Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:53:04 (67)

1999-10-05 17:53:04# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:53]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess sem hv. þm. hafði að segja um menntamálin og rannsóknir og vísindi vildi ég láta það koma fram að það er alveg ljóst samkvæmt þessu fjárlagafrv. að þá hækka framlög úr ríkissjóði bæði til Rannsóknarráðs Íslands með því að stofnaður er nýr sjóður, launasjóður höfunda fræðirita, sem kemur til sögunnar og fær 8 millj. kr. og einnig hækka framlög vegna rannsókna og þróunar í upplýsingatækni og umhverfismálum þar sem um hækkun er að ræða samkvæmt markáætlun sem samþykkt var. Það gefur því ekki rétta mynd eins og hv. þm. rakti að framlög úr ríkissjóði til rannsókna lækki. Að sjálfsögðu kemur ekki allt fé til rannsókna og þróunar úr ríkissjóði þannig að þær tölur sem hann nefnir eru ekki endilega þær tölur sem liggja fyrir þegar litið er á fjárlagafrv. og þvert á móti ber það þess merki að menn eru að leggja aukið fé til rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Auk þess vil ég geta þess að í dag var undirritaður samningur við Háskóla Íslands um kostnað við kennslu í háskólanum og þar er undanskilið að við munum fara í viðræður við háskólann um rannsóknarþáttinn þannig að um það mál hefur verið samið við Háskóla Íslands.

Varðandi Námsgagnastofnun er það svo að fé sem hún fær á þessu ári umfram þær tölur sem hv. þm. nefndi er um 80 millj. kr. og ekki er skorið niður varðandi næsta ár. Við erum því að leggja aukið fé til námsgagnagerðar í samræmi við nýjar námskrár og nýja skólastefnu og það fé mun halda áfram að verða veitt til þeirrar starfsemi hvað sem líður einstökum fjárveitingum til Námsgagnastofnunar því að þetta er fé sem menntmrn. ráðstafar með hliðsjón af framkvæmd skólastefnunnar og framkvæmd námskrárvinnunnar.

Varðandi einstaka framhaldsskóla er það þannig að það er rétt sem hv. þm. sagði að fjárveitingarnar taka mið af fjölda nemenda. Ef nemendum fækkar minnka líka fjármunirnir. Því miður er þróunin sú, eins og menn vita, að nemendum fækkar frekar á landsbyggðinni en hitt.