Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 15:26:25 (40)

1999-10-05 15:26:25# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir yfirferð og ræðu hv. formanns fjárln., Jóns Kristjánssonar. Ég vil ítreka að í ræðu minni fór ég yfir og viðraði skoðun mína um nauðsyn þess að ríkissjóður væri rekinn með verulegum jákvæðum jöfnuði til að greiða niður skuldir. Þetta var það sem ég sagði og ég stend við það.

En varðandi sölu eigna til þess að bæta stöðu aldraðra og öryrkja þá get ég sagt þetta svona: Mér er alveg sama hvort þeir peningar, sem þarf til að bæta þeirra stöðu, eru teknir frá þeim afgangi sem orðinn er til eða það séu seldar eignir til þess að komast upp í 15 milljarða til að greiða niður skuldir, það breytir engu í mínum huga. Aðalatriðið er að það verður að bæta stöðu þessa fólks, það verður að gerast. Þess vegna var ég að gagnrýna forsendurnar sem eru settar fram á bak við 15 milljarðana.

En ég ætla að biðja hv. formann fjárln. að muna að ég nefndi líka í ræðu minni að ég tel forsendur varfærnar. Það eru varfærnar forsendur að tala um 2,5% hagvöxt á móti 5,8% hagvexti sem er í ár. Það er varfærni. Ég held að við getum vonast eftir meiri tekjum þó að ég ætli ekki að fara að gera það að umræðuefni á þessari stundu en það mun ugglaust koma í ljós við endurskoðun.

Herra forseti. Ég þarf ekki að ræða frekar um þá 15 milljarða sem ég vonast til að verði í afgang en það mun gerast að útgjöld munu aukast verulega umfram þær tölur sem eru nú nefndar. Ég bið menn að muna að það mun vanta að óbreyttu a.m.k. 2 milljarða til reksturs heilbrigðiskerfisins á næsta ári ef ekkert verður að gert núna.