Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 16:28:21 (50)

1999-10-05 16:28:21# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[16:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég bið hæstv. ráðherra þegar hann er að svara spurningum að fara ekki að nota helminginn af ræðutímanum til að gera mér upp skoðanir um það hvernig eigi að sólunda afgangi ríkissjóðs. Það fólst ekkert slíkt í máli mínu. Þvert á móti lýsti ég mig mikinn stuðningsmann þess að ríkissjóður og aðrir sameiginlegir sjóðir væru reknir af ábyrgð þannig að þeir gætu vel axlað sín hlutverk. Það er hins vegar rétt hjá hæstv. ráðherra að mikil þörf er á að rétta hlut ýmissa sem halloka hafa farið. Þar af leiðandi er ég þeirrar skoðunar, þrátt fyrir mikilvægi þess að ríkissjóði sé beitt sem sveiflujöfnunartæki og hann sé rekinn með afgangi í góðæri, að taka eigi nokkra fjármuni til brýnna aðgerða t.d. í velferðarmálum og byggðamálum. Ég er þeirrar skoðunar. En ég er líka tilbúinn, hæstv. ráðherra, til þess að afla tekna á móti. Ég er tilbúinn til að afla tekna fyrir því öllu með skattlagningu á hátekjufólk, gróðafyrirtæki, fjármagnstekjur og annað slíkt.

Áhyggjur mínar af forsendunum varða kannski aðallega það, hæstv. ráðherra --- og við skulum ekkert æsa okkur yfir því, það er bara efnahagsleg sagnfræði sem við þekkjum --- að það skiptir miklu máli að reyna að átta sig á því, að svo miklu leyti sem það er fyrirsjáanlegt eða viðráðanlegt, hvar við erum stödd á hagsveiflunni. Það þekkja allir að á tímum uppsveiflunnar þegar verðlagið er að fara upp og eyðslan og innflutningurinn mikill, þá koma tekjur í ríkissjóð. Það ætti ekki að þurfa að kenna sjálfstæðismönnum þetta sem reyndu ár eftir ár að gera lítið úr árangri Ragnars Arnalds sem fjmrh., sem rak síðastur manna á undan núv. hæstv. ráðherra ríkissjóð með afgangi. Það væri ekkert að marka, sögðu þeir, af því að það væri verðbólga og eyðsla.

[16:30]

En þá var það þannig að við vorum stödd í hagsveiflunni ofarlega á kúrfunni rétt áður en hún flest út og fer niður aftur. Ef svo er þá geta menn verið í mikilli hættu staddir vegna þess að ríkissjóður er enn þá að mæla inn tekjuaukann af uppsveiflu undangenginna missira en fram undan er kannski þveröfug þróun og þá getur dregið hratt í sundur. Þess vegna skiptir það máli að menn séu á raunhæfum forsendum, raunhæfum nótum, hafi vaðið fyrir neðan sig og fari varlega í allri áætlunargerð og menn fari ekki offari vegna þess að löngunin til að sýna glæsilegar niðurstöðutölur beri þá ofurliði.