Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:57:41 (69)

1999-10-05 17:57:41# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þegar litið er til framlaga til rannsókna og vísindastarfsemi í landinu eru hlutfallstölur þannig að aldrei hefur verið jafnhátt framlag hlutfallslega miðað við þjóðarframleiðslu eins og nú, um 2%. Það hefur hækkað ár frá ári og er núna í ár líklega um 2%.

Varðandi framhaldsskólana er ástæða til að vekja athygli þingmanna á því að þær upplýsingar sem birtar eru í þessu fjárlagafrv. og sú tafla sem hér er birt og öll útlistun á fjárhagsmálum framhaldsskólanna er mun nákvæmari en nokkru sinni áður við gerð fjárlaga. Það er því lagt á borðið fyrir þingmenn betur en nokkru sinni fyrr hvernig staðið er að fjárveitingum til framhaldsskólanna og þessar tölur eru tölur sem hafa verið ræddar við hvern einasta framhaldsskóla og gerðir hafa verið samningar við skólana og er unnið að gerð samninga við skólana. Það hefur lengi verið ósk þeirra sem starfa í framhaldsskólunum að upplýsingar af þessu tagi lægju fyrir. Það fer því ekkert á milli mála hvernig kostnaði er háttað og menn sjá líka að það er mjög mismunandi hve kostnaður á nemanda er mikill. Hæstur er hann í Verkmenntaskólanum á Austurlandi, í almennum framhaldsskóla, það eru 616 þús. kr. á nemanda. Síðan í Stýrimannaskólanum 623 þús. kr. á nemanda. En í Menntaskólanum í Reykjavík er hann 305 þús. kr. á nemanda.

Síðan sjá menn líka í töflunni hvernig húsnæðismálum er háttað þannig að það er lagt mun skýrar fyrir alþingismenn en nokkru sinni fyrr hvernig að fjármálum framhaldsskólanna er staðið og þeir geta þess vegna lagt mat á það hvaða þættir það eru sem ráða mestu um stöðu skólanna.

Hitt er ljóst að þetta eru samningar sem gerðir eru á milli skólanna og menntmrn. og skólunum ber að sjálfsögðu að standa við þá samninga sem gerðir eru og fara að þeim kröfum sem settar eru fram í samningunum.