Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 15:33:04 (43)

1999-10-05 15:33:04# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við fyrri ræðu mína að bæta nema að það var síður en svo að ég væri að gera lítið úr kjörum aldraðra og öryrkja með sögu þeirri sem höfð var eftir einhverjum manni, eins og hv. 5. þm. Vesturl. orðaði það, en var hv. formaður stjórnmálaflokks sem heitir vinstri grænir. En ég var ekki að gera lítið úr kjörum aldraðra og öryrkja með þessu. Það er fjarri mér að gera það. Ég er ætíð tilbúinn til þess að ræða þau mál. (Gripið fram í.) Ég var að benda á hugsanavillu sem ég tel að hafi gripið hv. 5. þm. Vesturl. varðandi þetta. Ég tel að kjarabætur til þessa hóps verði að byggja á rekstrartekjum ríkissjóðs en ekki sölu eigna. Ég er tilbúinn að ræða þau mál og við munum væntanlega gera það í nefndinni eins og ávallt áður. Þrátt fyrir allt hefur verið unnið að því að bæta kjör þessa fólks m.a. á yfirstandandi ári en ég er ætíð tilbúinn til að fara yfir þessi mál eins vel og kostur er.