstu tíu árin. Í ársbyrjun kynnti ég að a.m.k. milljarður króna af afgangi þessa árs yrði lagður í sjóðinn á þessu ári. Nú eru horfur á að unnt verði að hafa þá fjárhæð enn hærri, jafnvel verulega hærri. Heildarfjárvöntun lífeyrissjóðsins, sem er á ábyrgð ríkissjóðs, er talin vera um 55 milljarðar kr. að bestu manna yfirsýn. Brýnt er að gera heildaráætlun um að taka á þessum vanda og er nú unnið að því af hálfu fjármálaráðuneytisins í samstarfi við stjórn sjóðsins. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem að þessari hlið málsins er hugað í alvöru og fé greitt beint inn í sjóðinn. Hins vegar hefur þegar verið tryggt að A-deild lífeyrissjóðsins sem allir nýir starfsmenn greiða í, mun ekki lenda í þessum vanda.

En aðalatriði málsins er að finna leiðir til þess að ráðstafa lánsfjárafgangi ríkissjóðs með þeim hætti að það stuðli að efnahagslegum stöðugleika til lengri tíma og minnki framtíðarskuldbindingar.

Ég mun nú gera grein fyrir helstu áhersluatriðum frv. eins og þau birtast á tekju- og gjaldahlið þess.

Minni hagvöxtur á næsta ári veldur því að vænta má minni aukningar tekna ríkissjóðs en að undanförnu. Í heild er þó gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði um 205 milljarðar kr. árið 2000 sem er um 10 milljarða kr. aukning frá áætlun ársins 1999. Þar af er reiknað með um 2,5 milljarða kr. aukningu í tekjusköttum einstaklinga, um 1 milljarðs kr. hækkun á tryggingagjöldum og um 5 milljarða kr. aukningu í veltusköttum. Tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu eru taldar lækka úr 30,3% árið 1999 í 29,8% árið 2000 og skatttekjur lækka um svipað hlutfall.

Heildarútgjöld ríkissjóðs árið 2000 eru áætluð 190 milljarðar kr. og aukast um 2,7 milljarða kr. frá áætluðum útgjöldum árið 1999. Þar af eru 2,2 milljarðar kr. vegna umsaminna launahækkana. Heildarútgjöld lækka þannig um 1,5% að raungildi frá áætlaðri útkomu þessa árs miðað við fyrirliggjandi verðlagsforsendur. Útgjöldin lækka um svipað hlutfall af landsframleiðslu, eða úr 29,2% í 27,7% eins og ég hef áður nefnt.

Mig langar til að víkja sérstaklega að tveimur þáttum þeirra breytinga sem urðu á framsetningu fjárlaga á síðasta ári þar sem ég hef orðið var við nokkurn misskilning á eðli þeirra. Fyrra atriðið er náskylt því efni sem ég gat um áðan og varðar áhrif og meðferð lífeyrisskuldbindinga ríkisins. Nú eru bæði fjárlög og ríkisreikningur færð á rekstrargrunni, en fjárlög voru áður eingöngu færð á greiðslugrunni þótt ríkisreikningur væri á rekstrargrunni. Í þessu felst meðal annars að nú ber að færa þær skuldbindingar sem falla á ríkissjóð á fjárlagatímabilinu til gjalda jafnóðum og til þeirra er stofnað, jafnvel þótt þær komi ekki til greiðslu fyrr en löngu síðar. Þetta sést best á færslu lífeyrisskuldbindinga ríkisstarfsmanna, en hækkun á þeim vegna breytinga á launakerfi ríkisstarfsmanna á þessu og síðasta ári er öll bókfærð á rekstur þessara tveggja ára þótt hún komi til greiðslu á mörgum árum og jafnvel áratugum. Þótt ýmsum þyki þetta ankannalegt við fyrstu sýn tel ég þessar breytingar til mikilla bóta þar sem þær gera öll fjármál ríkissjóðs sýnilegri sem og hvaða skuldbindingar gengist er undir hverju sinni. Heildaryfirsýnin er mun betri. Það er af sem áður var að teknar séu ákvarðanir í dag sem fela í sér stórfelld útgjöld í framtíðinni án þess að þeirra sé getið í fjárlögum. Nú er skilmerkilega skýrt frá því hvaða afleiðingar tilteknar ákvarðanir hafa í för með sér fyrir ríkissjóð í formi skuldbindinga og um þessar bókhaldsbreytingar var góð samstaða í þinginu á sínum tíma. Með þetta í huga kemur á óvart að heyra því haldið fram að í gangi sé einhver feluleikur um þetta efni hvort sem er í fjárlagagerðinni eða í framsetningu ríkisreiknings. Þannig hefur því til dæmis verið haldið fram að verið sé að fela þær lífeyrisskuldbindingar sem rekja má til kjarasamninga við ríkisstarfsmenn á árunum 1997 og 1998. Þessu vísa ég algjörlega á bug enda eru þessi áhrif tilgreind skilmerkilega, bæði í nýbirtum ríkisreikningi fyrir árið 1998 og í fjárlögum þessa árs sem og frumvarpinu fyrir hið næsta. Hins vegar getur verið flókið mál að meta þessar skuldbindingar og aðeins á færi sérfræðinga. Með þeim breytingum á tilhögun lífeyrismála sem forveri minn í fjármálaráðherrastóli beitti sér fyrir var tekið á þessum málum til frambúðar. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til á þessu sviði og fyrirhugaðar innborganir í sjóðinn bera vott um fyrirhyggju og ábyrga fjármálastjórn.

Víkjum þá að seinna atriðinu sem ég vil vekja athygli á og lýtur að breytingum á framsetningu fjárlaga. Það eru hinir tveir mismunandi mælikvarðar á afkomu ríkissjóðs sem nú eru notaðir, þ.e. annars vegar bókfærð afkoma á rekstrargrunni, svokallaður tekjujöfnuður, og hins vegar lánsfjárjöfnuður. Báðir mælikvarðar hafa hlutverki að gegna. Sá fyrri sýnir mat á afkomu ríkissjóðs að teknu tilliti til áfallinna en ógreiddra skuldbindinga svo sem lífeyrisskuldbindinga. Það er ljóst að gjaldfærsla þessara skuldbindinga hefur neikvæð áhrif á bókfærða afkomu ríkissjóðs eins og glöggt kom í ljós í ríkisreikningi ársins 1998, en þar voru gjaldfærðir rúmlega 20 milljarðar kr. Árið 1999 er gjaldfærslan talin geta numið 8 milljörðum kr. og í fjárlagafrv. er reiknað með um 6,6 milljarða kr. gjaldfærslu. Rekstrarafkoma ríkissjóðs, eða tekjujöfnuður eins og hann kallast á fagmáli, segir því ekkert um greiðsluflæði innan ársins og getur þar af leiðandi ekki orðið grundvöllur umræðu um áhrif ríkisfjármálanna á efnahagslífið til skamms tíma litið. Þar verður að nota hinn mælikvarðann, lánsfjárjöfnuðinn. Hann mælir það fjármagn sem raunverulega er til ráðstöfunar eða þá fjárvöntun sem til staðar kann að vera og er því sú stærð sem skiptir mestu fyrir áhrif ríkisfjármála á lánsfjármarkaðinn og efnahagslífið hverju sinni. Lánsfjárjöfnuður er því í reynd mælikvarði á það hvort stjórnvöld fylgja aðhaldssamri eða undanlátssamri stefnu, hvort ríkissjóður þarf að fjármagna rekstur sinn með lántökum eða ekki. Stórfelldur lánsfjárafgangur á árunum 1998--2000 sýnir ótvírætt að ríkisstjórnin fylgir aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum sem hamlar gegn þenslu í efnahagslífinu og stuðlar að auknum stöðugleika.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir áframhaldandi sölu á eignarhlut ríkisins í ýmsum fyrirtækjum, eins og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að tekjur af eignasölu gangi ekki inn í rekstur ríkissjóðs til þess að standa undir útgjöldum. Slíkt væri að sjálfsögðu mikið glapræði. Gert er ráð fyrir að slíkar tekjur gangi á næsta ári einvörðungu til þess að lækka skuldir ríkisins. Í framtíðinni kemur til greina að verja hluta þeirra til sérstakra innviðaverkefna á sviði samgangna og upplýsingatækni, eins og tekið er fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að sala ríkiseigna skili tæplega 4 milljarða kr. söluhagnaði á árinu 2000.

[14:00]

Þessi fjárhæð ásamt 11 milljörðum króna til viðbótar af almennum tekjum mynda þann 15 milljarða króna rekstrarafgang sem er niðurstaða frv. Við núverandi aðstæður er ljóst að sala á eignarhlut ríkisins í ýmsum fyrirtækjum, t.d. bönkunum, er álitlegur kostur auk þess sem slíkt er æskilegt með tilliti til almennra rekstrar- og hagkvæmnisjónarmiða. Í fjárlagafrv. er af þeim sökum gert ráð fyrir að stigin verði nokkur skref í þá átt á næsta ári. Enginn vafi er á að það mun skila sér í traustari umgjörð efnahagsmála almennt. Hins vegar hefur ekki enn verið endanlega afráðið hvar borið verður niður í þessu efni og því er söluhagnaður á næsta ári varlega áætlaður. Á næstunni verður unnið að nánari útfærslu á þessum málum á vegum ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum á sviði skattamála sem einkum hafa miðað að því að treysta samkeppnisstöðu atvinnulífsins, draga úr atvinnuleysi, tryggja afkomu hinna tekjulægri, stuðla að auknum stöðugleika í efnahagslífinu og bæta lífskjör heimilanna. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að þessar skattbreytingar gangi ekki gegn þeirri þróun sem er í helstu nágrannaríkjunum. Hefur ekki síst verið unnið að því að lækka skatthlutföll. Hér minni ég t.d. á þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar í tengslum við síðustu almennu kjarasamninga að lækka tekjuskatt um fjögur prósentustig. Þessi skattalækkun hefur skilað mikilli kjarabót í vasa launafólks og m.a. lækkað jaðaráhrif. Jafnframt hefur stefnan í skattamálum miðað að því að fækka undanþágum og stuðla að breiðari skattstofnum og um leið draga úr möguleikum til undandráttar frá skatti. Með þessum aðgerðum hefur í senn verið rennt styrkari stoðum undir atvinnulífið, bæði hér innan lands og gagnvart erlendum keppinautum og stuðlað að auknum kaupmætti heimila.

Alþjóðlegur samanburður í skattamálum er Íslandi hagstæður enda höfum við forðast að falla í sömu gryfju og margar nágrannaþjóðirnar, þ.e. að reyna að leysa öll vandamál í gegnum skatta- og tilfærslukerfin. Fyrir vikið hefur skattbyrðin haldist innan þolanlegra marka enda sýna skýrslur OECD að skattbyrði hér á landi er með því lægsta sem þekkist í aðildarríkjum þeirra samtaka. Ég vil þó taka það fram að ég tel að almennt séu skattar of háir hér á Íslandi og að vinna þurfi að því að lækka skattbyrði almennings þegar efnahagsaðstæður gefa tilefni til. Við núverandi þensluástand eru almennar skattalækkanir hins vegar ekki skynsamlegar. Því ber fremur að beina athyglinni í þessum efnum að sérstökum leiðréttingum eða augljósum ágöllum í skattkerfinu og vinna bug á þeim. Tillaga ríkisstjórnarinnar um að hækka millifæranlegan persónuafslátt hjóna eða sambýlisfólks í áföngum á kjörtímabilinu, sem liggur nú þegar sem frv. á borði þingmanna, er dæmi um þetta og fleiri slík atriði verða til athugunar.

Mikilvægt er að samhæfa stefnuna í skattamálum almennri efnahagsstefnu. Jafnframt hlýtur stefnan í skattamálum í vaxandi mæli að taka mið af þeim breytingum sem hafa orðið á alþjóðavettvangi þar sem frelsi í viðskiptum á öllum sviðum hefur víðast hvar leyst höft, boð og bönn af hólmi. Í þessu samhengi vil ég nefna að ég hef fyrir nokkru sett á laggirnar sérstaka nefnd sem skipuð er kunnáttufólki úr viðskiptalífinu sem ætlað er að vera ráðgefandi um þessi mál. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru tilgreind nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa að leiðarljósi við endurskoðun skattalöggjafarinnar. Þannig er brýnt að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið með það fyrir augum að draga enn frekar úr neikvæðum jaðaráhrifum í skattkerfinu.

Með ákvörðun Alþingis um skattlagningu fjármagnstekna var stigið mikilvægt skref í átt til samræmingar í skattlagningu. Nú þarf að huga að næstu skrefum, m.a. þeim sem lúta að lækkun og samræmingu eignarskatta. Í dag njóta sumar tegundir eigna skattfrelsis á meðan aðrar eignir eru að fullu skattlagðar. Loks þarf að taka til sérstakrar skoðunar samspil bótakerfis almannatrygginga, greiðslna úr lífeyrissjóðum, skattkerfis og sparnaðar í efnahagslífinu. Á næstu árum og áratugum blasir við hlutfallsleg aukning eldra fólks sem mun að óbreyttu hafa í för með sér aukin útgjöld til lífeyris-, heilbrigðis- og umönnunarmála. Verkefni stjórnvalda er að leita leiða til að bregðast við þessum horfum án þess að skattbyrði aukist. Á næstunni verður skipuð sérstök nefnd undir forustu forsrn. til þess að fara ofan í þessi mál og gera tillögur um úrbætur.

Í fjárlagafrv. er lögð áhersla á aðhald í rekstri ríkisins og tekið er á umframútgjöldum stofnana sem orðið hafa á þessu ári. Jafnframt er áfram unnið að styrkingu þeirra málaflokka sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á, einkum velferðar- og menntamála. Þannig aukast framlög til heilbrigðismála um tæp 13% frá árinu 1998, framlög til almannatrygginga og velferðarmála um 11% og framlög til fræðslumála um tæplega 7%.

Ég tel einnig sérstaka ástæðu til að nefna aukin framlög úr ríkissjóði til að taka á áfengis- og fíkniefnavandanum, einkanlega meðal ungmenna. Sömuleiðis eru framlög til sambýla fatlaðra aukin.

Í frv. eru á hinn bóginn umtalsverð áform um frestun framkvæmda, eða sem nemur rúmlega 2,2 milljörðum króna miðað við yfirstandandi ár. Ef ekki hefði komið til frestunar hefði stofnkostnaður aukist á milli ára, vegna markaðra tekjustofna til vegagerðar og áforma sem uppi voru um að ljúka ýmsum stórum byggingaráföngum. Með frestun framkvæmda er í senn stuðlað að auknum afgangi á ríkissjóði og hamlað gegn þenslu í efnahagslífinu. Ég vil í þessu samhengi undirstrika það sem ég nefndi fyrr í ræðu minni að þessi stefnumörkun ber vott um þann staðfasta ásetning ríkisstjórnarinnar að róa að því öllum árum að draga úr þenslu og treysta stöðugleikann í efnahagsmálum. Í þessu sambandi má nefna að í frumvarpinu fyrir næsta ár eru stórfelld útgjöld sem tengjast eingöngu næsta ári og þeim tímamótum sem þá verða. Nema þau í allt um milljarði króna en hverfa að mestu árið eftir.

Helsti vandi á útgjaldahlið á þessu ári er aukinn rekstrarkostnaður í heilbrigðiskerfinu umfram heimildir fjárlaga. Við undirbúning frv. var lögð áhersla á að greina þennan vanda og gerðar eru tillögur um 1,4 milljarða króna viðbótarframlög til að styrkja rekstur sjúkrastofnana. Í fjáraukalögum fyrir árið 1999 verður einnig lögð til veruleg viðbót við framlög þessa árs. Ljóst er að áfram verður að vinna að tillögum um hvernig brugðist verði við miklum og vaxandi útgjöldum í heilbrigðiskerfinu. Nú er til endurskoðunar fyrirkomulag í heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að skoða möguleika á breyttu rekstrarformi einstakra þjónustuþátta eða stofnana til að tryggja landsmönnum góða þjónustu en auka jafnframt ábyrgð stjórnenda á rekstrinum. Kannaðir verða möguleikar á auknu samstarfi og verkaskiptingu sjúkrastofnana þannig að nýjungar og fjölbreytni fái notið sín. Meðal annars er ætlunin að skilja á milli hlutverks ríkisins sem kaupanda þjónustunnar annars vegar og veitanda hennar hins vegar.

Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að endurskoða ýmsa þætti í ríkisrekstrinum með það fyrir augum að auka hagkvæmni og bæta þjónustu. Hér má nefna aukin útboð ýmissa verkefna og framkvæmda, stækkun og sameiningu stofnana, auk þess sem ríkið kaupir þjónustu í ríkari mæli en áður af einkaaðilum. Jafnframt hefur eftirlit með framkvæmd fjárlaga verið hert. Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut, meðal annars með því að gera samhliða auknu sjálfstæði stjórnenda ríkisstofnana auknar kröfur til þeirra um árangur og ábyrgð á rekstrinum. Á vegum ráðuneyta verður áfram unnið að endurskipulagningu og hagræðingarverkefnum með það að markmiði að bæta þjónustu og minnka kostnað.

Áfram verður unnið að umbótum í ríkisrekstrinum, m.a. með auknum útboðum og sameiningu og styrkingu stofnana, þjónustusamningum og auknu svigrúmi og ábyrgð stjórnenda. Í morgun var undirritaður samningur milli ríkisins og Háskóla Íslands sem er gott dæmi um þessa stefnu. Kostir einkaframkvæmdar verða áfram nýttir þar sem það á við og stefnt að einfaldari og skilvirkari ríkisrekstri og stuðlað að aukinni ráðdeild í meðferð opinberra fjármuna. Gera þarf eðlilegar arðsemiskröfur til fyrirtækja í eigu ríkisins og gæta að því að allur kostnaður við þjónustu ríkissjóðs komi fram. Mörkin milli einkareksturs og þess sem hingað til hefur verið talinn eðlilegur hluti af opinberri starfsemi eru sífellt að verða óljósari. Ríkissjóður þarf því sífellt að endurskoða hlutverk sitt og gæta að því að samkeppnisstaða milli einkaaðila og ríkisins verði sem jöfnust og nýta sér jafnframt í auknum mæli þjónustu einstaklinga og samanburð við einkamarkað.

Herra forseti. Ég hef í máli mínu lagt áherslu á að það séu veigamikil rök fyrir því að treysta stöðu ríkisfjármála enn frekar og ná fram þeim sögulega afgangi á næsta ári sem frv. gerir ráð fyrir. Það gefur ekki aðeins færi á að greiða niður skuldir heldur mun það einnig verða til þess að draga úr þenslu og hamla gegn verðbólgu sem ekki skiptir síður máli við núverandi aðstæður. Auk þess myndar afgangur á ríkissjóði mótvægi við viðskiptahallann og stuðlar að auknum þjóðhagslegum sparnaði eins og alkunna er.

Fjárlagafrv. er þess vegna mikilvægt efnahagslegt útspil af hálfu ríkisstjórnarinnar í þeirri viðleitni að treysta stöðugleikann í sessi sem hlýtur að vera markmið allra landsmanna. Afgangur af rekstri ríkissjóðs sem nemur 15 milljörðum króna, 40% af öllum tekjuskatti einstaklinga, er mjög mikilvægt innlegg af hálfu ríkisstjórnarinnar miðað við núverandi efnahagsástand. Það hefði verið auðvelt að eyða öllum þessum peningum. Lánsfjárafgangur sem nemur 2/3 hlutum alls tekjuskatts einstaklinga segir enn meiri sögu. Það blasir við öllum og þarf vart að taka fram. Markmiðið er að sjálfsögðu að stuðla að batnandi lífskjörum heimilanna og alls almennings, gera okkar góða land enn betra. Með þessu frumvarpi er lagður hornsteinn að áframhaldandi stöðugleika og velmegun í landinu. Þess vegna er mjög brýnt að Alþingi og fjárln. þess standist ásælni þeirra sem munu gera tilkall í þá miklu fjármuni sem hér eru til meðferðar.

Sú gagnrýni hefur þegar heyrst frá stjórnarandstöðunni og fleirum að með þessu frv. sé ríkisstjórnin að brjóta sína eigin stefnuyfirlýsingu eða stjórnarflokkarnir einhver af svokölluðum kosningaloforðum. Þetta er vitanlega fjarri sanni og sérstaklega hafa árásir á Framsfl. eftir að fjárlagafrv. kom fram verið tilefnislausar. Stefnuyfirlýsingin er eins og segir í henni sjálfri starfsáætlun til fjögurra ára, þ.e. út kjörtímabilið. Í henni eru mörg stefnumið sem verður náð smám saman. En mikilvægasta markmiðið um þessar mundir er að sjálfsögðu að tryggja stöðugleikann, skapa skilyrði fyrir áframhaldandi hagvöxt, auka þjóðhagslegan sparnað og reka ríkissjóð með umtalsverðum afgangi eins og segir í stefnuyfirlýsingunni. Það er forsenda þess að unnt verði síðar að koma öðrum stefnumálum sem þar er að finna farsællega í höfn. Það ættu allir að geta séð.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar.