Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:18:14 (55)

1999-10-05 17:18:14# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:18]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýddi með athygli á ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Hann lét vaða á súðum eins og sjómanni sæmir um hve launakjör hafi batnað í landinu. Ég get tekið undir það í mörgum tilvikum, aðallega þó varðandi þá sem hærri launin bera úr býtum.

En ég hef í dag eingöngu rætt í tengslum við fjárlagafrv. um að það verði að bæta hag öryrkja, aldraðra og þeirra sem lægst hafa launin. Er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sammála mér um að gagnvart þeim þurfi sértækar aðgerðir? Hvaða leiðir sér hv. þm. til þess? Ég spyr hann sem reynslumikinn mann í þessum efnum. Um aðra hluti sem hv. þm. ræddi erum við að mörgu leyti sammála, a.m.k. um höfuðmarkmið fjárlagafrv.

Hér var rætt um fjáraukalög. Ég er búinn að fara yfir það í dag að það á að setja það inn í fjárlagafrv. sem fyrirsjáanlegt er. Það var t.d. fyrirséð eftir að gerðir höfðu verið þeir aðlögunarsamningar sem lágu fyrir um áramót að þá vantaði fjármuni til að standa undir launum einstakra stofnana. Er þá ekki fyrirséð að meiri fjármuni vanti? Menn verða þá bara að taka á einhverju öðru, stýra á einhvern annan máta en gert hefur verið.

Ég hef ekki séð nein ráð. Ég hef séð ætlanir um að taka á einhverjum málum. Það er ekki sagt á hvern hátt menn ætla að gera það. Það er hvergi komið að því. Það er talað um að sameina yfirstjórn og hagræða í rekstri en ekkert hvernig.